ERLENT Fjöldamorð í Kína Talið er að um 7.000 manns hafi fallið í höfuðborg Kína, Peking, á laugardag er hersveitir létu til skarar skríða gegn námsmönnum á Torgi hins himneska friðar.

ERLENT Fjöldamorð í Kína Talið er að um 7.000 manns hafi fallið í höfuðborg Kína, Peking, á laugardag er hersveitir létu til skarar skríða gegn námsmönnum á Torgi hins himneska friðar. Orðrómur var á kreiki um að kínverskar hersveitir hefðu barist innbyrðis í kjölfar blóðbaðsins en á föstudag þótti sýnt að harðlínukommúnistar hefðu náð að brjóta alla andstöðu innan flokksfor ustunnar á bak aftur. Fjölmörg ríki hafa fordæmt fjöldamorðin í Peking og þúsundir útlendinga hafa flúið landið, þ.á.m. tveir íslenskir námsmenn.

Khomeini látinn

Khomeini erkiklerkur, trúarleiðtogi Írana, lést á laugardagskvöld á 87. aldursári. Khomeini var borinn til grafar á þriðjudag og er talið að allt að tíu milljónir manna hafi komið saman í höfuðborginni, Teheran, til að syrgja hann. Ali Khameini, forseti landsins, hefur verið kjörinn eftirmaður hans. Hann þykir fremur hófsamur og á Vesturlöndum hafa vaknað vonir um að hann muni binda enda á þá algjöru einangrun Írana á alþjóðavettvangi, sem einkenndi stjórnartíð fyrirrennara hans.

Yfirburðasigur Samstöðu

Samstaða, hin óháða hreyfing pólskra verkamanna, vann yfirburðasigur í þingkosningum sem fram fóru í Póllandi á sunnudag. Þetta voru fyrst frjálsu kosningarnar í landinu frá því kommúnistar komust þar til valda. Lech Walesa, leiðtogi Samstöðu, hvatti landsmenn til sð sýna stillingu en sýnt þykir að klofningur sé kominn upp innan kommúnistaflokksins í kjölfar ósigursins.

Flugslys í Súrinam

174 fórust er DC-8 þota hrapaði á miðvikudag við Paramaribo, höfuðborg Suður-Ameríkuríkisins Súrin am. Þotan var á leið frá Amsterdam í Hollandi til höfuðborgarinnar en 14 manns lifðu slysið af.

Blóðugar róstur í Úzbekistan

Um 80 manns hafa fallið í átökum Úzbeka og Meskheta í Sovétlýðveldinu Úzbekistan. Rósturnar hófust um síðustu helgi en þær eru raktar til þjóðernismisklíðar og trú ardeilna. Meskhetar, sem eru minnihlutahópur í lýðveldinu, eru af georgískum uppruna en Jósef Stalín lét flytja þá nauðuga til Úzbekistan á stríðsárunum.

Réttarhöld hafin í Palme-málinu

Réttarhöld hófust á mánudag yfir Christer Pettersson sem ákærður er fyrir að hafa myrt Olof Palme, forsætisráðherra Svíþjóðar. Pettersson lýsti sig saklausan og á föstudag gaf sig fram vitni sem talið er að geti rennt stoðum undir fjarvistarsönnun hans.

Lestarslys í Úralfjöllum

Á fimmta hundrað manna fórust á laugardag í Úralfjöllum í einu mesta lestarslysi sögunnar. Slysið varð þeim hætti að neistaflug frá tveimur lestum er mættust kveikti í gasi sem lekið hafði út úr ónýtri leiðslu og orsakaði gífurlega sprengingu.

Reuter