Ef ég hef ekki vitað það áður, veit ég það nú, að við lifum í mörgum ólíkum heimum. Um það sannfærðist ég, þegar ég fyrir nokkru skrapp upp á Rannsóknastofu Háskólans að tala við Níels Dungal, prófessor.

NÍELS P. DUNGAL

Það er hastarlegt að sjá

börn og ungmenni deyja

Níels P. Dungal prófessor var forstöðumaður Rannsóknastofu Háskólans í fjóra áratugi en hann lést 1965. Níels var merkur vísindamaður og krabbameinsrannsóknir hans vöktu athygli víða um heim. Þess er nú minnst að hundrað ár eru liðin frá fæðingu hans og 100 ár frá því að vísir að rannsóknastofu á vegum Háskólans tók til starfa. Fyrir 37 árum átti MATTHÍAS JOHANNESSEN samtal við Níels Dungal.

Ef ég hef ekki vitað það áður, veit ég það nú, að við lifum í mörgum ólíkum heimum. Um það sannfærðist ég, þegar ég fyrir nokkru skrapp upp á Rannsóknastofu Háskólans að tala við Níels Dungal, prófessor.

Ég fann að vísu að heimar okkar voru líkir um margt, en ólíkir um ennþá fleira. Mér datt í hug það sem Guðmundur læknir í Stykkishólmi sagði, þegar hann var spurður, hvort það hefði ekki mikil áhrif á hann að sjá nakinn kvenmannslíkama: "O, blessaður vertu, þetta er eins og landabréf fyrir mér," svaraði hann. Svona hefði enginn blaðamaður komizt að orði, þó hann viti að konulíkami og landabréf eiga eitt sameiginlegt: að geta valdið stórátökum.

Í mínum heimi var banastund Beethovens táknræn fyrir persónulegt sjálfstæði og einstaklingsþráa listamannsins, þegar hann reis upp við olnboga, kreppti hnefann af þrjózku og þrályndi snillingsins óhagganlega, bauð lífi og dauða byrginn og féll svo örendur aftur á bak í rúmið. Í heimi meinafræðingsins var þessi dauðdagi Beethovens eðlilegur og án nokkurs rómantísks eða dularfulls ívafs: "Það er ekki hægt að leggja neitt upp úr svona hlutum," sagði prófessor Dungal. Tónskáldið hefur getað fengið blæðingu inn á heilann og kreppt hnefann ósjálfrátt af hennar völdum. En ég hélt mig við fullyrðingu tónskáldsins sjálfs, þegar hann sagði: "Es gibt nur einen Beethoven."

Flest af því, sem bar fyrir augu í innri veröld prófessors Dungals, var nýtt fyrir mér og kom þægilega á óvart, sumt hrollvekjandi og má kannski segja það eigi ekki erindi á prent, en slíkar skoðanir getur enginn tekið hátíðlega, því það er ekki stórmannlegt að vilja aðeins horfast í augu við það, sem er þægilegt, raskar engra ró.

Í mínum heimi skoðar fólk fjölskyldumyndir til að rifja upp gamlar endurminningar og eignast aftur þessi grænu bros, þennan bjarta vonglaða svip, sem myndin geymir. Í heimi meinafræðingsins eru skoðaðar myndir af líkum og innyflum. Svo kemur einn dag að okkur, og prófessor Dungal fær kannski líka mynd af sér, hver veit?

Um þetta hugsaði ég, þegar ég fór af fundi prófessors Dungals með heim hans í hverri hugsun, hverri taug. Er lífið þá ekki merkilegra en þetta, mynd af nýra eða lunga? Samt er blaðamaðurinn ýmsu vanur, því raunverulega á hann engan sérstakan heim. Starf hans er fólgið í því að læðast inn í ókunna heima, ekki sízt þá sem eru á botni mannssálarinnar og fáir eiga aðgang að. Í dag kynnist hann heimi barnsins, þessum saklausa ilmandi heimi, á morgun heimi prófessors Dungals og dauðans. Og þó.

"Hér deyr enginn," sagði prófessorinn við mig, þegar ég kom í heimsókn. "Hingað koma menn dauðir. En við kynnumst mörgu í starfi okkar, sem fólki væri hollt að hugleiða oftar en það gerir, það yrði kannski betra hvert við annað. En þér kennduð starf okkar við dauðann. Ég mundi frekar segja, að við lærum af þeim liðnu: Mortui vivos docent, hinir dauðu kenna þeim lifandi, ætti að standa hérna einhvers staðar í húsinu, finnst mér. Starf okkar meinafræðinganna er að reyna að komast að sannleikanum um sjúkdóma lífsins."

Ég gekk í ofnæmissprautur til prófessors Dungals og kynntist honum í starfi. Hann talaði við mig um alla heima og geima, stundum trúmál og þótti mér hann trúaðri en hann vildi vera láta, eins og síðar mun hafa komið í ljós, en þó sannfærður andstæðingur kirkjunnar. Hann vísaði til Hallgrímskirkju og spurði, hvort ekki væri nær að byggja sjúkrahús. Hann var stórfróður og hafði að því er virtist einhverja sérstaka þörf fyrir að miðla mér af reynslu sinni. Það var eins og honum fyndist t.a.m. óþarfa lúxus, að ég þyrfti ekki að standa við krufningar dag hvern, og reyndi að fá mig niður í vinnustofu sína í kjallara rannsóknastofnunarinnar svo að ég sæi heim hans með eigin augum. En ég lét hann ekki lokka mig til þess. Það mislíkaði honum. Og hann hefndi sín. Eitt sinn, þegar ég kom til hans, var bali á miðju gólfi fullur af fúlum innyflum, svo mér lá við yfirliði. Ég spurði, hað þetta væri. "Hvað?" sagði hann sakleysislega og skimaði í allar áttir. "Þessi lykt," sagði ég. "Æ, þessi lykt," sagði hann, "hún er víst úr balanum þarna. Það er ekkert, bara krabbameinslíffæri." Ég settist og hann gaf mér sprautuna. Ég var ákveðinn í að standast þessa eldraun eins og ekkert væri.

