VÖRUSKIPTIN í maí voru óhagstæð um 600 milljónir króna en þá voru fluttar út vörur fyrir 10,3 milljarða og inn fyrir 10,9 milljarða króna fob. Á sama tímabili í fyrra voru þau óhagstæð um 400 milljónir króna á föstu gengi. Fyrstu fimm mánuði þessa árs voru fluttar út vörur fyrir 55 milljarða króna en inn fyrir 51,2 milljarða króna fob.
ÐVöruskiptin við útlönd í janúar-maí 1997

3,8 milljarða afgangur af vöruskiptunum

VÖRUSKIPTIN í maí voru óhagstæð um 600 milljónir króna en þá voru fluttar út vörur fyrir 10,3 milljarða og inn fyrir 10,9 milljarða króna fob. Á sama tímabili í fyrra voru þau óhagstæð um 400 milljónir króna á föstu gengi.

Fyrstu fimm mánuði þessa árs voru fluttar út vörur fyrir 55 milljarða króna en inn fyrir 51,2 milljarða króna fob. Afgangur var því á vöruskiptunum við útlönd sem nam 3,8 milljörðum króna en á sama tíma árið áður voru þau hagstæð um 5,2 milljarða króna á föstu gengi.

Í frétt frá Hagstofu Íslands kemur fram að fyrstu fimm mánuði þessa árs var verðmæti vöruútflutnings 6% meira á föstu gengi en sama tíma árið áður. Stærstan þátt í þeirri breytingu má rekja til sölu Flugleiða á einni af vélum sínum í janúar sl. en á móti kemur samdráttur í verðmæti útfluttra sjávarafurða, einkum í útflutningi á heilfrystum fiski. Sjávarafurðir voru 73% alls útflutningsins og var verðmæti þeira 2% minna en á sama tíma árið áður. Verðmæti útfluttrar iðnaðarvöru var 11% meira en á sama tíma árið áður, þar af var verðmæti útflutts áls 3% meira og verðmæti kísiljárns var 37% meira.

Heildarverðmæti vöruinnflutnings fyrstu fimm mánuði þessa árs var 10% meira á föstu gengi en á sama tíma árið áður. Mestan þátt í auknum vöruinnflutningi áttu fjárfestingarvörur, sérstaklega til stóriðju, en einnig jókst innflutningur á flutningatækjum.