FLUGFÉLAG Íslands tilkynnti í gær 51% lækkun á fargjöldum til áfangastaða sinna. Nefnist tilboðið sumarglaðningur og gildir um þriðjung sætaframboðsins í júlí, kringum 20 þúsund sæti. Má nefna sem dæmi að fargjald milli Akureyrar og Reykjavíkur verður kr. 7.330 báðar leiðir með flugvallarskatti og 7.130 milli Reykjavíkur og Ísafjarðar.


Flugfélag Íslands lækk

ar fargjöld um 51% í júlí

FLUGFÉLAG Íslands tilkynnti í gær 51% lækkun á fargjöldum til áfangastaða sinna. Nefnist tilboðið sumarglaðningur og gildir um þriðjung sætaframboðsins í júlí, kringum 20 þúsund sæti. Má nefna sem dæmi að fargjald milli Akureyrar og Reykjavíkur verður kr. 7.330 báðar leiðir með flugvallarskatti og 7.130 milli Reykjavíkur og Ísafjarðar.

Páll Halldórsson, framkvæmdastjóri félagsins, segir að hér sé ekki verið að svara sérstaklega fargjöldum sem Íslandsflug tilkynnti nýverið að yrðu í boði hjá félaginu frá þessum mánaðamótum, heldur allri samkeppni við innanlandsflugið, sem væri ekki síst einkabíllinn og ferðir sérleyfishafa. Segir hann von Flugfélagsmanna að stækka megi markaðinn með þessum aðgerðum. Kvaðst hann furða sig á því að til dæmis sérleyfishafar hefðu ekki brugðist við auknu frjálsræði í fluginu með einhverjum hætti.

Sem dæmi um verðsamanburð nefndi hann að ferð með áætlunarbíl milli Reykjavíkur og Akureyrar kostaði sjö þúsund krónur og kr. 9.500 til Ísafjarðar, báðar leiðir. Áður eru nefnd fargjöld Flugfélags Íslands á þessum leiðum og til viðbótar má nefna að tilboðsfargjald félagsins frá Reykjavík til Vestmannaeyja er kr. 6.030, til Sauðárkróks 7.030 og Egilsstaða kr. 7.730, báðar leiðir. Dæmi um verð frá Akureyri er kr. 5.930 til Egilsstaða, 6.930 til Ísafjarðar, 5.530 til Kópaskers og kr. 5.130 til Grímseyjar, báðar leiðir. Vilji Reykvíkingar t.d. ferðast allt til Grímseyjar greiða þeir samanlögð fargjöld eða alls kr. 12.460 báðar leiðir. Sumarglaðningurinn er án skilyrða. Alls flýgur félagið til sjö áfangastaða út frá Reykjavík og sjö frá Akureyri, 380 leggi alls í viku hverri.

Hugsanlega framlengt

Páll Halldórsson segir að svigrúm til fargjaldalækkana sé ekki mikið og valin hafi verið sú leið að bjóða 20 þúsund sæti á þessu verði og stendur tilboðið út júlí. Hugsanleg framlenging verði skoðuð eftir viðtökunum. Páll segir að með endurskoðuðum rekstri flugfélaganna tveggja og sameiningu þeirra í Flugfélagi Íslands sé leitað hagkvæmustu leiða til reksturs innanlandsflugs. Segir hann flugvélakost góðan og sveigjanlegan og starfsfólk búa yfir áratuga reynslu úr flugrekstri.

Um önnur verkefni sagði Páll helstu sóknarfærin vera í Grænlandi. Þá væri hugsanlegt næsta vetur að fara í samstarf við hinn erlenda eiganda einnar Fokker 50 vélarinnar sem félagið þyrfti ekki á að halda í áætlun hérlendis. Yrði þá um að ræða erlend leiguflugsverkefni, með eða án áhafna. Einnig sagði Páll skoðanir Fokker vélanna hafa verið færðar til Reykjavíkur og tímasetningar þeirra lagaðar að áætluninni. Þær færu nú svo til eingöngu fram að næturlagi. Flugfélag Íslands leigir Fokker vélarnar af Flugleiðum með áhöfnum en réði til sín flugmenn frá Flugfélagi Norðurlands auk um 15 nýrra sem hafa verið að ljúka þjálfun.

Morgunblaðið/Jim Smart

PÁLL Halldórsson, framkvæmdastjóri Flugfélags Íslands, við eina af Fokker vélunum sem notaðar eru í áætlunarfluginu.