MICHAEL Jón Clarke tónlistarmaður hefur hlotið starfslaun bæjarlistamanns Akureyrar 1997-'98. "Það er mat menningarmálanefndar að Michael Jón Clarke sé mjög vel að titlinum Bæjarlistamaður Akureyrar kominn og viljum við þakka honum hans störf," sagði Alfreð Gíslason, formaður nefndarinnar, í hófi sem haldið var á Fiðlaranum á sumardaginn fyrsta.
Michael Jón Clarke næsti bæjarlistamaður

MICHAEL Jón Clarke tónlistarmaður hefur hlotið starfslaun bæjarlistamanns Akureyrar 1997-'98. "Það er mat menningarmálanefndar að Michael Jón Clarke sé mjög vel að titlinum Bæjarlistamaður Akureyrar kominn og viljum við þakka honum hans störf," sagði Alfreð Gíslason, formaður nefndarinnar, í hófi sem haldið var á Fiðlaranum á sumardaginn fyrsta. Þar voru jafnframt veittar viðurkenningar fyrir störf að menningarmálum og úthlutað úr Húsfriðunarsjóði.

Michael Jón Clarke er fæddur í Nottingham í Englandi en flutti til Akureyrar að loknu námi og hefur upp frá því verið áberandi í tónlistarlífi bæjarins. "Auk þess að vera framúrskarandi tónlistarmaður hefur hann einnig unnið frábært starf á vegum Tónlistarskólans á Akureyri undanfarin 25 ár. Hann hefur ávallt unnið af krafti og metnaði að sínum störfum. Michael hefur gegnt stjórnunarstörfum af áhuga og dugnaði og ávallt skilað miklum árangri," sagði Alfreð ennfremur.

Michael sagðist ætla að nota tímann vel og væru nægar hugmyndir sem vinna þyrfti betur að. Hann sagði mikla uppbyggingu hafa orðið á sviði menningarmála í bænum á síðustu árum, enn vantaði þó tónlistarhús og vildi hann ekki bíða í önnur 25 ár eftir að slíkt hús risi á Akureyri.Farsæl störf að menningarmálum

Jóhann Ingimarsson, Nói í Valbjörk, Jón Kristinsson og Þórgunnur Ingimundardóttir hlutu viðurkenningu fyrir störf sín að menningarmálum. Jóhann hefur starfað að höggmyndalist og eru höggmyndir og skúlptúrar eftir hann víða um bæinn, Jón var ein aðaldriffjöðrin í starfsemi Leikfélags Akureyrar, lék yfir 40 hlutverk hjá félaginu og var helsti hvatamaður þess að atvinnuleikhús var stofnað í bænum árið 1973. Þórgunnur er píanóleikari og kennari, hóf fyrst kennslu við Tónlistarskólann á Akureyri árið 1946 og kenndi með hléum næstu árin, en frá 1974 óslitið til 1995.

Endurbætt íbúðarhús af dugnaði og smekkvísi

Hjónin Sigmundur R. Einarsson og Guðbjörg Inga Jósefsdóttir hlutu viðurkenningu Húsfriðunarsjóðs fyrir framlag þeirra til húsverndar á Akureyri. "Þau hafa af dugnaði og smekkvísi endurbætt íbúðarhúsin Hrafnagilsstræti 2 og Laugagötu 2 auk þess að hafa nú á skömmum tíma fært til fyrra horfs og endurbætt hluta 1. hæðar Hafnarstrætis 96 þar sem þau reka blómabúð sem áður var í Hafnarstræti 88, en þar áttu þau einnig hlut að máli sem eigendur við endurbætur hússins," segir í umsögn sjóðsstjórnar. "Þá metur menningarmálanefnd mikils viðhorf þeirra til húsverndar sem endurspeglast í verkum þeirra og er öðrum hvatning til að varðveita þann menningararf sem við eigum í góðum húsum, ekki aðeins þeim elstu heldur einnig yngri húsum sem ekki hafa enn hlotið þann sess sem þeim ber við mat á varðveislugildi bygginga."Morgunblaðið/Margrét Þóra MICHAEL Jón Clarke verður næsti bæjarlistamaður á Akureyri, við hlið hans eru þau Jóhann Ingimarsson, Þórgunnur Ingimundardóttir og Jón Kristinsson sem hlutu viðurkenningu menningarmálanefndar fyrir störf að menningarmálum á Akureyri og þá koma hjónin Sigmundur R. Einarsson og Guðbjörg Inga Jósefsdóttir sem hlutu viðurkenningu Húsfriðunarsjóðs fyrir framlag sitt til húsverndar í bænum.