Hugsanlegt er að Guðjón Þórðarson verði næsti landsliðsþjálfari Íslands í knattspyrnu. Fyrst stjórn KSÍ ákvað að stíga það skref að segja Loga Ólafssyni upp var rétt að leita til Guðjóns. Það var rökrétt framhald og þeirri ákvörðun KSÍ ber að fagna.
RÖKRÉTT »Guðjón Þórðarson er réttur maður í hlutverk landsliðsþjálfara Hugsanlegt er að Guðjón Þórðarson verði næsti landsliðsþjálfari Íslands í knattspyrnu. Fyrst stjórn KSÍ ákvað að stíga það skref að segja Loga Ólafssyni upp var rétt að leita til Guðjóns. Það var rökrétt framhald og þeirri ákvörðun KSÍ ber að fagna.

Blikur eru reyndar á lofti nú hvort af ráðningu Guðjóns verði og þau tíðindi hafa spurst að forráðamenn Knattspyrnufélags ÍA sendi frá sér yfirlýsingu í dag í tengslum við mál hans. Heimildir herma að Akurnesingar hafi krafist þess af forystu KSÍ að fyrrverandi þjálfari þeirra verði ekki ráðinn til að stjórna landsliðinu, nema hann falli frá kröfum um málssókn á hendur Knattspyrnufélaginu. Ekki hefur verið gengið frá starfslokum Guðjóns eftir að hann var rekinn frá ÍA í vetur og hefur hann hótað málssókn verði ekki gengið frá málinu. Það sætta a.m.k. sumir forystumanna ÍA sig ekki við og telja sig reyndar ekki skulda Guðjóni neitt.

Formaður KSÍ sagðist í gær telja óheppilegt að ráða þjálfara sem hugsanlega muni eiga í málaferlum við fyrrum félag sitt.

Áður en Logi Ólafsson var leystur frá störfum var honum boðið að segja upp. Hann þáði það ekki; vildi berjast eins og sönnum keppnismanni sæmir en var þá rekinn. Sjónarmið KSÍ var það að fyrst ákvörðun lá fyrir þess efnis að Logi yrði ekki endurráðinn í haust, þegar samningur hans rynni út, væri best að eftirmanni hans gæfist tækifæri til að taka strax við og nota leikina sem eftir eru í ár til að búa sig undir undankeppni EM, sem hefst á næsta ári.

Það er vitaskuld aldrei skemmtileg ráðstöfun að reka þjálfara, en staðreyndin er samt sem áður sú, og þjálfurum vel kunnug, að nái lið ekki árangri er þessi hætta ætíð fyrir hendi. Keppnisíþróttir snúast um það að ná sem bestum árangri ­ starf knattspyrnuþjálfara er metið út frá því hve lið þeirra sigra í mörgum leikjum, til hve margra titla þau vinna.

Guðjón Þórðarson er mjög reyndur í knattspyrnuheiminum. Hann er leikjahæsti maður Akraness frá upphafi og þjálfaraferillinn er glæsilegur. Hann hefur verið umdeildur maður en náð frábærum árangri. Titlarnir, sem félög hafa unnið til undir hans stjórn, tala sínu máli. Í vetur var Guðjón svo rekinn frá ÍA ­ ekki þó vegna slaks gengis liðsins, heldur meints agabrots ­ og þekkir því einnig þá hlið mála.

Guðjón hefur mikla þekkingu á knattspyrnu og nær að laða fram það besta í þeim leikmönnum sem hann hefur yfir að ráða hverju sinni. Hann er því rétti maðurinn í starf landsliðsþjálfara. Með það í huga er sett fram sú von að sátt náist milli hans og forystu Knattspyrnufélags ÍA.

Skapti

Hallgrímsson