RÍFANDI veiði hefur verið í Norðurá í Borgarfirði að undanförnu og hópur sem lauk þriggja daga veiðitörn á hádegi í gær veiddi 112 laxa. "Við erum stoltur og hamingjusamur hópur, Fjaðrafokið. Þetta var ógleymanleg veiðiferð og við slógum metið okkar frá síðasta sumri, en þá fengum við 104 laxa á þessum sömu dögum," sagði Ingvi Hrafn Jónsson sem var meðal veiðimanna við Norðurá.
Eru þeir að fá 'ann?

112 laxa holl

í Norðurá

RÍFANDI veiði hefur verið í Norðurá í Borgarfirði að undanförnu og hópur sem lauk þriggja daga veiðitörn á hádegi í gær veiddi 112 laxa. "Við erum stoltur og hamingjusamur hópur, Fjaðrafokið. Þetta var ógleymanleg veiðiferð og við slógum metið okkar frá síðasta sumri, en þá fengum við 104 laxa á þessum sömu dögum," sagði Ingvi Hrafn Jónsson sem var meðal veiðimanna við Norðurá. Mikil ganga er í ána um þessar mundir, bæði stórlax og smálax, og fiskur um alla á. Alls voru þá komnir 466 laxar úr Norðurá og er hún aflahæsta áin það sem af er sumri. Nái hún að halda þeim sessi í vertíðarlok verður það fimmta sumarið í röð.

"Frekar rólegt"

"Þetta hefur verið frekar rólegt, en menn eru þó aðeins að fá'ann og sjá lax nokkuð víða, sérstaklega neðanvert í ánni. Veiði hófst á miðvikudaginn og veiddi fyrsta hollið 11 laxa. Nú á hádegi var annar hópur að hætta með 11 laxa til viðbótar. Þetta er allt stórlax, 10-15 pund, og það er allt í lagi með vatnsmagnið í ánni ennþá," sagði Jón Arnar Guðbrandsson, kokkur í veiðihúsinu við Laxá í Dölum, í gærdag.

Gott gengi í Leirvogsá

"Þetta er bara þokkalega gott í Leirvogsánni. Það voru komnir 30 laxar á land á sunnudagskvöldið og var það tveggja stanga veiði í fimm daga. Það kom svo að minnsta kosti einn í morgun, en ég hitti aðeins handhafa annars veiðileyfisins. Þetta er mjög fallegur lax og hálfu pundi þyngri að jafnaði en á sama tíma í fyrra," sagði Skúli Skarphéðinsson, veiðivörður við Leirvogsá, í gærdag um gott gengi veiðimanna fyrstu veiðidagana.

Menn sáttir við Selá

Fyrsta hollið í Selá lauk þriggja og hálfs dags veiði á hádegi í gær og veiddust 11 laxar að sögn Garðars H. Svavarssonar á Vakursstöðum. "Laxinn veiðist víða, allt upp í Bjarnarhyl og er nær allur stór, 10 til 13 pund.

Veiðin byrjaði í Hofsá á föstudaginn og gengur mjög hægt. Á hádegi eru komnir 6 laxar á land, fjórir 11-15 pund og tveir 8,5 og 4 pund. Menn sjá laxa hér og þar, en fáa," sagði Garðar Svavarsson ennfremur um fyrstu veiðidaganna í ánni.

Glæðist í Gljúfurá

Holl í Gljúfurá, sem lauk tveggja daga veiði á hádegi á föstudag, veiddi 10 laxa og voru þá komnir 20 laxar á land. Flestir veiddust laxarnir í Ósnum og að sögn veiðimanna er enn lítið gengið í efri hluta árinnar þótt vatnsmagn sé alls ekki óhagstætt. Laxarnir eru flestir 4-6 pund, stærst 10 pund.

Úr ýmsum áttum

Lax er nú farinn að veiðast í Soginu, einn í Ásgarði og tveir í Bíldsfelli, þar af annar 21 punds hængur. Lax hefur sést víðar og bleikjuveiði að auki verið góð og fiskur vænn.

Lífleg veiði hefur verið á efsta svæði Stóru-Laxár síðustu daga, einn daginn dró t.d. sami veiðimaðurinn þrjá á land, 10-17 punda. Einna best hefur veiðst á efsta svæðinu og fiskur er þar víða.

Loks kom skot í Rangárnar sem hafa byrjað þunglega. Í gærmorgun veiddust átta laxar og voru þá komnir alls um 25 laxar á land. Nýverið veiddist 7 punda nýgenginn sjóbirtingur á Neðra-Horni og ullu upp úr honum laxaseiðin.

EINN nýgenginn úr Gljúfurá.