11. maí 1997 | Sunnudagsblað | 2180 orð

Dósóþeus Tímóteusson, minna má það ekki vera Dósóþeus Tímóteusson, fagurkeri,lífskúnstner og skáld er kominn á efri ár. Pjetur

Hvítfaxa gengur um bæinn öðlingur ennishár með íbjúgt nef jafnt sem nafn kynjað austan frá ströndum fornra sagna. Að öðru leyti

Dósóþeus Tímóteusson, minna má það ekki vera Dósóþeus Tímóteusson, fagurkeri,lífskúnstner og skáld er kominn á efri ár. Pjetur Hafstein Lárusson ræddi viðDósóþeus um skáldskap og liðin ár.

Dósóþeus Tímóteusson,

minna má það ekki vera

Dósóþeus Tímóteusson, fagurkeri, lífskúnstner og skáld er kominn á efri ár. Pjetur Hafstein Lárusson ræddi við Dósóþeus um skáldskap og liðin ár.

Hvítfaxa gengur um bæinn

öðlingur ennishár

með íbjúgt nef jafnt sem nafn

kynjað austan frá ströndum fornra sagna.

Að öðru leyti er maðurinn að vestan.Hann gengur jafnan

með hendur fyrir aftan bak

líkt og áhyggjufullur herstjóri

nóttina fyrir einhverja af þessum úrslitaorustum

sem engum úrslitum ráða

nema þá á landakortum.Ólíkt slíkum kónum

brosir hann oftast

enda eru þeir dús

heimurinn og hann.

Saman hafa þeir baðað sig

í mörgum sólargeislum

sem glampandi stigu dans

á ljúfra veiga skálum.Sá sem um er ort hér að ofan gengur að vísu ekki lengur um stræti Reykjavíkur eins og forðum, enda sestur í helgan stein rétt utan borgarmarkanna. En svo mjög setti hann svip sinn á Miðbæinn hér forðum tíð, að ýmsum þykir svipurinn sá þar enn á ferðinni, blíður en um leið höfðinglegur, krýndur snæhvítu hári, ósjaldan harla síðu.

Þegar Steingrímur St.Th. Sigurðsson tók viðtal við Stein Steinarr og birti í tímariti sínu, "Líf og list," haustið 1950, spurði hann skáldið: "Telur þú að ljóðagerð þín og þinna líka verði farsæl í landinu, nái til fólksins?" Og ekki stóð á svarinu frekar en endranær úr þeirri áttinni: "Já vel á minnst, fólkið, hvað er það? Það er alltaf verið að tala við mig um eitthvað, sem kallað er fólk, og mér er ekki ennþá fullkomlega ljóst, hvað við er átt. Stundum held ég, að það sé kannski vinur minn Dósóþeus Tímóteusson eða eitthvað svoleiðis, en það er víst ekki rétt".

Þar höfum við nafn viðmælandands, Dósóþeusar Tímóteussonar, hvorki meira né minna. Steinn Steinarr var að sönnu meistari útúrsnúninganna og þarf því oft að lesa hann harla grannt milli línanna. En hér kom hann sér vafningalaust að efninu, þó í venjubundnum hálfkæringi,- Dósóþeus Tímóteusson er ekki það sem kallað er "fólk," a.m.k. ekki ef menn þurfa að vera steyptir í nákvæmlega sama mót og allir aðrir, til að teljast til fólks. En það er fólksins skaði, ekki hans. Því Dósóþeus hefur alla tíð verið svo skilyrðislaus dýrkandi fegurðar, jafnt augum sem anda til yndis, að ef þetta sem kallast "fólk," deildi með honum lífsviðhorfum, þá væri mannkynssagan ekki aðeins dans á rósum, heldur væri hún líkast til kennd skólabörnum í litum, tónum og ljóðum. Ofanrituðu til sönnunar má geta þess, að í bókinni "Syndin er lævís og lipur," sem Jónas Árnason færði í letur og stíl eftir Jóni Kristófer kadett, er þess m.a. getið um Dósóþeus, að hann hafi eitt sinn drukkið fjóra daga í einni lotu í tilefni af því, að hann sá fallega birkihríslu í Vífilstaðahrauni. Hverjum heilvita manni má ljóst vera, að fjögra daga drykkja er ekkert áhlaupsverk. Því má ljóst vera, að hver sá, sem leggur í slík stórræði af fagurfræðilegum ástæðum, hefur meiri unun af fegurð og yndisleik tilverunnar en almennt gengur og gerist.

