Ágústa Arinbjörnsdóttir Elsku besta amma okkar, Ágústa Arinbjörnsdóttir, er látin. Minningarnar hrannast upp og renna sem þögul myndbrot í gegnum hugann. Traustur faðmur sem ævinlega var tilbúinn að veita hlýju þegar ljósleita telpuhnokka bar að garði. Á leið heim og í skóla var hægtað hlaupa inn til ömmu og biðja um eitthvað í svanginn eða leita skjóls undan einhverju hrekkjusvín inu. Aðeins í eitt sinn fengum viðekki að koma inn. Það var þegarvið komum fýldar á svip til ömmu því mamma hafði verið að skamma okkur. Þá sagði amma nei - og sendi okkur til baka heim til pabba og mömmu.

Stelpukríli á Ægisíðu liggja úti í glugga og sjá ömmu koma labbandi fyrir hornið. Þá var tekið til fótanna - við út og henni fylgt síðasta spölinn heim að húsi. Húnvar vart komin inn er háværar raddir glumdu: "Amma, hvað er í töskunni?"

Við vorum uppi á kolli í eldhúsinu hjá ömmu að undirbúa jólin. Það var mikil upphefð er við fengum loks að mylja sykur og möndlur á kökurnar. Enn æstist leikurinn þegar bökuð var "ömmukaka" með rauðum, grænum og gulum röndum sem enn í dag er vinsælasta jóla meðlætið hjá öllum í fjölskyldunni.

Það voru ófáar næturnar sem við fengum að sofa hjá ömmu. Er fram liðu stundir og við komnar á unglingsárin sagði hún eitt sinn: "Ég er viss um að þið eigið eftir að koma með mennina ykkur upp í rúm til mín." Amma hefur ætíð verið sannspá, enda fór svo að önnur okkar hóf búskap sinn, svo að segja, í svefnherberginu hennar ömmu.

Oft fengum við að fylgja ömmu: Til Vestmannaeyja, á saumafundi og í Gúttó og til margra vina hennar.

Undanfarin ár hafa börnin okkar fengið að deila ömmu með okkur. Þau hafa átt ófáar stundir með henni sem þau munu búa að um ókomin ár.

Þessi minningabrot og ótal, ótal fleiri eigum við geymd í innstu hugarfylgsnum. Hlýja, trausta amma sem kenndi okkur svo margt og ætíð tók þátt í gleði okkar og sorgum. Traust hennar var það at hvarf sem aldrei brást.

Nú er komið að kveðjustund og við vonum að henni mæti hlýr faðmur afa sem hún saknaði svo sárt.

Far þú í friði,

friður Guðs þig blessi,

hafðu þökk fyrir allt og allt.

(V.Br.)

Kiddý og Soffía