Annað skipti sagði hann við mig: "Heyrið þér, Matthías, viljið þér ekki líta niður?" "Nei," sagði ég. "Ekki niður í líkhús. Ég á ekkert erindi þangað." "Nei, ég á við, niður á næstu hæð, þar sem hvítu mýsnar eru," sagði hann sakleysislega. Jú, það þótti mér hnýsilegt. Við fórum niður, en vorum ekki fyrr komnir inn í rannsóknarstofuna en hann segir: "Sjáið þér þetta, Matthías?" "Hvað?" Hann tók pakka ofan af skáp við hurðina og sagði: "Haldið þér á þessu, meðan ég tek þennan brúna umbúðapappír utan af þessu. Ég ætla að sýna yður svolítið." Að stundu liðinni stóð ég með framréttar hendur og hélt á hálfu kvenmannslæri og fótlegg. "Þetta var skorið í morgun. Ég fékk það til rannsóknar, það er af átján ára gamalli stúlku. Kannski þekkið þér hana?" Við horfðumst í augu. Hann sá, að hann hafði haft erindi sem erfiði. "Nú getum við komið fram," sagði hann. "Hvítu mýsnar geta beðið."

Þegar við hittumst nokkru síðar, spurði ég hann, hvort ekki væri langt síðan farið var að kryfja hér á landi.

Prófessor Dungal svaraði:

"Hér voru engar skipulagðar krufningar fyrr en upp úr 1930, en þá fyrst var farið að safna þekkingu um banamein. Krufningar hafa síðan verið grundvöllur undir læknisfræðilega þekkingu okkar. Um aldamótin voru margir Íslendingar sullaveikir, holdsveikir voru á þriðja hundrað og mikill fjöldi dó úr taugaveiki og berklum. Enginn vissi samt hve útbreiddir þessir sjúkdómar voru. Guðmundur Magnússon, sá ágæti maður, hafði gert ráð fyrir, að sullur væri í einum af hverjum 240 Íslendingum, en þegar ég byrjaði skipulagðar krufningar kom í ljós, að fimmti hver fullorðinn Íslendingur dó með sull."

"Hvar byrjuðuð þér að kryfja?"

"Í bakhúsi í Kirkjustræti 12, einstaka sinnum í líkhúsum Farsóttahússins og Landakotsspítalans. Aðstæður voru auðvitað slæmar, eins og þér getið ímyndað yður. Þegar Landsspítalinn var byggður, fengum við hentugra húsnæði, en það var ekki fyrr en við fluttumst hingað 1934, að starfsskilyrðin urðu viðunandi. En nú er Rannsóknastofan orðin allt of lítil. Við þyrftum helzt að byggja hér álmu út í Eiríksgötuna, ef vel ætti að vera. Við eyðum aldrei of miklu fé í vísindalegar rannsóknir, þær eru frumskilyrði þess, að við getum lifað góðu og heilbrigðu lífi. Yður finnst það kannski ótrúlegt, en satt er það samt, að hægt er að útrýma sjúkdómnum með lagasetningu. 1899 voru sett endanleg lög um útrýmingu sullaveikinnar og 10 árum síðar er dánartalan fimm sinnum lægri en þegar lögin eru sett. Samt rísa vafalaust af grunni margar kirkjur og stórhýsi fyrir alls konar hjátrú áður en við fáum rýmra húsnæði."

"Þér mælið sem sagt með krufningum?"

"Það er enginn vafi á, að þær eru einhver nauðsynlegasta undirstaða læknavísindanna. Án þeirra hefðum við enga hugmynd um útbreiðslu sjúkdóma, við vissum jafnvel ekki úr hverju fólk deyr. Það er fjöldi fólks, sem árlega deyr úr krabbameini, án þess að vitað sé um dánarorsökina, aðallega gamalt fólk. "Læknisfræðin á ekki að byggjast á fyrirfram ákveðnum skoðunum," sagði Hippokrates, "hún á að byggjast á vísindalegum rannsóknum."

"Hvað hafið þér krufið marga, prófessor?"

"Erlendis hef ég krufið um þúsund lík og hér heima hafa verið krufin yfir 4000 lík undir minni umsjá. 1932 voru aðeins krufin hér 32 lík, en á síðasta ári voru þau 330 og munu nálgast 400 á þessu ári, svo þetta stefnir í rétta átt. Krufningar eru svo mikilvægur þáttur í kennslu, að prófessor William Osler, einn merkasti læknakennari, sem uppi hefur verið síðustu 100 ár, sagði á sínum tíma: "Læknisfræði lærir maður við krufningaborðið."

ÍBandaríkjunum er enginn spítali tekinn gildur til læknakennslu nema hann láti kryfja a.m.k. 65% þeirra sjúklinga, sem í spítalanum deyja. Þar sem krufningar fara fram, er læknisfræðin á hærra stigi en annars staðar. Þar fá læknarnir tækifæri til að sjá, hvað þeir hafa verið að glíma við, og kynnast hverju sjúkdómstilfelli út í æsar."

