Minning: Sigríður Kjartansdóttir frá Völlum Mig langar með nokkrum orðum að minnast vinkonu minnar Sigríðar Kjartansdóttur, sem í dag verður borin til grafar í Kotstrandarkirkju garði. Fyrir 27 árum kom ég fyrst í Velli og áður en ég vissi af var ég orðin hluti af fjölskyldunni þar. Sigurgísli, Björn, Gíslína og Sigríður voru hvert á sinn sérstæða hátt fólk sem gaf lífinu lit og á sinn ljúfa og létta hátt höfðu áhrif á þroska fjölda ungmenna sem um lengri eða skemmri tíma voru hluti af samlífinu í kringum eldhúsborðið á Völlum. Þegar Sissi, Gíslína og Björn voru horfin yfir móðuna miklu flutti Sigríður með gestrisnina hennar. Sigríður byggði ekki eldhús sitt yfir þjóðbrautina, en henni var samt lagið að sveigja leið vegfarenda þann veg að þeir stöldruðu við hjá henni. Átti það jafnt við heima á Völlum, sem á Holtsgötunni.

Sigríður á Völlum var mikil láns manneskja í lífi sínu. Björn Jónasson var ástsæll lífsförunautur, sambýlið við móður og bróður var farsælt, og börn og barnabörn báru merki góðs uppeldis og gróinnar heimilismenningar.

Það var ánægjulegt að fylgjastmeð lífi Sigríðar hér síðustu árin í Reykjavík. Eftir rúm 40 ár sem starfandi húsmóðir í sveit, venti hún sínu kvæði í kross, og hóf launavinnu sem kaffikona í menntamálaráðuneytinu. Hún samlagaðist borgarlífinu án þess að fjasa, rétteinsog öðrum þeim breytingum sem lífið hefur í för með sér. Hún Sigríður kunni listina að lifa, þess nutum við samferðamenn hennar. Við Þórður og synir okkar munum minnast góðrar vinkonu, sem alltaf var veitandi, aldrei þiggjandi. Við sendum Gíslínu, Kjartani, Jónasi og fjölskyldum þeirra innilegustu samúðarkveðjur. Minningin um mæta móður og ömmu verði þeim huggun. Sjálf get ég huggað mig viðþað að þegar við Sigríður á Völlum hittumst hinum megin, verður hún búin að hella upp á.

Ágústa Þorkelsdóttir