Teodor Shanin, prófessor og sérfræðingur um sovésk málefni: Sovéskir umbótasinnar leggja mikla áherslu á siðferðisleg gildi Hagsögufélag Íslands bauð fyrir skömmu hingað til lands Teodor Shanin, prófessor í félagsfræði og sérfræðingi í hagsögu við...

Teodor Shanin, prófessor og sérfræðingur um sovésk málefni: Sovéskir umbótasinnar leggja mikla áherslu á siðferðisleg gildi Hagsögufélag Íslands bauð fyrir skömmu hingað til lands Teodor Shanin, prófessor í félagsfræði og sérfræðingi í hagsögu við háskólann í Manchester. Shanin er forseti félagsvísindadeildar háskólans og hefur ritað margar bækur um sérgrein sína; þróun bændasam félaga. Hann flutti tvo fyrirlestra í Lögbergi, hinn fyrri um smábændur og bændahagkerfi en sá síðari fjallaði um perestrojku, umbótastefnuna í Sovétríkjunum þar sem Shanin hefur stundað rannsóknir. Shanin fæddist í Vilnius í Lettlandi 1930 en fluttist ungur til Ísraels. Á sjötta áratugnum lauk hann doktorsprófi við háskólann í Birmingham í Bretlandi og hefur stundað kennslu þar í landi síðan. Shanin hefur góð tengsl við ýmsa áhrifamenn innan sovésku vísindaakademíunnar og nokkra af helstu ráðgjöfum Míkhaíls Gorbatsjovs. Hann hefur ferðast víða um heim og aðstoðar nemendur í mörgum löndum.

Shanin hefur átt mikinn þátt í því að rannsóknir og kenningar sovéska hagfræðingsins Alek sanders Tsjajanovs á þriðja og fjórða áratugnum voru kynntar á Vesturlöndum. Tsjajanov var andvígur því að samyrkjubúskap yrði komið á með valdbeitingu en Stalín hafði aðrar skoðanir og varð Tsjajanov að gjalda fyrir það með lífi sínu 1937. Nú er aftur farið að lesa rit hans í Sovétríkjunum og var það Shanin sem kynnti þau fyrir um 600 áhugasömum embættismönnum og fræðimönnum er hann hélt fyrirlestur í Moskvu 1987. Undanfarna mánuði hefur málgagn Sovétstjórnarinnar, Ísveztíja, birt viðtöl við Shanin um nýsköpun í landbúnaði og umbætur í Kína.

Er blaðamaður Morgunblaðsins ræddi við Shanin kom fram að hann er bjartsýnn á framgang perestrojkunnar enda þótt ekkert hafi enn miðað í efnahagsumbótum og lífskjörum reyndar hrakað í stjórnartíð Gorbatsjovs. Hann sagði afturhaldsmenn einfaldlega ekki geta bent á neina aðra leið út úr ógöngunum. Mesta hindrunin væri andstaða embættismanna neðarlega í valdastiganum. Þótt ókyrrðin í jaðarlýðveldunum, þ. á m. Eystrasaltslöndunum, ylli erfiðleikum fyrir Gorbatsjov þá væri harla ósennilegt að herinn tæki völdin; engar hefðir væru fyrir herforingjabyltingum í rúsneskri sögu.

"Á Vesturlöndum hefur mönnum hætt við að einfalda ástandið í Sovétríkjunum á Brezhnevtímanum. Þeir sáu fyrir sér tvo pólitíska hópa í landinu, annarsvegar afturhald flokksbrodda og meðreiðarsveina þeirra, hins vegar andófsmenn á borð við Sakharov. Það gleymdist að auk þessara tveggja var stór hópur embættismanna og menntamanna sem ekki reis upp gegn öllu kerfinu en vildi þó róttækar breytingar, þybbaðist oft við þegar harðlínuofstækið gekk úr hófi. Margir þessar manna uppskáru andúð flokksbroddanna og voru stöðvaðir á framabrautinni. Þessir umbótasinnar telja Gorbatsjov tvímælalaust sinn mann.

Armenski hagfræðingurinn Abel Aganbegian er dæmigerður fyrir þennan þriðja hóp. Hann er einn af höfundum umbótastefnunnar og nú meðal nánustu ráðgjafa Gorbatsjovs. Á Brezhnevárunum var hann ungur kominn í feita stöðu hjá valdamikilli stofnun, gat nýtt sér hlunnindi eins og utanlandsferðir og fleira því líkt auk þess sem frekari frami var tryggður. Yfirmenn hans urðu furðu lostnir og síðar fokvondir þegar hann á sjöunda áratugnum sagði upp, sagðist fremur vilja sinna fræðilegum rannsóknum og sótti um starf í Síberíu. Þeim fannst hann vera svikari; skildi hann ekki hvað hann hafði það gott?

Aganbegian nýtti vel tímann í Síberíu en þar átti sér stað mikil þensla í efnahagslífinu og skortur var á sérfræðingum af öllu tagi. Á tuttugu ára ferli sínum þar heimsótti hann aragrúa af verksmiðjum og samyrkjubúum, ræddi við starfsfólk á vinnustöðunum. Hann varð yfirmaður Rannsóknastöðvar í hagfræði í Novosibirsk og síðar félagi í sovésku vísindaakademíunni. Smám saman varð stofnun hans brjóstvirki umbótaviðleitni í efnahags- og félagsmálum. Aganbegian og Tatjana Zaslavskaja, yfirmaður félagsvísindadeildar stofnunarinnar, mótuðu drög að perestrojkunni, sem Gorbatsjov tók síðan upp á arma sína.

Vesturlandamenn mega ekki standa í þeirri villutrú að umbótasinnarnir ætli sér að fara sömuleiðir og hefðbundin markaðsþjóð félög. Markaðslausnir í sovéskum landbúnaði eru t.d. lítt nothæfar; sjálfstæð bændastétt er ekki til lengur. Þeir hyggjast finna þriðju leiðina en það er afar óljóst hvar þeir enda. Ég hygg að einhverskonar blandað hagkerfi verði lausnin. Ef til vill verður komið á fjölflokkakerfi einhvern tíma á næstu öld en þess ber að gæta að Rússar hafa enga reynslu af vestrænu lýðræði. Rússneskur almenningur er hræddur við slíkar hugmyndir, telur að þær myndu leiða til upplausnar ríkisins.

Umbótasinnar telja ekki að allt hafi mistekist í Sovétríkjunum; þeir segja t.d. að unnin hafi verið stórvirki í menntamálum síðustu 70 árin. Það einkennir mjög alla umræðu þeirra hve siðferðislegum gildum er haldið á loft og þau mikið rædd; markmiðið má ekki aðeins vera aukinn hagvöxtur heldur bætt kjör í margvíslegum skilningi, betra líf landsmanna," sagði Teodor Shanin.

Morgunblaðið/RAX

Teodor Shanin: "Ég er bjartsýnn þrátt fyrir efnahagserfiðleikana; sovéskir afturhaldsmenn geta einfaldlega ekki bent á aðrar lausnir en perestrojku."