Ólöf Kristjánsdóttir, Víði ­ Kveðjuorð Hinn 8. júní var borin til hinstu hvílu Ólöf Kristjánsdóttir til heimilis að Víði í Mosfellsdal. Hún var burtkölluð í blóma lífsins allt of ung. Það er erfitt að sjá á eftir svo ungri og lífsglaðri stúlku sem Ólöf vinkona okkar var. Við kynntumst henni haustið 1986 í Héraðsskólanum á Skógum. Flest vorum við krakkarnir sem á heimavistinni vorum á okkar fyrsta ári í skólanum og daginn sem við byrjuðum röltum við um gangana og kynntum okkur hvert fyrir öðru. Þegar við komum að herberginu sem Ólöf og Heiðrún frænka hennar voru í varð viðdvölin lengri, við byrjuðum strax að tala um daginn og veginn og urðum fljótt góðir vinir. Ólöf var virkur þátttakandi í öllum félagslegum íþróttum skólans, auk þess sem húnhafði hestinn sinn í hesthúsi semþar er og fór hún oft í útreiðartúra. Hún hafði alltaf tillögur um hvað ætti að gera ef okkur leiddist, þá dró hún okkur út í fótbolta, körfubolta eða sund, einnig fórum við oft út að skokka ef þátttakan var ekki nóg í aðra útileiki. Minnisstæðar eru gönguferðirnar sem við fórum svo oft í. Þá gengum við uppað Skógarfossi eða Hvernufossi. Þegar gott var í veðri fórum við í sundföt og fórum að vaða í Hvernu fossi eða að ganga á bak við fossinn. Ólöf var mjög sterkur og góður persónuleiki og viljum við þakka fyrir allar skemmtilegu stundirnar sem við áttum saman. Við þökkum fyrir að fá að hafa kynnst henniog hafa hana með okkur á Skógum. Þannig mun minningin um góða vinkonu varðveitast hjá okkur. Um leið og við kveðjum Ólöfu hinstu kveðju vottum við ástvinum hennar innilegustu samúð okkar.

Vinir úr Skógaskóla

veturinn 1986 til 1987.