SLYSAVARNAFÉLAG Íslands hugleiðir nú að festa kaup á nýju leitarkerfi sem breska fyrirtækið BMT, Marine Information System Limited, hefur þróað í samvinnu við m.a. bresku strandgæsluna. Markaðsstjóri fyrirtækisins, Peter Batt, kynnti kerfið fyrir fulltrúum nokkurra íslenskra stofnana í gær, þar á meðal Hafrannsóknastofnun, Siglingastofnun, Landhelgisgæslunni og Hollustuvernd ríkisins.
Nýtt breskt leitarkerfi kynnt fyrir íslenskum stofnunum

Reiknar út leitar-

svæði með hraði

SLYSAVARNAFÉLAG Íslands hugleiðir nú að festa kaup á nýju leitarkerfi sem breska fyrirtækið BMT, Marine Information System Limited, hefur þróað í samvinnu við m.a. bresku strandgæsluna. Markaðsstjóri fyrirtækisins, Peter Batt, kynnti kerfið fyrir fulltrúum nokkurra íslenskra stofnana í gær, þar á meðal Hafrannsóknastofnun, Siglingastofnun, Landhelgisgæslunni og Hollustuvernd ríkisins.

Fyrir um tveimur árum fékk SVFÍ leitarforritið SAR, sem stendur fyrir leit og björgun, hjá bresku strandgæslunni og hefur það reynst vel við leitar- og björgunarstörf til sjós, að sögn Páls Ægis Péturssonar, deildarstjóra björgunardeildar.

Kerfið fýsilegur kostur

"SVFÍ sendi tvo menn út á seinasta ári á námskeið í leit og björgun í þjálfunarmiðstöð bresku strandgæslunnar, um svipað leyti og hún var að taka í notkun nýja kerfið til reynslu. Okkar menn fengu strax gríðarlegan áhuga á því, enda eldra kerfið talsvert flóknara og tekur nokkurn tíma að fá leitarsvæðið reiknað út. Nýja kerfið er mun fullkomnara og fljótvirkara og því mjög fýsilegur kostur fyrir okkur Íslendinga. SVFÍ hefur ríkan áhuga á nýja kerfinu en engin ákvörðun hefur hins vegar verið tekin um kaup enn sem komið er," segir Páll.

Sem dæmi um notkunarmöguleika nefnir Páll leit að barni sem fer út á vindsæng og rekur frá landi, er kallar á tafarlaus viðbrögð. "Í slíku tilviki afmarkar kerfið leitarsvæði með hraði, reiknar út strauma á svæðinu og hvert vindsængina rekur, auk þess að taka tillit til veðurs og fleiri þátta sem skipta máli í því sambandi. Einnig má nefna að þegar skip er að fara á milli tveggja hafna og skilar sér ekki á tilsettum tíma, setjum við inn upplýsingar um strauma og vind og tölvan reiknar út líklegasta leitarsvæði," segir hann. "Okkar vantar hins vegar nákvæmar upplýsingar um strauma í hafinu við Íslands, og kortlagning þeirra er verkefni sem þarf að vinna."

Að sögn Peters Batt er SARIS háþróað leitarkerfi, hannað með það í huga að hægt sé að nota það um allan heim.

Nýtist víða um heim

"Gagnagrunnur kerfisins miðast við kort og haffræði, er byggir á bestu fáanlegu upplýsingum um hafsvæði og strauma á viðkomandi stað, auk veðurfars. Kerfið nýtist því yfirvöldum leitar- og björgunarmála um víða veröld," segir hann. "Kerfið er hraðvirkt og getur áætlað staðsetningu þess sem leitað er að á ákveðnum tíma með mikilli nákvæmni. Mér er illa við að áætla hversu nákvæmt það er, því slíkt fer eftir mörgum þáttum og ekki síst hversu góðar upplýsingar liggja fyrir um hvert svæði, en þó er ljóst að þetta er nákvæmasta aðferð sem kostur er á til að reikna út þessa hluti."

Brett segir að kerfið verði fáanlegt innan tveggja vikna og hafi stofnanir í Hollandi, Belgíu, Nýja- Sjálandi og víðar sýnt því mikinn áhuga. Kostnaður við kaup nemur um 4 milljónum króna, sem Brett segir einungis brot af því sem þróunin hefur kostað undanfarin ár, en m.a. hefur breska strandgæslan lagt fjármuni til þróunarstarfsins. Hann kveðst gera ráð fyrir að söluhagnaður af kerfinu verði notaður til að þróa það áfram.

Auk leitarkerfisins má nefna að BMT hefur hannað kerfi sem byggir á sömu hugmyndafræði og SAR og er nýtanlegt vegna olíu- og mengunarslysa.

Gæti gagnast fleiri stofnunum

Páll Ægir kveðst þeirrar skoðunar að SARIS nýtist ekki einungis SVFÍ, heldur ýmsum öðrum stofnunum hérlendis, svo sem Stýrimannaskólanum og þeim stofnunum öðrum sem kerfið var kynnt fyrir í gær.

Morgunblaðið/Jim Smart PETER Batt, markaðsstjóri hjá BMT, og Páll Ægir Pétursson, deildarstjóri björgunardeildar SVFÍ, segja notkunarmöguleika leitarkerfisins SARIS mikla og að það gæti gagnast ýmsum aðilum hérlendis.