LÚXEMBORG tekur í dag við forystu í ráðherraráði Evrópusambandsins (ESB) af Hollandi. Jean- Jacques Kasel, fastafulltrúi Lúxemborgar hjá ESB, sagði í gær að fjölgun aðildarríkja yrði meginverkefni næstu mánaða.
Lúxemborg tekur við formennsku Stækkun ESB efst á dagskrá

Brussel. Reuter.

LÚXEMBORG tekur í dag við forystu í ráðherraráði Evrópusambandsins (ESB) af Hollandi. Jean- Jacques Kasel, fastafulltrúi Lúxemborgar hjá ESB, sagði í gær að fjölgun aðildarríkja yrði meginverkefni næstu mánaða.

Ákveðið hafði verið að aðildarviðræður við ríki í Mið- og Austur-Evrópu skyldu hefjast sex mánuðum eftir lok ríkjaráðstefnunnar, en henni lauk á leiðtogafundi í Amsterdam þann 17. júní.

Stjórnarerindrekar í Brussel telja góðar líkur á að hægt verði að ljúka undirbúningi fyrir aðildarviðræður fyrir desember, þrátt fyrir deilu Frakklands og Þýskalands um framkvæmd Efnahags- og myntbandalagsins, EMU.

Að kröfu Frakka hefur Lúxemborg einnig fallist á að halda sérstakan leiðtogafund um atvinnumál en stjórn Lúxemborgar varar þó við of mikilli bjartsýni á þeim vettvangi. Jean-Claude Juncker, forsætisráðherra Lúxemborgar, sagði í viðtali við belgíska dagblaðið La Libre Belgique að engar líkur væru á að Lúxemborg legði fram einhverjar "kraftaverkalausnir" í baráttunni gegn atvinnuleysi.