YFIRMENN rússnesku geimferðaáætlunarinnar gáfu áhöfn geimstöðvarinnar Mír um það fyrirmæli í gær að búa sig undir hættulega og áhættusama aðgerð til að freista þess að koma raforkukerfi stöðvarinnar aftur í lag.
Búa sig undir áhættusama viðgerð í Mír

Koroljov. Reuter.

YFIRMENN rússnesku geimferðaáætlunarinnar gáfu áhöfn geimstöðvarinnar Mír um það fyrirmæli í gær að búa sig undir hættulega og áhættusama aðgerð til að freista þess að koma raforkukerfi stöðvarinnar aftur í lag.

Geimfararnir voru beðnir að hefja þegar í stað æfingar undir viðgerð innan Spektr-rannsóknastofunnar. Vegna viðgerðarinnar þurfa þeir að klæðast geimgöngubúningum og voru þeir hvattir til að æfa sig í öðrum hlutum geimstöðvarinnar uns birgðafar kemur með varahluti og vistir.

Í gær var frá því skýrt, að birgðafarinu yrði skotið á loft frá Bajkonur-stöðinni í Kazakhstan næstkomandi laugardag, 5. júlí sem þýðir að það ætti að leggjast upp að Mír tveimur dögum seinna.

Geimförunum er ætlað að tengja sólrafhlöður Spektr inn á orkukerfi geimstöðvarinnar en til þess þurfa þeir að tengja framhjá rannsóknarstöðinni sjálfri. Í því felst að skipta um hlera að Spektr svo tengja megi 20 raforkukapla gegnum hana. Takist þeim ekki að loftþétta hlerann að nýju leiðir það til þess, að sögn fulltrúa bandarísku geimferðastofnunarinnar (NASA) að áhöfnin verði að yfirgefa stöðina og hraða sér til jarðar í sérstöku flóttafari.

Geimfararnir um borð í Mír hafa ekki fengið þjálfun í að gera við göt af því tagi sem urðu á byrðingi Spektr við áreksturinn í síðustu viku. Að sögn Vladímírs Solovjovs, aðstoðaryfirmanns Mír-áætlunarinnar, er sú viðgerð mjög flókin og því yrði beðið með að freista viðgerðar á gatinu þar til ný áhöfn yrði send til Mír í ágúst nk.

Tekist hefur að ná upp eðlilegum loftþrýstingi, raka- og súrefnisstigi í Mír í kjölfar bilunar vegna áreksturs ómannaðs birgðafars við stöðina sl. miðvikudag.