Frjálsíþróttakonurnar Guðrún Arnardóttir og Sigríður Anna Guðjónsdóttir náðu bestum árangri íslensku keppendanna á Evrópubikarkeppninni, 2. deild, sem fram fór í Óðinsvéum í Danmörku. Guðrún setti Íslandsmet í 200 metra hlaupi, hljóp á 23,81 sekúndum og varð í öðru sæti. Hún átti sjálf gamla metið, 24,01.
FRJÁLSÍÞRÓTTIR

Guðrún og Sigríður

settu Íslandsmet Frjálsíþróttakonurnar Guðrún Arnardóttir og Sigríður Anna Guðjónsdóttir náðu bestum árangri íslensku keppendanna á Evrópubikarkeppninni, 2. deild, sem fram fór í Óðinsvéum í Danmörku. Guðrún setti Íslandsmet í 200 metra hlaupi, hljóp á 23,81 sekúndum og varð í öðru sæti. Hún átti sjálf gamla metið, 24,01. Sigríður Anna, sem varð önnur í þrístökkinu, stökk 13,18 metra og bætti eigið met um 11 sentimetra.

Íslenska kvennasveitin varð í þriðja sæti í keppninni, hlaut 62 stig. Hollensku stúlkurnar sigruðu með 100 stig og Danir urðu í öðru sæti með 93 stig. Karlasveit Íslands hlaut einnig 62 stig en varð í sjötta sæti. Slovenía sigraði með 125 stig, Ísrael og Danmörk hlutu 115 stig.

Árangur íslenska landsliðsins var upp og ofan eins og gengur en margir bættu árangur sinn talsvert þó svo það dygði ekki til að vera framarlega. Vigdís Guðjónsdóttir stóð sig vel í spjótkasti og kastaði 53,20 og varð í öðru sæti. Árangurinn er undir lágmarki fyrir Evrópukeppni unglinga undir 22 ára og alveg við hennar besta.

Kvennasveitin í 4×400 metra hlaupi stóð sig vel og varð í öðru sæti. Þess má geta að Guðrún hljóp síðasta sprettinn mjög vel og hljóp á 52,1 sekúndu, sem er sekúndu undir Íslandsmeti hennar í greininni.

Vala Flosadóttir átti að vera meðal keppenda í stangarstökkinu en mætti of seint á völlinn og fékk ekki að keppa. Hún lagði af stað á keppnisdag frá Svíþjóð en lenti í umferðaröngþveiti og kom því of seint.

Pétur Guðmundsson kúluvarpari varð í öðru sæti, varpaði kúlunni 19,16 metra.

Morgunblaðið/Ingi Rósinberg Jónsson GUÐRÚN Arnardóttir stóð sig vel í Óðinsvéum um helgina og setti meðal annars Íslandsmet í 200 m hlaupi.