ÞÓRÐUR EINARSSON

Þórður Einarsson var fæddur í Reykjavík 19. júní 1923. Hann lést á heimili sínu að kvöldi 12. maí. Foreldrar hans voru Sigríður Þórðardóttir, húsmóðir, f. 1884, d. 1953, og Einar Einarsson, bátasmiður, f. 1880, d. 1939. Fósturfaðir Þórðar var Jóhannes Þórðarson, bóndi og smiður, f. 1872, d. 1956. Þórður átti fimm hálfsystkin sammæðra, Júlíu Hjörleifsdóttur Nielsen, f. 1908, látin, Jóhann Kristin Hjörleifsson f. 1910, látinn, Magneu Jóhannesdóttur Nyrop, f. 1915, látin, Ólaf Hafstein Jóhannesson, f. 1918, látinn, og Kristínu Jóhannesdóttur, f. 1918. Árið 1949 kvæntist Þórður eftirlifandi eiginkonu sinni, Karólínu Hlíðdal, f. 12. apríl 1929. Foreldrar Karólínu voru Karólína Þorvaldsdóttir, húsmóðir, f. 1886, d. 1957, og Guðmundur J. Hlíðdal, póst- og símamálastjóri, f. 1886, d. 1965. Þórður og Karólína eignuðust þrjú börn. Þau eru: 1) Sigríður, húsmóðir, f. 1950, gift Francis Worthington. Þeirra börn eru Markús Ari og Magnús. Þá á Sigríður Karólínu Ehretsmann og Tristan Stansbury. 2) Þorvaldur Hlíðdal, dýralæknir, f. 1954, kvæntur Sigurlaugu Önnu Auðunsdóttur, húsmóður. Þeirra börn eru Hrafn Hlíðdal og Hervar Hlíðdal. Þá á Þorvaldur Þórð Gunnar. 3) Jóhannes, arkitekt, f. 1957, kvæntur Arndísi Ingu Sverrisdóttur, tölvunarfræðingi. Þeirra börn eru Arnar Ingi Jónsson (stjúpsonur Jóhannesar), Una og Dagur. Þórður lauk verslunarprófi frá Samvinnuskólanum 1941 og prófi frá City of London College 1944. Hann varð löggiltur skjalaþýðandi og dómtúlkur í ensku 1945. Hann starfaði hjá Eggerti Kristjánssyni & Co og Byggingarfélaginu Brú hf. 1944-1950. Hann var fulltrúi í sendiráði Bandaríkjanna 1950- 1963, fulltrúi í menntamálaráðuneytinu 1964-1968. Hann var fulltrúi hjá Evrópuráðinu í Strassborg 1968-1972, blaðafulltrúi og deildarstjóri í utanríkisráðuneytinu 1973-1977. Þórður var sendiráðunautur, sendifulltrúi, prótókollstjóri og sendiherra í utanríkisþjónustunni 1977-1993. Hann var sendiherra í Svíþjóð og Finnlandi 1987-1991. Þórður sat í ýmsum nefndum á vegum utanríkisráðuneytisins og menntamálaráðuneytisins þ.á m. í stjórn Listahátíðar. Hann starfaði um árabil sem löggiltur skjalaþýðandi og dómtúlkur og skrifaði greinar um bækur og bókmenntir í Eimreiðina og félagsbréf Almenna bókafélagsins. Útför Þórðar verður gerð frá Neskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 13.30.