Bjarni Ásmundsson ­ Minningarorð Fæddur 25. október 1903 Dáinn 22. mars 1989 Við lát Bjarna Ásmundssonar rifjast upp góðar minningar allt frá bernskuárunum. Sem strákur kom ég hvenær sem ég vildi inn á heimili Bjarna og Kristjönu Helgadóttur, konu hans. Stutt var milli heimila fjölskyldu minnar og fjölskyldu Bjarna og við strákarnir lékum okkur saman svo árum skipti. Á þessum árum bjuggu Bjarni og Kristjana í Hallgrímsbæ. Allt í kring voru tún og venja var að drengir létu eins og þeir vildu í margskonar leikjum á túnunum. Þegar þurfti að svala þorsta eða fá eitthvað í svanginn var ekkert sjálfsagðara en að skreppa með einhverjum af sonum Bjarna og Kristjönu og seðja hungrið. Ég held að þau hafi notið þess að sjá lífsgleðina og matarlystina í ungum heilbrigðum drengjum, þótt þau byggju sem fleiri á þessumárum við nokkuð þröngan kost á Húsavík.

Bjarni fæddist í Holti á Húsavík og ólst þar upp og var mestallan sinn aldur þar. Um tíma vann Bjarni á Presthólum í Núpasveit sem ungur maður. Einstæð saga er til um ferð Bjarna gangandi til Akureyrar nokkru fyrir aðventu. Hann lenti í hrakningum í mikilli ófærð og féll í gjá og varð að dúsa af sé óveður í nær þrjá sólarhringa. Með einstöku harðfylgi og snerpu komst hann upp og náði að Skógum í Reykjahverfi og mátti þá eigi tæpara standa að hann héldi lífi. Æfinlega var Bjarni léttur í spori og þegar nokkuð lá við virtist manni meira formsatriði að hann tyllti tá við jörð en að hann þyrfti þess. Hann gekk rösklega að vinnu og lét verk vel í hendi. Það hefur fylgt sonum hans.

Bjarni og Kristjana gengu í hjónaband 1925. Þeim varð sjö sona auðið. Helgi, Ásmundur, Halldór, Hallmar Freyr (d. 21. júlí 1987), Hreiðar, Pétur og Jón Ágúst.

Bjarni og Stjana áttu heimili í nokkur ár í Hallgrímsbæ, en fluttu sig að öðrum bæ, nokkru ofar á Húsavík og bar hann nafnið Grafar bakki. Þar var heimili þeirra lengstaf, en nýtt hús var reist 1946 og fékk nafnið Ásgarðsvegur 15. Þarvar Helgi með heimili einnig. Árið 1972 keyptu þau húsið á Árgötu 6. Kristjana lést árið 1976. Hún var hörku dugleg og studdi mann sinn mjög í harðri lífsbaráttu lengst af. Bjarni bjó á Árgötu 6 til æviloka.

Saga Bjarna og Kristjönu er táknræn fyrir þann kraft og lífsvilja að bjarga sér og sínum í gegnum kröpp kjör. Helga sig heimilinu og leggja sig fram um að draga björg í bú. Árin frá 1925 og fram að um 1940 voru engin sældarár fyrir verkamann með stóran barnahóp. Bjarni gekk að hverju sem gafst af alúð og samviskusemi. Hann reri á sjó, sá um beitingu og stokkun á línu, öll verk í landi við útgerð með sonum sínum, hafði kindur og gekk til rjúpna. Um margra áraskeið var útgerð aðal verksvið Bjarna með Helga og síðar sonum sínum fleiri. Bjarni verkaði fisk í salt og var hann afar vandvirkur. Hann keypti fisk og vann við söltun allt til 1968. Það var gaman að koma til hans við flatning. Léttur í skapi, hláturinn skær og smitandi, handbragðið hnitmiðað og gleði við vinnu og verðmætasköpun. Ekki auðgaðist Bjarni af útgerð sinni og varð að sætta sig við skarðan hlut að lokum með sonum sínum. Hann bugaðist samt ekki og aldrei hitti ég hann öðruvísi en kæti og jákvæð viðhorf einkenndu tal hans. Hann hallmælti engum. Enginn var hans óvinur. Ég naut vináttu hans í meira en hálfa öld.

Síðasta kveðja var á afmælisdegi föður míns, 18. desember sl., en Bjarni var þá á sjúkrahúsinu á Húsavík. Hann gerði að gamni sínu við mig og kveið engu. Svo vildi einkennilega til að faðir minn og Bjarni dóu sama daginn með fárra tíma millibili. Löng og góð vinátta var með þeim og fjölskyldum þeirra og starfsvettvangur löngum sá sami og næstum því hlið við hlið.

Ég votta sonum Bjarna og Kristjönu mínar innilegustu samúðarkveðjur. Minningin um góðan dreng og ötulan mun lifa.

Jón Árm. Héðinsson