Steindór Steindórsson Steindór Steindórsson frá Hlöðum, fyrrum skólameistari Menntaskólans á Akureyri, er látinn á Akureyri, hálftíræður að aldri. Með honum er genginn einn af mikilhæfustu mönnum samtíðar okkar.

Steindór Jónas Steindórsson fæddist að Möðruvöllum í Hörgárdal 12. ágúst 1902 en ólst upp á Hlöðum, hinum megin Hörgár, og kenndi sig lengst af við þann bæ. Móðir hans var Kristín Jónsdóttir af eyfirskum ættum, mikilhæf kona og lengi matráðskona við Möðruvallaskólann í tíð Jóns A. Hjaltalíns skólameistara. Faðir Steindórs var Jónas Steindór Jónasson frá Þrastarhóli af skagfirskum ættum, síðast verslunarmaður á Akureyri, en hann lést nokkrum mánuðum áður en Steindór fæddist.

Steindór Steindórsson braust til mennta af miklum dugnaði en litlum efnum, sonur einstæðrar móður þótt hann ætti góða að. Eftir nám í einkaskóla innritaðist hann í annan bekk Gagnfræðaskólans á Akureyri, nú Menntaskólinn á Akureyri, haustið 1920 eftir inntökupróf þá um vorið. Árið 1922 lauk hann gagnfræðaprófi með miklum ágætum og settist þá í Menntaskólann í Reykjavík. Þaðan lauk hann stúdentsprófi utanskóla vorið 1925 og sigldi um haustið til Kaupmannahafnar og nam náttúrufræði. Tók hann fyrri hluta magistersprófs í grasafræði við Kaupmannahafnarháskóla 1930 en hafði þá veikst af berklum og lauk ekki lokaprófi í grein sinni en réðst kennari að Menntaskólanum á Akureyri haustið 1930. Starfaði Steindór við skólann 42 ár, síðustu sex árin sem skólameistari.

Steindór Steindórsson frá Hlöðum var engum manni líkur. Hann var hamhleypa til verka og má segja að eftir hann liggi þrjú æviverk. Í fyrsta lagi vann hann verk sem grasafræðingur sem hver vísindamaður væri sæmdur og skipa rannsóknir hans og vísindarit honum í fremstu röð íslenskra náttúrufræðinga. Þá vann hann mikið verk sem þýðandi, rithöfundur og ritstjóri og liggja eftir hann um eitt hundrað bækur og rit, þýdd og frumsamin. Síðast en ekki síst var Steindór Steindórsson svipmikill kennari og skólameistari meira en fjóra áratugi auk þess sem hann tók virkan þátt í þjóðmálum og stjórnmálum um langt skeið, sat í bæjarstjórn Akureyrar 12 ár og á Alþingi Íslendinga um hríð.

Steindór var fylginn sér, harðdrægur og jafnvel óvæginn en trygglyndur, góðviljaður og vinfastur og undir hrjúfu yfirborði sló heitt hjarta. Hann var bæði margfróður og svo minnungur að af bar og hef ég engum manni kynnst minnugri honum. Steindór var hrífandi ræðumaður og skrifaði afbragðs stíl og er hann sennilega einn síðasti fulltrúi fjölfræðinga sem spruttu upp úr evrópskri fræðahyggju 19. aldar og lengi settu svip sinn á þjóðlíf Íslendinga.

Haustið 1966 var Steindór settur skólameistari Menntaskólans á Akureyri í veikindaforföllum Þórarins skólameistara Björnssonar og þegar Þórarinn lést 1968 var Steindór skipaður skólameistari og gegndi því starfi til 1972. Þessi ár voru erfið skólahaldi víða í Evrópu og skall flóðbylgja frelsisbaráttu ungs fólks harkalega á Menntaskólanum á Akureyri. Eimdi raunar lengi eftir af því flóði. Þessi ár voru Steindóri erfið. Ofan á veikindi konu hans, Kristbjargar Dúadóttur, bættist barátta nokkurra nemenda skólans sem vildu auka frelsi sitt með því að ganga á rétt annarra og kunni Steindór ekki ávallt ráð við þessu, sem varla var von. Nú, þegar litið er um öxl, aldarfjórðungi eftir þessa atburði, sýnist mér hlutur Steindórs góður og þrátt fyrir átök bera nemendur hans hlýjan hug til karlmennisins.

Að leiðarlokum vil ég þakka Steindóri Steindórssyni frá Hlöðum góð viðkynni. Mér er að því mikill fengur að hafa kynnst honum sem kennara, vísindamanni og sem vini og spor hans sem skólameistari Menntaskólans á Akureyri mást ekki burt. Hann setti svip á umhverfi sitt og vann skólanum vel.

Blessuð sé minning Steindórs Steindórssonar frá Hlöðum.

Tryggvi Gíslason.