"Er ekki fólk á móti því að láta kryfja vini sína og ættingja?"

"Nei, það hefur lítið borið á því, enda eru fyrirmæli um það í heilbrigðislöggjöf okkar, að yfirlæknar ríkissjúkrahúsanna hafi heimild til að láta kryfa alla sem þar deyja. Sú heimild er auðvitað notuð, því læknarnir vilja allir læra, þeir eldri ekki síður en hinir sem yngri eru."

"Eru trúarbrögðin engin hindrun?"

"Ekki hef ég orðið var við það hér. Það er samt algengt úti í Bandaríkjunum, að Gyðingum sé illa við að láta kryfja sig. Ég kynntist ágætum meinafræðingi við Gyðingasjúkrahús í New York, sem lét sækja líkin eftir kl. 11 á kvöldin og krufði þau á nóttunni, án þess aðstandendur yrðu þess varir, svo nauðsynlegt þótti honum að fá þann fróðleik, sem krufningin ein getur veitt. Annars er miklu minna rask á líkum við krufningu en fólk heldur. Það gengur með þær grillur, að krufning sé sama og anatómískur líkskurður fyrir stúdenta, en það er auðvitað alrangt. Aðferðin er allt önnur, og hér framkvæmum við ekki slíkan líkskurð. Samt eru læknastúdentar oft viðstaddir hjá okkur, því þeir vita, að það er lærdómsríkt, og við flestar krufningar finnur maður eitthvað sem kemur á óvart."

"Þér munduð kannski vilja nefna eitthvað, sem þér hafið fundið markvert við krufningu hér?"

"Ég varð mjög undrandi, þegar ég kom heim frá Austurríki og sá, hvað Íslendingar höfðu lítinn skjaldkirtil. Í Austurríki hafði ég krufið fjölda fólks og sá, hve skjaldkirtillinn í þarlendum mönnum er óeðlilega stór vegna joðskorts í landinu. Meðalþyngdin var 40­60 grömm. Það var mikill munur að sjá skjaldkirtilinn í Íslendingum. Þeir hafa minni skjaldkirtil en nokkur önnur þjóð. Það vissi enginn áður en ég byrjaði að kryfja. Meðalþyngdin er 13 til 14 grömm. Japanir hafa næstminnstan skjaldkirtil, um 19 grömm."

"Haldið þér kannski að þetta sé skýringin á því, hvað við Íslendingar erum undarlegir?"

"Nei, það held ég ekki. Maður þarf ekki að vera undarlegur, þó maður hafi lítinn skjaldkirtil. Aftur á móti verður maður veikur, ef skjaldkirtilinn vantar. Það er enginn vafi á, að allt sálarlíf okkar er háð starfsemi líffæranna, jafnvel siðferði okkar og framkoma getur að verulegu leyti verið háð starfsemi líffæranna.

Sterkustu ástríður mannanna eiga upptök sín í litlum kirtlum, sem gegna því hlutverki að flytja lífið frá einni kynslóð til annarrar. Oft má sjá á þessum kirtlum, hvort þeir hafa framleitt mikið af hormónum, þá eru þeir stórir og safamiklir, en litlir, þurrir og skorpnir, ef þeir hafa starfað lítið sem ekkert. Sumar konur framleiða hormóna alla ævi, jafnvel fram undir áttrætt, aðrar í aðeins fáa áratugi. Það er ólíkt erfiðara fyrir þá, sem framleiða mikið af slíkum hormónum, að hafa hemil á kynhvötum sínum, en hina, sem hafa skorpnaða og uppþornaða kirtla. Fyrir þá eða þær er lítill vandi að vera dyggðugur, þar sem freistingin er engin.

Fyrir hina, sem framleiða mikið af hormónum, getur verið erfitt að hafa taumhald á ástríðum sínum, einkum ef þeir drekka áfengi, því það lamar frumurnar í heilaberkinum, þar sem hemlarnir eru. Margir, sem ég hef fylgzt með í lífinu, hafa um síðir hafnað hér í líkhúsinu. Þegar ég var ungur, heyrði ég ill ummæli höfð eftir tveimur ógiftum konum um hina þriðju, sem talin var eitthvað úti á lífinu. Þær gagnrýndu meinta vergirni hennar, en sjálfar voru þær víst allt að því hreinar meyjar. Svo dóu þessar konur allar þrjár og höfnuðu hér í kjallaranum hjá mér og ég krufði þær. Þá sá ég, að það hefur ekki verið nein þrekraun fyrir þær tvær, sem hreinlífar voru, að standast freistingar lífsins, því að eggjastokkarnir í þeim voru eins og þurrkaðar rúsínur, en eggjastokkarnir í hinni þriðju, þeirri sem hafði fengið orð fyrir að standa í útstáelsi, voru eins og safaríkir ávextir.

Þarna var skýringin komin. Siðsemi þarf ekki að vera nein dyggð, heldur afleiðing af lítilli hormónastarfsemi, eins og í þessum tilfellum.

En ef illa tekist til er svo djöflinum og hans freistingum kennt um af sumum."

"Hvers vegna sögðuð þér djöflinum?"