En gefum Dósóþeusi orðið.

"Ég fæddist í Hnífsdal 9. september 1910. Þar var ég svo í nokkur ár, en fluttist þá til afa míns og nafna inn í Djúp. Við vorum allir Vestfirðingar. Já, já, ekkert nema Vestfirðingar. Hann langafi minn var mikill höfðingi á Langadalsströnd. En hann var náttúrulega dáinn löngu áður en ég fæddist. En eftir afa mínum, sem ég heiti í höfuðið á, man ég auðvitað vel. Hann var helvíti fallegur maður, stór og stæðilegur, en blindur mörg síðustu æviárin. Samt fór hann alltaf út til að athuga heyin. Hann þreifaði á þeim. Það var sagt," segir Dósóþeus og hlær, "að gamla manninum hefði þótt slæmt að sjá ekki kaupakonurnar. En alltaf gat hann ratað um túnið þótt blindur væri. Hann rataði eftir hljóðinu í bæjarlæknum.

Svo var það einn daginn, þegar afi var 87 ára, að hann bað mig að leiða sig yfir lækinn. Og þegar yfir hann var komið, komst hann upp í brekku. Eftir það talaði hann ekki meira því hann dó þarna. Já, hann var 87 ára, gríðarlega stór og tálbeinn. Hann veiktist aldrei neitt, nema þetta að deyja. Vinnufólkið var stundum að veikjast, eins og gengur og gerist, en afi hafði aldrei neina trú á þeim veikindum."

Gekkst þú ekki í skólann á Núpi?

"Jú, þar var ég einn eða tvo vetur hjá séra Sigtryggi."

Varstu þar samtímis Steini Steinarr?

"Já, en það var bara hluta úr vetri. Svo veiktist Steinn og fór."

"Jú," svarar Dósóþeus og brosir í kampinn, aðspurður hvort þeir kumpánar, hann og Steinn, hafi verið farnir að yrkja á Núpi. "Þó var það nú ekki mikið hjá mér. En Steinn var búinn að vera með hugann við skáldskap frá blautu barnsbeini. En hann lét lítið á því bera."

Var Hjörtur bróðir hans samtíma ykkur á Núpi?

"Já, hann var það. Hann var gáfaður og skemmtilegur maður eins og Steinn og skáldmæltur. Samt voru þeir ólíkir, bræðurnir. Hjörtur var stór og feitur og myndarlegur en Steinn grannur og lítill. Eiginlega var hann alltaf hungraður að sjá.

En heyrðu mig, ég verð að segja þér frá einu uppátæki þeirra bræðra þarna á Núpi. Það var þarna kennari, sem hafði miklar mætur á Grími Thomsen. Þetta fór náttúrulega ekki fram hjá þeim bræðrum frekar en öðrum. Svo var það, að þeir fengu sendingu frá gamalli frænku sinni. Henni var pakkað inn í gamlan og gulnaðan pappír. Nema þeir bræðurnir gera sér lítið fyrir og yrkja á þennan pappír ljóð í anda Gríms. Svo laumuðu þeir þessu til kennarans og sögðu honum eitthvað sennilegt um það, hvernig þeir hefðu komist yfir þetta. Kennarinn taldi sig hafa himin höndum tekið, settist niður og skrifaði ritgerð um þennan merka ljóðafund. Ritgerðina ætlaði hann að birta í tímariti fyrir sunnan, enda taldi hann sig ekki með neina smágersemi í höndunum. En áður en til þess kom, að ritsmíðin færi suður, guggnuðu þeir Steinn og Hjörtur og sögðu kennaranum allt af létta. Það er verst, að kvæðið er sennilega ekki lengur til," segir Dósóþeus, brosandi út að eyrum.

Hvert leiðin hafi legið að lokinni dvölinni á Núpi?

"Þá var ég tvo vetur á Hvanneyri og útskrifaðist þaðan sem búfræðingur árið 1929," svarar Dósóþeus. "Þar voru margir ágætis kennarar, t.d. Halldór Ólafsson sem kenndi íslensku."

Ætlaðir þú þér í búskap?

