Sandinistastjórnin í Nicaragua: Sagðir svíkja samkomulag um kosningar Washington.Reuter.

Sandinistastjórnin í Nicaragua: Sagðir svíkja samkomulag um kosningar Washington.Reuter.

STJÓRN sandinista í Nicaragua hefur brotið ákvæði samkomulags við stjórnarandstæðinga um fyrirkomulag þingkosninga á næsta ári, að sögn talsmanns bandaríska utanríkisráðuneytisins. Stjórnvöld höfðu heitið þvíað við skipan í fimm manna kjörnefnd yrði þess gætt að oddamaður yrði formaður og hlutlaus. Sandinistar hafa nú skipað eigin fulltrúa í formannssætið og hlutlausi fulltrúinn er sagður hallur undir stjórnina.

Kjörnefndin hefur nánast alræðisvald yfir framkvæmd kosninganna; flokkar geta að vísu kvartað ef þeim finnst sér mismunað, en ekki er hægt að áfrýja úrskurðum nefndarinnar. Flokkar stjórnarandstæðinga, sem eru 14, lögðu í samningaviðræðum við stjórnina gífurlega áherslu á að skipan nefndarinnar tryggði hlutlausa og réttláta meðferð deilumála í kosningabaráttunni. Sandinistar hafa meirihluta í þinginu sem samþykkti á miðvikudagskvöld skipan nefndarinnar þarsem sandinistar hafa í orði kveðnu aðeins tvo fulltrúa eins og stjórnarandstæðingar. Ætlunin var að hlutlausi fulltrúinn yrði valinn eftir samráð stjórnar og stjórnarandstöðu. Eftirlitsmenn, sem fylgjast með framkvæmd samkomulagsins, segja að oddamaðurinn sé úr flokki sem sakaður hafi verið um samvinnu við sandinista.

Reuter