Vonandi fundin lausn á vanda fiskeldisins segir Steingrímur Hermannsson, forsætisráðherra SAMÞYKKT var á ríkisstjórnarfundi síðdegis í gær að Framkvæmdasjóður hefði milligöngu um að útvega viðskiptabönkunum fjármagn tilað auka afurðalánin til jafns við...

Vonandi fundin lausn á vanda fiskeldisins segir Steingrímur Hermannsson, forsætisráðherra

SAMÞYKKT var á ríkisstjórnarfundi síðdegis í gær að Framkvæmdasjóður hefði milligöngu um að útvega viðskiptabönkunum fjármagn tilað auka afurðalánin til jafns við það sem Tryggingasjóður fiskeldis mælir með í hverju tilfelli, að sögn Steingríms Hermannssonar, forsætisráðherra. Hann sagði að heildarfjárhæðin sem til þessa þyrfti lægi ekki fyrir, en fyrirtækin fengju nú að meðaltali um 37,5% afurðalán og myndu með þessu aukast í 50%, og jafnvel meira í einstaka tilfelli.

"Við vonum að þetta muni leysa vanda þeirra fiskeldisfyrirtækja sem eru með afurðalán," sagði forsætisráðherra. Hann sagði að ekki þyrfti endilega að vera um erlendar lántökur að ræða til þessarar fjármögnunar, "en það sem hefur mesta þýðingu í þessu sambandi er að Framkvæmdasjóður gerðist milliaðili, sem hefur í för með sér viðbótarábyrgð á þessi lán."

Steingrímur sagði að undan því hefði verið kvartað að einföld ábyrgð ríkissjóðs hefði verið á þessum lánum, en nú bættist Framkvæmdasjóður við. Þegar ábyrgðin hefði verið einföld, þá hefði þurft að setja fyrirtækin í gjaldþrot, áður en að ábyrgðin tæki gildi. Þetta myndi stytta þann feril.

Steingrímur sagði að jafnframt hefði verið ákveðið að athuga hvort ekki mætti ráðstafa til bústofns kaupa ákveðnu fjármagni, þar sem síðasta ríkisstjórn hefði ákveðið að ráðstafa 800 milljónum króna til uppbyggingar fiskeldis, sem ekki væri að fullu ráðstafað. Þannig mætti nýta um 400 milljónir króna til þess að koma bústofnunum upp.