"Ja, tekur ekki fólk svona til orða? Þetta er gamli kristindómurinn. Þér vitið, hvað sögnin að skíra merkir? Að skíra barn er að hreinsa það af djöflinum ­ reka úr því illa anda. Fram undir síðustu aldamót var þetta í skírnarformúlunni: "Vík út af barni þessu, þú illi andi, og gef pláss heilögum anda." Já, það var ekki undarlegt, þó þeim hafi þótt nauðsynlegt að skíra börn í gamla daga, þegar þurfti að reka djöfulinn út úr þeim. Og enn er fólk að borga prestunum fyrir þetta. Í Bretlandi er svipuð skírnarformúla jafnvel enn í heiðri höfð, og þegar börn drottningar eru skírð, verða virðingarsamir guðfeður og hertogar að afneita fyrir hönd þeirra öllum holdsins fýsnum."

"Þetta er blekkingin sem þér talið um í bók yðar?"

"Já, meðal annars þetta. Ég er ekki í neinum vafa um, að kristindómurinn hefur staðið menningunni fyrir þrifum með þessari eyðandi hjátrú sinni. Hvað mundi nú vera sagt, ef við tækjum þá ákvörðun einn góðan veðurdag að loka skólum landsins næstu hundrað ár? Fyrir þessu stóð kristindómurinn á sínum tíma, já, lokaði skólunum í mörg hundruð ár."

"Hann átti líka mikinn þátt í menntun fólksins, fornbókmenntir okkar urðu t.d. til í skjóli hans og án kristindóms og sterkrar trúar hefði séra Matthías ekki orðið það skáld sem hann varð."

"Snorri Sturluson hugsaði ekki eins og kristinn maður, þess bera bækur hans glögg merki, að hann hefur hvorki trúað á goðin né Hvítakrist. Séra Matthías hefði ávallt orðið stórskáld, hvort sem hann hefði trúað nokkru eða engu . . . Annars voruð þér að tala um skjaldkirtilinn, var það ekki? Ástæðan til þess að við höfum svona lítinn skjaldkirtil er sú, að við borðum mikinn fisk og lifum á óvenju joðríkri fæðu og auk þess er loftið mengað særoki, svo við öndum líka að okkur joðinu. Í joðlitlu löndunum verður skjaldkirtillinn að stækka, svo fólkið geti náð því litla joði, sem er í blóðinu."

"Haldið þér ekki að stærð skjaldkirtilsins geti haft einhver áhrif á skaplyndi þjóða?"

"Það veit ég ekkert um, en skjaldkirtillinn er ákaflega lítill í þeim dýrum, sem fara í vetrarhíði. Ekki held ég samt, að við Íslendingar séum eins og björninn, sem leggst í vetrardvala og hægir á allri starfsemi líkamans í versta skammdeginu. Okkar skjaldkirtill er engu minni að vetrinum en á sumrin."

"En segið mér eitt, prófessor Dungal, hvers vegna lögðuð þér stund á læknisfræði?"

"Ég hafði alltaf ætlað mér að verða læknir frá því ég var drengur. Mér fannst það interessant og mannúðlegt starf. Auðvitað ætlaði ég mér upphaflega að verða læknir lifandi fólks, en svo var ég beðinn að leggja stund á meinafræði til að kenna hana við háskólann. Og ég get ekki sagt að ég hafi séð eftir því að fara út á þá braut."

"Þér lærðuð hjá Guðmundi Magnússyni, var það ekki?"

"Jú, Guðmundur var mjög merkilegur maður og einhver bezti kennari sem ég hef þekkt, enda stórgáfaður skurðlæknir og fróður vel. Hann var hnyttinn í svörum og gat það stundum komið niður á nemendum, sem honum þóttu óskarpir í hugsun. Einhverju sinni var hann að ganga upp Amtmannsstíg um hávetur. Það var hált á gangstéttinni og illfært. Á undan honum gekk ung stúlka. Þegar þau eru í miðri brekkunni, kemur myndarlegur maður á móti þeim og gengur niður stíginn. Þegar hann er kominn fram hjá, lítur stúlkan við en dettur í sömu svifum og liggur á götunni. Guðmundur gengur til hennar og spyr, hvort hún hafi ekki meitt sig. Jú, hún hafði meitt sig. Hann fer nú að stumra yfir henni og sér að hún hefur farið úr liði. Hann kippir henni í liðinn og spyr, hvort hún vilji ekki koma til sín daginn eftir, svo hann geti athugað meiðslin betur, lítur svo á hana og bætir við: "Nú, en sáuð þér manninn?"

Þegar Sigvaldi Kaldalóns var að taka próf í handlæknisfræði, fékk hann til skoðunar sjúkling með framhandleggsbrot. Guðmundi þótti hann ekki fara alltof læknislega með sjúklinginn og spyr Sigvalda, hvað að honum sé. Sigvaldi segir, að það sé handleggsbrot. Þá segir Guðmundur: "Nú, af hverju þekkið þér það? Þekkið þér það á því, í hvaða tóntegund hann skrækti?" Karlinn var bráðsnjall og síiðandi af húmor. Hann var lágur maður vexti, en snarplegur og hafði hýran glampa í augum."

"Hvenær fóruð þér að fást við meinafræðina fyrir alvöru?"

"Ég fór til framhaldsnáms í Noregi og Þýzkalandi og kom heim snemma árs 1924, og seint á sama ári var ég beðinn að taka að mér kennslu í meina- og sýklafræði við háskólann, því Stefán Jónsson dósent var þá farinn til Danmerkur. Hann treysti sér ekki til að vinna við þau frumstæðu skilyrði, sem hér voru þá. Hann var ágætur maður og vel að sér. Leitað var til tveggja íslenzkra lækna, sem báðir voru búsettir erlendis, en þeir hættu við undirbúningsnámið, enda orðnir fullorðnir menn. Þá ákvað læknadeildin að fá ungan mann og sneri sér til mín. Ég tók að mér starfið og fór utan í marz 1925, til Graz í Austurríki, að undirbúa mig í sérgreininni.

