TUNG Chee Hwa, sem tók við embætti héraðsstjóra í Hong Kong í gær, á mjög erfitt verk fyrir höndum og þarf að verja stefnu kínverskra stjórnvalda í málefnum bresku nýlendunnar fyrrverandi þótt hann beri ekki ábyrgð á henni. Hann þarf að tryggja að Hong Kong verði stjórnað að minnsta kosti jafnvel og á nýlendutímanum og helst mun betur.

Skipakóngur tekur við af Patten

Hong Kong. The Daily Telegraph.

TUNG Chee Hwa, sem tók við embætti héraðsstjóra í Hong Kong í gær, á mjög erfitt verk fyrir höndum og þarf að verja stefnu kínverskra stjórnvalda í málefnum bresku nýlendunnar fyrrverandi þótt hann beri ekki ábyrgð á henni. Hann þarf að tryggja að Hong Kong verði stjórnað að minnsta kosti jafnvel og á nýlendutímanum og helst mun betur.

Tung þarf að stuðla að frekari hagvexti í Hong Kong og koma í veg fyrir spillingu, sem hefur verið fylgifiskur efnahagsuppgangsins á kínverska meginlandinu. Hann þarf ennfremur að sætta sjónarmið Hong Kong-búa, sem krefjast frelsis og lýðræðis, og stefnu kínverskra stjórnvalda, sem eru staðráðin í að koma í veg fyrir að slík sjónarmið festi rætur á meginlandinu.

Forðaðist sviðsljósið

Það er því engin furða að Tung, sem er sextugur og fyrrverandi skipakóngur, skuli hafa verið tregur til að taka við embættinu. Þegar hann stjórnaði skipafélagi fjölskyldu sinnar, Orient Overseas Line, forðaðist hann fjölmiðla og sviðsljósið en aflaði sér öflugra vina á bak við tjöldin. Hann þurfti á þessum vinum að halda um miðjan síðasta áratug þegar fyrirtækið átti í miklum rekstrarörðugleikum. Skipafélaginu var bjargað með fjármagni frá Peking og viðskiptajöfrinum Henry Fok, sem er ef til vill sá maður sem leiðtogarnir í Kína leita fyrst til þegar þeir þarfnast ráðgjafar um málefni Hong Kong. Fyrirtækið fékk jafnvirði 8,4 milljarða króna að láni frá Kínverjum og fjölmiðlar í Hong Hong hafa velt því fyrir sér hvort Tung standi í svo mikilli þakkarskuld við kínversk stjórnvöld vegna lánsins að hann þjóni frekar hagsmunum þeirra en íbúa eyjunnar. Sjálfur hefur hann sagt að svo sé ekki.

"Onassis austursins"

Tung fæddist í Shanghai en fjölskylda hans fluttist til Hong Kong þegar kommúnistar komust til valda í Kína árið 1949. Faðir hans var þekktur sem "Onassis austursins".

Almenningur í Hong Kong leit á Tung sem hefðbundinn kínverskan kaupsýslumann, sem hneigðist til þess að leysa málin á bak við tjöldin, og hann sýndi lítinn áhuga á stjórnmálum.

Þegar Chris Patten varð landstjóri skipaði hann Tung í framkvæmdaráð Hong Kong þar sem hann vildi fá þangað mann, sem studdi sjónarmið kínverskra stjórnvalda í ýmsum málum. Tung sagði sig úr ráðinu um mitt síðasta ár og hann var þá þegar talinn líklegastur til að verða fyrir valinu sem héraðsstjóri Hong Kong. Fyrsta merkið um að Tung yrði valinn kom hálfu ári áður, þegar Jiang Zemin, forseti Kína, heilsaði honum einkar innilega á fundi í Peking.

Það er ekki erfitt að sjá hvers vegna kínversk stjórnvöld töldu Tung best til þess fallinn að stjórna Hong Kong. Hann hafði notið velgengni í starfi, var virtur, þjóðrækinn og ópólitískur. Vinir hans í Hong Kong og Peking lögðu fast að honum að gefa kost á sér í embættið og hann féllst að lokum á það seint á síðasta ári. 400 manna nefnd, sem Kínverjar skipuðu, kaus hann héraðsstjóra í desember og hann fékk 320 atkvæði.

Höfðar til þjóðarstoltsins

Þegar Tung hefur rætt um breytingarnar í Hong Kong hefur hann einkum höfðað til þjóðarstolts Kínverja og lagt áherslu á að hann vilji tryggja sem mesta einingu meðal íbúanna. "Með samþykki alls heimsins munum við hverfa aftur til föðurlandsins með sæmd," sagði hann í viðtali nýlega. "Við verðum þá virðulegir Kínverjar og ekki lengur kínverskir íbúar undir nýlendustjórn Breta."

Tung þykir vingjarnlegur og einlægur í framkomu og mörgum íbúum Hong Kong geðjast að "föðurlegri" framgöngu hans. Lýðræðissinnar og margir ungir Hong Kongbúar eru hins vegar óánægðir með íhaldssemi hans og stífni í ýmsum málum. Óánægjan óx þegar Tung gerði ráðstafanir til að tryggja að löggjafarþing Hong Kong yrði afnumið og skerða þegnréttindi íbúanna sem sögð voru ógna "þjóðarhagsmunum" Kínverja.

Reuter TUNG Chee Hwa, sem tók við embætti héraðsstjóra í Hong Kong í gær, stendur hér á milli Jiang Zemin, forseta Kína, og Tonys Blairs, forsætisráðherra Bretlands.