Minning: Svava Arnórsdóttir Fædd 1. ágúst 1919 Dáin 3. júní 1989 Hin langa þraut er liðin, nú loksins hlauztu friðinn, og allt er orðið rótt. (V. Briem) Mig langar að minnast ömmu minnar, Svövu Arnórsdóttur, sem lést á Landspítalanum þann þriðja júní síðastliðinn.

Það er mikil gæfa að eiga ömmu sem jafnframt er manns besta vinkona, en þannig var amma, besta vinkona barnabarna sinna.

Amma var þeim hæfileikum gædd að geta brúað kynslóðabilið, og sjá hlutina frá sjónarhorni mínu. Á erfiðum stundum unglingsáranna þegar mér fannst ég vera ein og yfirgefin og misskilin af öllum, gat ég þó alltaf leitað til ömmu. Húnskildi vandamálin svo ofurvel og átti svo góð ráð.

Já, alltaf frá því ég man fyrst eftir mér var stórt pláss í hlýju hjarta ömmu tileinkað barnabörnunum, sem nú eru orðin sautján talsins. Á heimili hennar var ávallt sérstakur staður ætlaður okkur, sem amma útbjó og fyllti af bókum og leikföngum sem valin voru af alúð og skilningi á því hvað börn vilja.

Ávallt stóð heimili ömmu mér opið og þangað leitaði ég mikið og alltaf fór ég þaðan ríkari bæði af andlegum og veraldlegum gæðum. Gjafmildi ömmu var einstök, húnvar alltaf að kaupa eitthvað fallegt til að gleðja aðra.

Það eru margar góðar minningar sem ég á um ömmu mína, hún var ákaflega glaðlynd og hress kona og þrátt fyrir mikil veikindi var alltaf stutt í glettnina.

Margar góðar stundir sátum við saman og skröfuðum langt fram á nótt, um allt milli himins og jarðar, rétt eins og jafnöldrur. Og það var margt sem ég lærði á þessum samtölum sem ég fæ ömmu seint fullþakkað.

Það sem mér er efst í huga á þessari stundu er þakklæti, þakklæti til guðs fyrir að hafa gefið mér yndislega ömmu sem gaf mér svo margt. En nú er amma komin á betri stað, þar sem henni líður vel, en minningin um hana lifir og mun lifa í brjóstum okkar.

Ég kveð elskulega ömmu mína.

Gerður