ÖLLU starfsfólki bifreiðaumboðsins Jöfurs hf. hefur nú verið sagt upp og stendur nú yfir gagnger endurskipulagning á starfsemi fyrirtækisins. Innflutningur Jöfurs á Peugeot hefur stórlega aukist á milli ára en enn er óljóst hvort fyrirtækið missir Skoda umboðið yfir til Heklu.
ÐFjárhagsleg endurskipulagning hjá JöfriÖllu starfsfólki

hefur verið sagt upp

ÖLLU starfsfólki bifreiðaumboðsins Jöfurs hf. hefur nú verið sagt upp og stendur nú yfir gagnger endurskipulagning á starfsemi fyrirtækisins. Innflutningur Jöfurs á Peugeot hefur stórlega aukist á milli ára en enn er óljóst hvort fyrirtækið missir Skoda umboðið yfir til Heklu.

Um 30 manns vinna nú hjá Jöfri en fyrirtækið er með umboð fyrir Peugeot, Skoda og Chrysler. Jón Ármann Guðjónsson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, segir að uppsagnirnar séu liður í mikilli vinnu til að koma rekstri fyrirtækisins á réttan kjöl en það hefur verið rekið með tapi á undanförnum árum. "Uppsagnirnar eru liður í þeirri hagræðingu, sem þarf að eiga sér stað, en ekki er ljóst hvort endurráðið verður í allar stöðurnar."

Á síðasta ári var hlutafé Jöfurs aukið úr fimm milljónum króna í áttatíu. Guðjón Ármann Jónsson lögmaður keypti þá 2/3 hluta aukningarinnar og eignaðist þar með meirihluta í fyrirtækinu. Þá sagði hann að hann stefndi ekki að því að vera meirihlutaeigandi til frambúðar heldur vildi hann fá nýja hluthafa til liðs við fyrirtækið. Það hefur nú gengið eftir og segir Jón Ármann að sumir eldri hluthafar hafi aukið hlut sinn og nýir bæst í hópinn. "Verið er að ganga frá endurfjármögnun fyrirtækisins með þessum hætti og nú munum við einbeita okkur að rekstrinum. Fyrstu fimm mánuði ársins hefur fyrirtækið verið með um 4% markaðshlutdeild í innflutningi nýrra bíla, Peugeot er með tæp 2% og Skoda og Chrysler eru með um 1% hvor tegund. Salan á Peugeot hefur tvöfaldast á milli ára hjá okkur og ég er bjartsýnn á að hægt sé að gera enn betur á því sviði."

Til greina kemur að Jöfur missi Skoda umboðið yfir til Heklu hf. þar sem það er stefna Volkswagen, sem á meirihluta í tékknesku Skoda-verksmiðjunum, að hafa tegundir sínar á hendi eins aðila. Jón Ármann segir að enn hafi ekkert verið ákveðið í þeim efnum.