MENNTAMÁLARÁÐUNEYTIÐ hefur viðrað þá hugmynd við stjórnendur Sjómannaskólans í Reykjavík, sem hýsir Stýrimannaskólann og Vélstjóraskólann, að verulegur hluti skólabyggingarinnar verði tekinn undir starfsemi Kennaraháskólans til að leysa húsnæðisþörf hans.
Rætt um að KHÍ noti hluta Sjómannaskólans

Kemur ekki til greina

MENNTAMÁLARÁÐUNEYTIÐ hefur viðrað þá hugmynd við stjórnendur Sjómannaskólans í Reykjavík, sem hýsir Stýrimannaskólann og Vélstjóraskólann, að verulegur hluti skólabyggingarinnar verði tekinn undir starfsemi Kennaraháskólans til að leysa húsnæðisþörf hans. Guðjón Ármann Eyjólfsson, skólastjóri Stýrimannaskólans, segir að slíkt komi ekki til greina og skólanefnd hafi samhljóða lagst gegn þessari hugmynd.

Guðjón Ármann sagði í samtali við Morgunblaðið að engar formlegar viðræður um þetta mál hefðu farið fram milli menntamálaráðuneytisins og Sjómannaskólans. Málið hefði fyrst verið nefnt við sig af fulltrúa ráðuneytisins í janúar síðastliðnum.

"Mér finnst þessi hugmynd alveg til háborinnar skammar og ég hef sagt þetta við ráðherra. Á hornsteini sem var lagður í húsið þegar það var vígt 1944 stendur að þetta hús sé ætlað sérskólum sjómanna, Stýrimannaskólanum, Vélskólanum og Loftskeytaskólanum. Það er nú búið að setja tugi milljóna króna í að koma Vélstjóraskólanum þarna fyrir og það yrði saga til næsta bæjar ef Stýrimannaskólinn og Vélstjóraskólinn yrðu einhverjar hornrekur þarna. Það kemur ekki til mála og ég held að ráðherra sé þetta alveg ljóst," sagði Guðjón Ármann.