Páfi í Uppsölum: Þjóðfélagið verji lífsréttinn Uppsölum. Frá Önnu Bjarnadóttur, fréttaritara Morgunblaðsins.

Páfi í Uppsölum: Þjóðfélagið verji lífsréttinn Uppsölum. Frá Önnu Bjarnadóttur, fréttaritara Morgunblaðsins.

DÓMKIRKJAN í Uppsölum var þéttsetin í gærmorgun þegar Jóhannes Páll II páfi tók þátt í síðustu samkirkjulegu bænastundinni í Norðurlandaferð sinni. Bertil Werkström, erkibiskup, talaði skýrt en kurteislega um atriði sem standa í vegi fyrir sameiningu kirknanna. Jóhannes Páll páfi II tók undir ósk hans um að deilumálin yrðu leyst en sagði að ekki mætti sameinast um lágmarks samnefnara heldur ætti að setja markið hátt. Það fór vel á með biskupunum; gullfalleg tónlist fyllti kirkjuna og hátíðar blær var yfir bænastundinni.

Páfi talaði um menntun og helgi mannlífsins á fundi með háskóla samkundunni í Uppsölum en Sixtus páfi IV gaf Jakobi Úlfssyni erkibiskupi heimild til að stofna háskóla þar árið 1477. Rómarbiskup sagði það helstu skyldu þjóðfélagsins að verja réttinn til að lifa. Hann sagði líf verða til við getnað og endast til náttúrulegs dauðadags. Orð páfa gegn fóstureyðingum voru afdráttarlausari í Uppsölum en í öðrum ávörpum hans í Norðurlandaferðinni.

Veðrið í Uppsölum í gær var svalt en bjart og fallegt. Páfi söng messu undir berum himni á Gamla Uppsala-svæðinu og sóttu hana færri en búist hafði verið við; um 5.000 manns. Nokkrir félagar í sértrúarsöfnuði hafa reynt að afhenda páfa mótmælaskjal hvarvetna þarsem hann hefur látið sjá sig í Svíþjóð. Við útimessuna hljóp ungur maður með skjalið að páfa og var aðeins um 10 metra frá honum er lögreglumönnum tókst að handsama hann.

Páfi syngur messu með ungum kaþólikkum frá öllum Norðurlöndunum í Vadstena í dag, laugardag, áður en hann flýgur heim á leið.

Jóhannes Páll páfi II.