Minning: Sigríður Kjartansdóttir Fædd 7. janúar 1913 Dáin 2. júní 1989 Með fátæklegum orðum langar mig til til að minnast vinkonu minnar, Sigríðar frá Völlum, sem lést 2. júní síðastliðinn. Ég var ung stúlka þegar ég kom fyrst í heimsókn að Völlum með Gíslínu vinkonu minni, dóttur Sigríðar og Björns bónda. Þá strax bundumst við Sigríður vináttuböndum, sem aldrei slitnuðu.

Þær voru óteljandi helgarnar semég fór með Gíslínu austur og dvaldi þar í einstöku eftirlæti, og alltaf kvöddu þau hjónin mig með þessum orðum: Komdu nú fljótt aftur, Gunna mín! Gestrisni þeirra hjóna var einstök og gestagangur ótrúlegur. Oft hefi ég hugsað um það síðan hvernig hún Sigríður gat komið öllu í verk sem hún þurfti að gera, en samt virtist hún alltaf hafa nógan tíma. Heilu dagana sátum við vinkonurnar í eldhúskróknum og ræddum um lífið og tilveruna og hún var að elda og baka og þrífa, en settist alltaf hjá okkur af og til með kaffibollann sinn og ræddi málin. Hún tók þátt í öllu sem viðvorum að gera, gleði okkar og sorgum. Aldrei var hún hneyksluð á þvísem við vorum að bralla og aldrei var hún að prédika yfir okkur, en hún gerði kannski smágrín að okkur og leiðbeindi svo lítið bar á og miðlaði af lífsreynslu sinni. Hún var einstaklega fróðleiksfús og hafði gaman af að kynnast fólki og átti afar létt með að umgangast hvern sem var.

Það var líka gaman að vera með henni á gleðistundum og þá sungum við gjarnan saman Dalakofann hans Davíðs og kvæðið um Helgu Jarls dóttur. Já - minningarnar eru óteljandi og allar fagrar.

Eftir að ég eignaðist mann og börn bar hún sömu umhyggjuna fyrir þeim öllum og þau minnast hennar með hlýju og þakklæti.

Elsku Gíslína, Kjartan og Jónas, tengdabörn og barnabörn. Ég sendi ykkur innilegar samúðarkveðjur. Þið hafið misst mikið, en minningarnar lifa og þær eru mikils virði.

Það er ómetanlegt lán að kynnast fólki eins og Sigríði frá Völlum og ég á henni mikið að þakka. Fyrir mína hönd og fjölskyldu minnar kveð ég hana í síðasta sinn.

Guðrún Árnadóttir