Ég hafði lítið sem ekkert fengizt við krufningar hér heima og kunni lítið í meinafræði. Ég var svo illa að mér, að ég varð að vinna fram á nætur og læra læknisfræðina upp á nýtt. En ég sé ekki eftir því. Læknar sem eru vanir krufningum hugsa öðruvísi en þeir, sem hafa lítið fengizt við þann starfa. Þeir hugsa um, hvað er að gerast í hverju líffæri út af fyrir sig og hvernig það lítur út, en mörgum öðrum hættir til að hugsa aðeins um einkennin."

"Haldið þér, að íslenzkir læknar hafi staðgóða þekkingu í meinafræði?"

"Já, það held ég nú orðið og sumir eru ágætlega að sér, enda sjá þeir margar krufningar, a.m.k. þeir sem vinna í spítölum."

"Eruð þér aldrei hræddur við lík?"

"Nei, það er ég ekki. Þegar ég var drengur, var ég alinn upp í spíritisma og var hræddur við dautt fólk. En þegar ég fór að kryfja, vandist þetta af mér. Ég er ekki hræddur við dauða menn, þeir lifandi eru miklu hættulegri, það hefur mér reynzt. Ég hef aldrei orðið fyrir neinu ónæði af þeim, sem ég hef krufið, og ég hef spurt aðstoðarmenn mína, hvort þeir hafi orðið fyrir ónæði af hendi þeirra dauðu, en þeir hafa alltaf svarað neitandi. Ættingjum er stundum illa við, að ástvinir þeirra séu krufnir. En oft hef ég orðið þess var, að þeir hafa sætt sig betur við sorg sína, þegar þeir hafa fengið þær upplýsingar sem krufningin veitti. Margir ásaka sig fyrir að hafa ekki farið með barnið sitt nógu snemma til læknis eða leitað til lækna erlendis. En þegar krufningin hefur leitt í ljós, að um ólæknandi sjúkdóm var að ræða, sem enginn hefði ráðið við, verður fólki oft hughægra. Oft kryfjum við fyrir lögregluna, og þá rekumst við stundum á hina ótrúlegustu hluti, t.d. þurftum við eitt sinn að kryfja mann, sem lézt í bílslysi, og komumst að raun um, að hann var með ólæknandi krabbamein, sem enginn vissi um, og hefði í mesta lagi lifað eitt ér.

En þér voruð að spyrja, hvort ég væri ekki hræddur. Ég viðurkenni, að mér leið einu sinni illa meðan ég var í Graz. Í líkhúsinu voru um 20 lík, og hafði mér verið falið að rannsaka eitt þeirra. Prófessorinn ætlaði að skýra krufninguna fyrir stúdentum eldsnemma næsta morgun og þurfti að fá sneið úr lifrinni. Það var komið fram undir miðnætti, og þá mundi ég allt í einu eftir, að ég hafði gleymt lifrinni. Nú voru góð ráð dýr. Hvað átti ég að gera? Átti ég að verða mér til skammar daginn eftir? Ég játa, að mér var mjög illa við að fara niður í líkhús á þessum tíma, en ég átti að gera það og lét mig hafa það. Ég fikraði mig niður eftir kjallaranum og inn í líkhúsið, leitaði að "mínu líki", skar sneið úr lifrinni og fór með hana. Ég var einn í stofunni, alger þögn ­ en ekkert gerðist. Ég sagði, að mér hefði ekki liðið vel, það er rétt ­ engin ástæða að neita því, en þessa nótt vann ég sigur á myrkfælninni og síðan hef ég aldrei þjáðst af henni. Um skeið bjó ég aleinn hér uppi í Rannsóknastofunni og varð að skreppa niður í líkhús að þoka glugganum, þegar hann skelltist í vondu veðri um hánótt, en það hafði engin áhrif á mig.

Í gamla daga var það trú manna, að þeir losnuðu við líkhræðsluna með því að snerta líkin. Ég er sannarlega búinn að snerta mörg lík, og það hefur ekki enn orðið mér að meini. En þér eruð smeykur við krufningu."

"Mér er um og ó."

"Manni hættir til að óttast það sem maður þekkir ekki, en hræðslan á ekki rétt á sér."

"Hefur lík aldrei gripið í handlegginn á yður, prófessor Dungal?"

"Nei, ef það gerði það, væri það ekki lík."

"En segið mér, finnst yður ekki þetta starf yðar hálfóhugnanlegt?"

"Ekki finnst mér það, við tökum þetta eins og hvert annað lærdómsríkt starf og unum því vel að vera alltaf að læra."

"Hefur þetta engin áhrif á matarlystina?"

"Nei, matarlystin er sú sama. Þegar ég vann við anatómískan líkskurð í fyrsta skipti, pússaði taugar og vöðva og annað því um líkt, fannst mér ég vera svo viðbjóðslegur á höndunum, að ég gæti aldrei bragðað matarbita framar, en það lagaðist, og eftir vikutíma fannst mér ég geta borðað óþveginn, eins og ekkert hefði í skorizt."

"En mér finnst þér tala einkennilega um dauðann, prófessor Dungal, er þá ekkert sorglegt við hann?"

"Jú, auðvitað. Það er hastarlegt að sjá börn og ungmenni deyja, en allt annað gildir um gamalt fólk, það er eðlilegt að gamalt fólk deyi. En lífið er hart og miskunnarlaust, og í þessu húsi eru daglega kveðnir upp dauðadómar yfir fólki, ungu og gömlu. Það getur verið mjög hastarlegt, já, það getur það verið, stundum eru þetta beztu vinir okkar, skólabræður eða konur þeirra, sem í hlut eiga.

