TOTTENHAM hefur boðið Middlesbrough ellefu millj. punda fyrir Brasilíumanninn Juninho. Hann á að taka stöðu Teddy Sheringham, sem var seldur til Man. Utd.
GREG Norman kylfing STOFNANDI:: SUS \: \: TOTTENHAM hefur boðið Middlesbrough ellefu millj. punda fyrir Brasilíumanninn Juninho. Hann á að taka stöðu Teddy Sheringham, sem var seldur til Man. Utd.

TOTTENHAM hefur einnig áhuga á að fá enska landsliðsmanninn Les Ferdinand, sem leikur með Newcastle.

ARGENTÍNSKI miðvallarleikmaðurinn Diego Simeone hefur skrifað undir fjögurra ára samning við Inter Milan á Ítalíu . Simeone var áður í herbúðum Atletico Madrid á Spáni og þurfti Milan að greiða rúmar 530 milljónir króna fyrir hann.

BAYER Leverkusen í þýsku 1. deildinni hefur fengið til liðs við sig brasilíska sóknarmanninn Paulo Rink frá Atletico Paranaense . Kaupverð Rinks var 280 milljónir króna en hann er annar Brasilíumaðurinn sem gengur til liðs við Leverkusen á stuttum tíma - hinn er Emerson .

BERTI Vogts , landsliðsþjálfari Þjóðverja í knattspyrnu, hefur sent öllum leikmönnum landsliðsins bréf þar sem hann lýsir yfir óánægju sinni með slaka frammistöðu Þjóðverja í undanriðli HM. Þjóðverjar eru í öðru sæti í riðlinum - á eftir Úkraínu ­ og hafa þeir gert þrjú jafntefli í sex leikjum.

FRANSKI landsliðsmaðurinn David Ginola vill kaupa sig lausan frá Newcastle fyrir tvær millj. punda. Atletico Madrid og Sampdoria hafa áhuga á kappanum.

GLASGOW Rangers er tilbúið að borga fjórar millj. punda fyrir Svíann Stefan Schwarz, sem er mun meiri upphæð en Barcelona, Bayern M¨unchen og Tottenham vilja greiða fyrir hann. Fiorentina vill fá 4,5 millj. punda fyrir hann.

REAL Sociedad á Spáni er tilbúið að borga fjórar millj. punda fyrir Jorge Cadete, miðherja Celtic.

CELTIC er aftur á móti tilbúið að borga Aston Villa þrjár millj. punda fyrir markvörðinn Mark Bosnich.

ÞÝSKA 1. deildarfélagið 1860 München hefur gert fjögurra ára samning við miðvallarleikmanninn Besnik Hasi , sem leikið hefur með Genk í Belgíu .

HASI , sem fæddur er í Kosovo í gömlu Júgóslavíu en hefur króatískt vegabréf, er sjöundi leikmaðurinn sem gengur til liðs við München á stuttum tíma, en félagið á sæti í Evrópukeppni félagsliða.

GREG Norman kylfingur frá Ástralíu komst um helgina á ný í efsta sæti heimslistans með 10,22 stig. Annar er Ernie Els frá S-Afríku með 10,10 stig og Tiger Woods er þriðji með 9,68 stig.

SÍÐASTA umferð sænsku 1. deildarinnar í knattspyrnu fyrir sumarfrí leikmanna var leikin um helgina og sótti Örebro AIK heim. Örebro tapaði 2:0 en þeir Arnór Guðjohnsen og Sigurður Jónsson voru taldir bestu menn Örebro.

TVEIR leikir áttu að vera í gærkvöldi, Trelleborg - Elfsborg og Helsingborg - Örgryte og áttu báðir leikirnir að vera á Skáni. Eftir 20 mínútna leik varð að fresta fyrrnefnda leiknum enda komið svo mikið úrhelli að ekki var hægt að halda leiknum áfram.

Í HELSINGBORG , sem er aðeins norðar en Trelleborg , komst Örgryte yfir skömmu fyrir leikhlé eftir góðan undirbúning Rúnars Kristinssonar, sem lék sem vinstri bakvörður. Þegar menn komu út eftir leikhléið var veðrið orðið vitlaust og dómarinn ákvað að hefja ekki leik á ný.