STJÓRN Laurents Kabila hefur heft aðgang rannsóknarnefndar SÞ að svæðum þar sem talið er að hersveitir hans hafi framið fjöldamorð á flóttamönnum frá Rúanda. Stjórnvöld í Kongó vilja setja skilyrði fyrir rannsókninni sem SÞ geta ekki sætt sig við. Þetta er önnur tilraun SÞ til að hefja rannsóknina sem samþykkt var í apríl síðastliðnum. Hjálparstofnanir segjast ekkert vita um afdrif 250.
Rannsókn SÞ í Kongó

STJÓRN Laurents Kabila hefur heft aðgang rannsóknarnefndar SÞ að svæðum þar sem talið er að hersveitir hans hafi framið fjöldamorð á flóttamönnum frá Rúanda. Stjórnvöld í Kongó vilja setja skilyrði fyrir rannsókninni sem SÞ geta ekki sætt sig við. Þetta er önnur tilraun SÞ til að hefja rannsóknina sem samþykkt var í apríl síðastliðnum. Hjálparstofnanir segjast ekkert vita um afdrif 250.000 flóttamanna af Hutu ættbálki sem búið höfðu í flóttamannabúðum í landinu frá 1994.

Levi íhugar afsögn.

David Levi, utanríkisráðherra Ísraels, íhugar nú að segja af sér í mótmælaskyni við stjórnaraðferðir Benjamins Netanyahu, forsætisráðherra. Þetta kom fram á blaðamannafundi sem Levi boðaði til í gær. Hann segir að áður en hann geri upp hug sinn ætli hann að gefa sér nokkra daga til að íhuga hvort möguleiki sé á að hlutirnir verði lagfærðir þannig að stjórnin verði starfshæf og haldið verði áfram með friðarferlið.

Kjarnorka í Írlandshafi

Eftir að hafa staðfastlega neitað því um árabil hafa bresk stjórnvöld nú viðurkennt að Bretar hafi losað allt að tveimur tonnum af kjarnorkuúrgangi í Írlandshaf á 6. áratugnum. David Woods, sem er ráðherra sjávarútvegs og náttúruauðlinda í írsku stjórninni hefur farið fram á nánari skýringar, ekki síst á margendurteknum afneitunum breskra stjórnvalda. Upplýsingarnar þykja benda til þess að engu sé að treysta í yfirlýsingum Breta hvað varðar losun skaðlegra úrgangsefna.

Bætir ímynd Jeltsíns

Tatyana Dyachenko, 37 ára, dóttir Borísar Jeltsín, Rússlandsforseta, hefur verið skipuð opinber ráðgjafi um ímynd hans. Skrifstofa forsetans tilkynnti þetta á mánudag en Tatyana er talin hafa séð um ímynd föður síns allt frá kosningasigri hans á síðasta ári. Tatyana, sem er tölvufræðingur og tveggja barna móðir er einnig talin hafa víðtæk áhrif á forsetann í öðrum málum.

Gera upp við herinn.

Viktor Tsjernomyrdín, forsætisráðherra Rússlands, hét því á mánudag að þrýsta á um umbætur innan rússneska hersins. Hann sagðist hafa gefið fyrirmæli um að ríkið gerði upp skuldir sínar við herinn en þær samanstanda m.a. af ógoldnum launum yfirmanna. Yfirlýsing forsætisráðherrans kom í kjölfar gagnrýni Lev Rokhlin, hershöfðingja og áhrifamanns innan stjórnarinnar, um að áætlanir stjónvalda um að draga úr vægi hersins ættu eftir að eyðileggja herstyrk Rússa.