Hingað eru nefnilega send stykki úr æxlum og alls konar vefjum frá læknum og sjúkrahúsum, og það er okkar verk að úrskurða, hvers konar sjúkdóma um sé að ræða, hvort það sé bólga, krabbamein, berklar eða eitthvað annað.

Hér niðri er fótur, sem nýlega var tekinn af ungum manni. Viljið þér ekki koma með mér og sjá hann? Ég held þér hefðuð gott af því, ég held það mundi vekja yður til umhugsunar. Fyrir skömmu var þessi fótur iðandi af lífi, dansaði jafnvel. Nú hefur orðið að taka hann ­ finnst yður lífið ekki geta verið miskunnarlaust? Og þér sáuð lærið af ungu stúlkunni . . . ""Það er ekki hægt að segja, að þér séuð kristinn maður, prófessor Dungal?"

"Nei, alls ekki."

"En trúaður kannski?"

"Nei, ekki heldur. Ég er laus við alla religíon. Í mínum augum er trúin ekkert annað en hjátrú, sem ekki hefur enn verið viðurkennd hjátrú. Öll trúarbrögð, sem heimurinn hefur kynnzt til þessa dags, hafa orðið að hjátrú. Og kristindómurinn er greinilega á sömu leiðinni. Engum heilvita manni kemur til hugar að trúa nú á meyjarfæðingu og upprisu, eins og allur almenningur gerði á mínum uppvaxtarárum."

"Þegar Blekking og þekking kom út, heyrði ég gamlar konur segja: "Skyldi honum prófessor Dungal ekki líða illa að vera svona trúlaus?" Segið mér, líður yður illa?"

"Nei, mér líður prýðilega. Trúuðu fólki líður sízt betur en trúleysingjum eins og mér. Hugsið yður bara allar þær þjáningar, sem eru sprottnar af ótta við djöful og helvíti. Kenningar kirkjunnar eru leifar frá þeim tíma, þegar prestar og munkar stóðu við banabeð sjúklingsins til að pína út úr honum eignir hans og hétu honum sáluhjálp í staðinn. Guðmundur Hannesson sagði mér, að sér hefði virzt trúað fólk miklu hræddara við dauðann en þeir sem væru trúlausir, og ég held margir læknar hafi svipaða sögu að segja. Það þarf enginn að undrast þennan ótta fólksins, ef haft er í huga, að það var kannski einn af 10.000, sem átti von um paradísarsælu."

"En sálin, haldið þér ekki að hún sé til, að við eigum sál?"

"Fæstir okkar vita hvað þeir eiga við, þegar þeir tala um sál. En ef átt er við andlegan líkama, sem getur lifað sjálfstæðu lífi án þess líkama sem við þekkjum, verð ég að segja, að slík sál er ekki viðurkennd af vísindunum. En haldið þér að slík sál sé til?"

"Því hefur verið hvíslað að mér."

"Það getur svo margt borizt inn í hug manns frá tilfinningalífinu, sem kallað er, en það er ekki gott að greina, hvað af því á sér stað í raunveruleikanum. Þér eruð kannski spíritisti?"

"Ég held spíritisminn geti unnið stórkostleg vísindaafrek í framtíðinni, hann og læknisfræðin eiga kannski eftir að taka höndum saman, hver veit?"

"Já, þér haldið það, en hann hefur ekki farið vel af stað, hann hefur ekkert sannað."

"Spíritistar hafa vigtað útfrymið frá líkamanum."

"Það getur ekki verið, það hefur ekki verið vísindalega sannað að útfrymi sé til."

"Sir William Crookes gerði stórmerkar athuganir, sá heimsfrægi eðlisfræðingur og raunvísindamaður."

"Já, það er alltaf vitnað í hann ­ það er rétt, hann féll fyrir spíritismanum. Ég væni hann ekki um falsanir eða fleipur, en það verður aldrei talið vísindalega sannað, sem er ekki hægt að endurtaka annars staðar. Darwin sagði: "Það er ekki eins hættulegt að draga rangar ályktanir og gera rangar athuganir." "Það var rétt hjá honum. Maður má ekki hafa slíka oftrú á neinum manni, að honum geti ekki skjátlazt."

"Hefði Jónas Hallgrímsson getað ort Gunnarshólma aftur, ef honum hefði verið fyrirskipað það?"

"Til hvers?"

"Til að sanna vísindalega, að hann hefði ort hann áður."

"Nei, ekki Gunnarshólma, heldur eitthvert annað kvæði svo gott, að allir vissu að það væri eftir hann. En það hefði orðið að vera merkilegra ljóð en kom í "gegnum" Kamban, þér munið eftir því, Kamban var miðill um tíma."

"Gunnarshólmi er innblásið ljóð, verður innblástur nokkurn tíma sannaður með endurtekningu?"

"Fyrir mér er mjög vafasamt, að nokkur innblástur sé til, þ.e. að heili manns verði fyrir áhrifum frá æðri vitsmunaverum. Ég held miklu fremur, að heili mannsins afreki mestu, þegar hann er vel hvíldur, vel upplagður, þegar maðurinn er í stemningu til að framleiða það sem er satt og fagurt. Og slíkt ástand getur endurtekið sig og gerir oft ­ þó of sjaldan."

"En segið mér, dreymir yður aldrei neitt, prófessor Dungal?"

"Jú, eins og hvern annan."