"Nei, ég ætlaði það nú ekki. Eiginlega vissi ég ekki hvað ég vildi. Það var þá helst eitthvað í sambandi við skáldskap. Ég var svolítið að yrkja á þessum árum og raunar einnig síðar. En svo hætti ég því. Þetta dó einhvern veginn úr mér."

Og aldrei kom nein bók?

"Nei, ekki var það nú. Einhvern tíma átti ég handrit, en það týndist. En ég birti stundum ljóð í blöðum og tímaritum. Ég átti innangengt hjá Morgunblaðinu og eins hjá Vísi meðan Árni frá Múla var þar ritstjóri. Okkur var vel til vina. Og við Jónas sonur hans erum líka ágætis vinir."

Þú ert rómantískur í skáldskap þínum, fullyrðir blaðasnápur ísmeygilega.

"Já," svarar Dósóþeus, sem raunar er ævinlega kallaður Dósi til aðgreiningar frá okkur, sem berum svo hversdagsleg nöfn, að það tekur því tæpast að stytta þau. "Já, já, ég orti rómantísk ljóð. Og það gat oft komið sér vel," bætir hann við kíminn til augnanna.

Spyrill setur upp eins flónskulegan svip og kostur er og þykist ekkert skilja hvað Dósi sé eiginlega að fara.

Nú já, gat það komið sér vel?

"Já, ég ferðaðist svo mikið um landið, enda vann ég mörg ár í viðgerðaflokki hjá símanum. Þá gat nú verið gott að eiga svona rómantísk ljóð handa konum."

Spyrill kýs að fara ekki nánar út í þá sálma, enda er villuráfandi sálum í ríki andans fyrir bestu, að grufla sem minnst í "praktísku" gildi skáldskapar. Aftur á móti skulu hér til gamans birt tvö sýnishorn af skáldskap Dósa, bæði úr Lesbók Morgunblaðsins. Fyrra ljóðið birtist þar 22. október 1972 en hið síðara 27. maí árið eftir.Það er dimmur hver dagur

Það er dimmur hver dagur hér syðra

og dapurt í hjarta mér.

Þú ert stormur og sól minna söngva

og söknuður hvar sem ég fer.Þú hylst mér í hafdjúpri fjarlægð

handan við Jökul og Skor

með Afríkumyrkur í augum

um ennið hið norræna vor.Kvöld

Eitt kvöld, eitt kvöld er sól til viðar sígur

og svalar bárur lauga fjörustein

og upp af bláum öldum mistrið stígur

og úðans perlur titra á skógargrein

og handan yfir hafið til mín flýgur

eitt heiðríkt vor sem læknar gömul mein.Eitt kvöld, eitt kvöld er sól til viðar sígur

og svalar bárur lauga fjörustein.

Nú er gleymt, hvenær þessi ljóð voru ort og skal engum getum að því leitt, hvort þau hafi komið að þeim notum, sem fyrr voru nefnd. En það leynir sér ekki, handbragð hins fágaða fagurkera.

En hvað skyldi hafa tekið við eftir námið á Hvanneyri?

"Þá var ég í kaupavinnu í Hvítársíðu," svarar Dósi að bragði. "Þar kynntist ég Magnúsi Ásgeirssyni. Hann var þingritari á veturna en vann í kaupavinnu á sumrin, auðvitað í Borgarfirði, enda var hann þaðan. Sástu hann aldrei?

Nei, sannleikans vegna verður að játa, að svo er ekki, enda skrásetjari bernskur að árum þegar Magnús dó.

Jæja, segir Dósi. "Magnús var fallegur maður og fagureygður. En hann gat verið kaldranalegur, sérstaklega við fyrstu kynni. Ég spurði hann eitt sinn, hvort ekki væri erfitt að skrá allt niður eftir þingmönnunum. Jú, hann hélt nú það, sagði að þeir bulluðu svo mikið, að oft þyrfti hann að skálda í eyðurnar til að hægt væri að fá botn í það sem þeir væru að segja. Honum hefur nýst íslenskukunnáttan við það og kannske skáldagáfan líka. Hann hafði af nógu að taka þar, blessaður."

Hvað tók við að lokinni kaupavinnu í Hvítársíðu?

