Spurningin sem flestir áhugamenn um hnefaleika velta nú fyrir sér um heim allan er hverjir verði eftirmálar einvígisins á milli Mike Tysons og Evanders Holyfields um heimsmeistaratitil WBA í þungavigt, sem fram fór aðfaranótt sunnudags.
Hvað verður um Mike Tyson? Spurningin sem flestir áhuga menn um hnefaleika velta nú fyrir sér um heim allan er hverjir verði eftirmálar einvígisins á milli Mike Tysons og Evanders Holyfields um heimsmeistaratitil WBA í þungavigt, sem fram fór aðfaranótt sunnudags. Eins og kunnugt er lauk einvíginu á þann hátt að Tyson var dæmdur úr keppni eftir að hafa bitið Holyfield í bæði eyrun, en atvik þetta á sér ekkert fordæmi í hnefaleikasögunni og því ekki ljóst orðið enn hvað verða mun um Tyson.

Íþróttasamband Nevada-fylkis, þar sem einvígið fór fram, mun koma saman til fundar síðar í dag og ákveða hver refsing Tysons verður. Tyson átti upphaflega að fá fyrir einvígið 2,1 milljarð íslenskra króna, hvort sem hann myndi sigra eða tapa, en vilja nú margir sjá Tyson verða af hverri einustu krónu fyrir að varpa skugga á íþróttina. Þá hafa einnig heyrst háværar raddir þess efnis að ævilangt keppnisbann Tyson til handa sé það eina rétta í stöðunni, en samkvæmt lögum Nevada-fylkis gæti þó allt eins farið svo að refsing Tysons verði ekki eins þung og margir vilja.

Lögin segja að í Nevada-fylki megi einungis draga frá tíu prósent af þóknun íþróttamanna í sektir, sem þýðir að þrátt fyrir framferði Tysons um helgina á hann samt sem áður möguleika á að fá tæpa 1,9 milljarða í sinn vasa. Tyson hefur þó enn ekki fengið neitt greitt fyrir þátttöku sína í einvíginu en íþróttasamband fylkisins mun væntanlega skera úr um það í dag hvort Tyson muni fá eitthvað fyrir sinn snúð.

Einnig mun sambandið skera úr um hvort Tyson verður dæmdur í keppnisbann, en fróðir menn í Bandaríkjunum telja líklegt að þar sem reglur Nevada-fylkis taka ekki mjög hart á óíþróttamannslegri framkomu muni bann Tysons ­ ef hann þá á annað borð verður dæmdur í bann ­ ekki verða lengra en eitt ár.

Ekki er þar með öll sagan sögð enn því verið getur að bæði lögregluþjónninn, sem varð fyrir höggi Tysons í ólátunum eftir bardagann, og Evander Holyfield muni kæra hann fyrir líkamsárás. Jim Thomas, lögfræðingur Holyfields, hefur hins vegar lýst því yfir að engin ákvörðun hafi enn verið tekin í málinu, en það sé þó öruggt að aðstoðarmenn Holyfields muni biðja um blóðsýni úr Tyson til þess að útiloka að kappinn sé haldinn einhverjum smitsjúkdómum.

Ef Tyson á annað borð verður kærður fyrir að hafa slegið lögregluþjóninn er ekki ólíklegt að yfirvöld Indiana-ríkis, þar sem Tyson afplánaði dóm fyrir nauðgun ekki alls fyrir löngu, muni blandast í málið því málaferlin gætu talist brot á skilorði hans.

Örlög þessa kunna hnefaleikara eru því enn óráðin en munu þó væntanlega skýrast að hluta til í dag þegar Íþróttasamband Nevada-ríkis kemur saman til fundar til þess að fjalla um mál Tysons.