"Aldrei fyrir óorðnum hlutum?"

"Það er erfitt að segja, ég er lítill draumamaður, en móður mína dreymdi oft fyrir ýmsu."

"Hvernig skiljið þér það?"

"Ja, mannsheilinn er bara miklu merkilegra verkfæri en við höfum hugmynd um, t.d. vaknaði móðir mín eina nóttina og kallaði: "Hann Halldór hefur slasazt á handleggnum."

Halldór bróðir minn var þá í Berlín, mörg þúsund kílómetra í burtu, og við vissum ekkert um hans hagi. En viku síðar barst okkur bréf frá Berlín, og þá kom í ljós, að hann hafði slasazt á hægri handlegg, eins og móður mína hafði dreymt, og á sama tíma."

"Þarna sjáið þér!"

"Nei ég sé ekkert annað en það, að heilinn er miklu merkilegra líffæri en við höldum. En við þekkjum hann því miður svo lítið og starfsemi hans ennþá minna. Í honum eru billjónir frumna, sem hafa náið samband sín á milli ­ möguleikarnir eru astrónómískir, við kunnum bara ekki að nota þá. Þegar barn er 5 ára, er heilinn orðinn fullþroska verkfæri, sem aðeins á eftir að æfast og læra. Það, sem við vitum um heilann á móti því sem við vitum ekki, er eins og eitt rykkorn saman borið við Reykjavík."

"Þér hafið verið alinn upp í spíritisma, sögðuð þér?"

"Já, spíritisma og myrkfælni er óhætt að segja."

"Ætli afstaða yðar sé ekki að einhverju leyti uppreisn gegn uppeldinu?"

"Það kann að vera, en spíritisminn hefur smám saman gufað upp hjá mér, eftir því sem ég hef elzt."

"Hvað hefði frændi yðar, Haraldur Níelsson, sagt, ef hann hefði heyrt til yðar?"

"Hann hefði mótmælt með sínum rökum. Mér þótti vænt um hann eins og föður minn og ég virti hann mikils. Hann var glæsimenni, hafði allt til að bera sem prýða má einn mann, en það var eins og Árni Pálsson sagði: "Ég hef aldrei vitað nokkurn mann stúdera guðfræði svo hann hafi beðið þess bætur.""

"Voru þau lík, Haraldur og móðir yðar?"

"Þau voru mjög samrýnd. Móðir mín var trúuð kona. Hún var svo sannfærð um, að hún mundi lifa eftir dauðann, að hún sagðist skyldu láta mig vita af sér. Ekki hef ég orðið neins var enn, þó 8 mánuðir séu liðnir frá því hún dó."

"Kannski vill hún ekki hrella yður?"

"Jú, hún ætlaði svo sannarlega að láta mig vita af sér, það er áreiðanlegt. Sannleikurinn er sá, að spíritisminn þrífst illa í rafmagnsljósi. Í fámenni og myrkri lifir fólk á sínu eigin ímyndunarafli og þá skapast álfar, tröll og draugar."

"En af hverju haldið þér, að móðir yðar hafi vitað um slysið í Berlín?"

"Ég sagði yður það áðan, heilinn er feiknalega merkilegt líffæri, miklu viðkvæmara sendi- og móttökutæki en við höfum hugmynd um, ekki sízt móðurheilinn, þegar barn er annars vegar. Það lengsta sem menn hafa hingað til komizt í spíritískum fræðum er að sanna, að "eitthvað" sé til, sem hefur ekki verið skýrt, einhver fyrirbæri. Þetta er niðurstaða þýzka vísindamannsins baróns von Schrenck-Notzing, en það er ekki það sama og hafa sannað líf eftir dauðann."

"Og þó þér trúið ekki á annað líf, eruð þér hamingjusamur."

"Satt að segja hugsa ég aldrei um, hvort ég sé hamingjusamur. Ég veit, að margir eru sælir í sinni trú. En ég kæri mig ekki um þá hamingju. Trúin er kenning, sem borin er fram og enginn má gagnrýna. Sumar stjórnmálastefnur geta verið trú, einræði er það alltaf. Kaþólskan er trú á sömu forsendum, og það er ekki vel séð, svo ekki sé meira sagt, að gagnrýna kristindóminn almennt. Við getum ekki látið okkur þetta lynda og verið hamingjusöm frekar en við getum sætt okkur við kommúnismann og verið hamingjusöm. Undirstaðan undir öllu frjálsu lífi er gagnrýni, en það getur verið, að til sé lífshamingja án gagnrýni, ég veit það ekki, það má t.d. vel hugsa sér, að kýrin sé hamingjusamari en við ­ en við eigum ekki að gera okkur ánægð með hugsunarlausa sælu. Engum hugsandi manni er það nóg að fullnægja aðeins frumstæðustu hvötum líkamans, að borða, sofa og svala kynhvöt sinni. "Hugsandi maður kaupir hamingjuna með göfugri þjáningu," segir Ernest Renan, og Prédikarinn segir: "Sá, sem eykur þekkingu sína, eykur kvöl sína." Það eru mikil sannindi. Fáfræðinni getur fylgt viss hamingja, en hamingja kýrinnar á ekki að vera okkar takmark, finnst yður það?"

"Ég held bara, að ég hafi ágæt áhrif á yður!"