"Þá fór ég að vinna hjá Thor Jensen á Korpúlfsstöðum. Þarna unnum við, að mig minnir tuttugu ungir menn og höfðum nóg að gera, enda engar mjaltavélar komnar þá. Á sumrin var svo farið með hluta af kúnum á Arnarholt á Kjalarnesi. Við sem unnum þarna fengum nóg að borða en kaupið var lítið, enda kreppa."

Lentir þú ekki fljótlega í bóhemalifnaði, eftir að þú komst til Reykjavíkur?

"Jú, jú, ég gerði það. Og þar voru ýmsir fyrir. Mest bar á Magnúsi og Steini Steinarr. Steinn var þá að vaxa úr grasi sem skáld. Magnús hafði miklar mætur á honum og rak hann til að yrkja. Framan af las hann ljóðin hans yfir og betrumbætti þau. En þess þurfti hann ekki lengi, enda var Steinn helvíti snjall. En hann var ekki bara gott skáld. Hann var líka djöfull góður að skrifa magnaðar skammargreinar." Dósa er sýnilega skemmt, þegar þetta ber á góma, enda dillar í honum hláturinn. "Þegar Steinn var á Núpi vildi séra Sigtryggur að hann færi í Háskólann," heldur Dósi áfram, "enda voru gáfurnar miklar. En bæði var hann fátækur og eins var hann bara ekkert að "spekúlera" í því að læra í skóla. Svo má ekki gleyma Tómasi. Hann var sérstaklega skemmtilegur maður. Allir voru þeir fyrirferðarmiklir, hver á sinn hátt, Magnús, Tómas og Steinn. En þeir voru góðir saman og alveg hreint ágætir á fylliríum." Dósi hlær líkast því sem löngu liðnir dagar víns og rósa séu komnir aftur og án þeirra skugga, sem þarflaust hefur talist að leggja á minnið. Lætur þess svo getið, að stundum hafi Vilhjálmur frá Skáholti slegist í hópinn. Og ekki meira um það.

"Það var mikið setið á Hressingarskálanum," segir Dósi eftir nokkra þögn. "Þar voru þeir Magnús og Steinn náttúrulega fremstir í flokki. Það voru margir sem löðuðust að þeim. T.d. komu oft námsmenn til að spjalla við þá. Ég held nú að Steinn hafi haft meira gaman af því en Magnús. Steinn var líka annálaður samræðusnillingur, ekki vantaði það nú. En það var óttalegt basl á honum þangað til hann kvæntist. Ásthildur kona hans, var honum mikil afbragðskona þótt hún væri ólík honum. Og hann hafði vit á að hlusta á hana.

Nú jæja, svo kom stríðið og atómskáldin í kjölfarið," segir Dósi aðspurður um það mál. Það er ekki á honum að heyra neina stórvægilega hrifningu, hvorki á styrjöldum né rímleysu.

Heldur þú að Steinn hafi haft þau áhrif á atómskáldin sem ýmsir vilja vera láta?

Nei, ekki heldur Dósi það. Það hefur eitthvað snúist í þeim efnum, telur hann og sér ekki ástæðu til að ræða þetta frekar.

Ein er sú gerð þjóðlegrar íslenskrar bölsýni, að menn neita að viðurkenna komu vorsins, fyrr en halla tekur á sumarið. Vonandi er þarflaust að taka það fram, að þetta gildir ekki um Dósa. T.S. Eliot varð það á, að halda því fram í upphafi þess fræga ljóðs "Eyðilandinu," að apríl væri grimmastur mánaða. Hafði hann það fyrir sér í þeim efnum, að téður mánuður græddi grös úr moldu. Þetta sýnir auðvitað ekkert annað en borgardrýldnina í þessum Ameríkana sem þráði það heitast, að fá viðurkenningu sem enskur kontóristi.

Það er þessi apríl, sem skelfdi aumingja Eliot. Vorið angar í lofti þótt enn séu grös sölnuð hér norður á hjara veraldar. Dósi rennir augum upp fjallið, yfir tún og móa. Og hafið. Vart sér ský á himni. Þetta er fögur veröld sem heilsar gömlum manni og kveður í senn. Því fyrr en varir er veröldin orðin veröld sem var.

Morgunblaðið/Halldór

DÓSÓÞEUS Tímóteusson, fagurkeri, lífskúnstner og skáld.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.