Prófessor Dungal brosti og leit á klukkuna, það minnti mig á það sem hann hafði sagt áður, þegar hann talaði um heilann og möguleika hans:

"Við vitum svo lítið um líf okkar. Sennilega er enginn tími til og margt í kringum okkur blekking ein. Við vitum ekki einu sinni hvert við erum að fara eða hvort við erum að fara nokkuð. Hér á túninu milli Fæðingardeildarinnar og Rannsóknastofunnar er snigill. Hann lagði af stað frá Fæðingardeildinni fyrir 10 dögum og er nú kominn hálfa þessa leið. Hann veit ekki, hvað hann hefur verið lengi á leiðinni, og ekki heldur, hvert hann er að fara. Hann er blindur og verður að treysta á lyktnæmi sitt. Það eina, sem hann skynjar auk þess, er munur á nótt og degi. Hann getur ekki haft nema mjög ófullkomnar hugmyndir um umhverfi sitt. Og svo einn dag kemur lóa og kroppar hann í sig. Hver veit nema við séum líka sniglar í okkar umhverfi?"

"Getur ekki vantrú yðar verið sérvizka?"

"Það hefur alltaf verið sagt, að sjálfstæð hugsun sé sérvizka. Að því leyti má kalla vantrú mína sérvizku, en hún er betri en sértrú og ekki eins skaðleg."

"Segið mér að lokum, prófessor Dungal, hafið þér aldrei verið hræddur við að deyja?"

"Nei, hví í ósköpunum ætti ég að vera það, ég er ekki hræddari við að deyja en sofna. Ég var rétt að segja dauður um þetta leyti í fyrra, en ég var ekkert hræddur. Fyrir mörgum árum tók ég eftir því heima hjá mér, að púlsinn var farinn að slá óreglulega og nokkru síðar hætti hjartað að slá, og þá leið yfir mig. Með þessu fylgdist ég nákvæmlega og sagði við sjálfan mig: "Nú, það er bara svona, ég er að deyja!" En engin hræðsla greip mig, alls engin. Hræðsla er ekkert annað en kvöl, sem við tökum út fyrirfram, af því við búumst við einhverri kvöl, sem ekki er víst að komi. Það ætti að vinna að því að útrýma óttanum, því hann á ekki rétt á sér. Það er nóg að taka út kvölina, þegar óhappið hefur dunið yfir.

Ég man þegar ég kom heim með mótorbát frá Danmörku 19 ára gamall, að veðrið var eins og það gat verst orðið. Ég lá fyrir niðri í káetu hjá skipstjóranum. Þá kemur stýrimaðurinn niður og segir við skipstjórann: "Já, Guðmundur, alltaf lagðist það í mig að svona mundi fara ­ að við kæmumst ekki lifandi úr þessum túr." Þessi orð voru eina hughreystingin, sem ég fékk á leiðinni. En þau snertu mig ekki. Mér var alveg sama, bara ef ég losnaði við sjóveikina. Ég hef aldrei verið hræddur við dauðann."

"Langar yður samt ekki til að lifa eftir dauðann?"

"Til hvers þessi eilífðarþrá? Ég held, að fæstir sem óska þess að lifa áfram, geri sér ljóst hvað eilíft líf er. Við þráum öll að missa meðvitund í langan tíma á hverjum sólarhring. Engan langar til að búa við svefnleysi, vaka dag og nótt, jafnvel þó það gæti aukið afköst hans verulega. Mér finnst eilífðarþráin misskilningur. Ef guð segði við yður: "Hvort viltu heldur lifa áfram ungur og hraustur um alla eilífð eða hrörna og deyja, þegar þinn tími er kominn?" Þá munduð þér sennilega svara: "Ég vil heldur deyja." Hræðslan við að geta ekki dáið mundi verða miklu ægilegri en hræðslan við dauðann getur nokkurn tíma orðið.

Nei, dauðinn á að koma og kemur hjá mörgum eins og langþráður svefn og hvíld frá þrasi. Menn þurfa ekki að kvíða honum og eiga ekki að láta neinn telja sér trú um að eilífðarkvalir bíði nokkurs manns, eins og okkur hefur alltof lengi verið kennt."

"En ef þér vöknuðuð nú annars heims, yrðuð þér þá fyrir miklum vonbrigðum, haldið þér?"

"Ekki býst ég við því, en undrandi yrði ég."

"Og hvernig haldið þér að yður mundi líða?"

"Sennilega ekki verr en hér. En líklega yrði ég að fá mér eitthvað annað að gera. Og þó, hver veit nema maður geti haldið áfram í faginu, því allur bakteríuskarinn hlýtur að lifa áfram, ef við gerum það. Og svo mikið sem komið er yfir um af fólki, þá eru þó bakteríurnar og skorkvikindin milljón sinnum fleiri. Kannski gæti orðið nóg að gera, hver veit?"

(1960­1976) Morgunblaðið/Árni Sæberg

HÚS Rannsóknastofu Háskólans við Barónstíg sem tekið var í notkun 1934.

NOKKUR gömul tæki af Rannsóknastofu Háskólans. Að neðan til vinstri eru m.a. vaxkubbar sem vefjasýni er geymt í. Öll fita er fjarlægð úr sýninu, síðan er vatn fjarlægt úr vefnum og sýnið lagt í heitt paraffín sem mettar vefinn og úr verður eins konar vaxmynd sem er steypt inn í kubbana. Ekki verður nein myndbreyting á vefnum og því hægt að skoða hann síðar. Fyrir ofan kubbana er skurðsleði frá 1925, notaður til að skera örþunna sneið úr sýninu til smásjárskoðunar.

Skráin með sjúkdómsgreiningum er frá 1935, með rithönd Níelsar. Neðst til hægri er fyrsta smásjá Níelsar, sem hann notaði frá 1925-1935.