ÞJÓÐHÁTÍÐARDAGURINN er að baki ásamt tilheyrandi hátíðahöldum sem fóru vel fram um land allt að sögn þeirra sem gerst þekkja og nánast fylgdust með og auðvitað er það lögreglan sem helst er til frásagnar. Hátíðahöldin á 17. júní hafa víðast hvar runnið í fastar skorður, svo fastar að það vekur nánast athygli ef einhversstaðar er brugðið út af venjunni.
Lagnafréttir

Undur og stórmerki Sumar iðnstéttir hafa ekki látið sig neinu varða, hvort eða hvað kennt er í skólum í eigin fagi, segir Sigurður Grétar Guðmundsson , eða hvort til eru námsbækur eða námskrár fyrir iðnina.

ÞJÓÐHÁTÍÐARDAGURINN er að baki ásamt tilheyrandi hátíðahöldum sem fóru vel fram um land allt að sögn þeirra sem gerst þekkja og nánast fylgdust með og auðvitað er það lögreglan sem helst er til frásagnar.

Hátíðahöldin á 17. júní hafa víðast hvar runnið í fastar skorður, svo fastar að það vekur nánast athygli ef einhversstaðar er brugðið út af venjunni.

Það gerðist einmitt nú í Reykjavík, þar sem hefðin hefur haft hvað föstust tök. Þar gerðist það við hina hefðbundnu athöfn á Austurvelli að morgni þjóðhátíðardags þegar lagður var blómsveigur að styttu Jóns Sigurðssonar. Hið hefðbundna er að þar komi fram nýstúdentar og hefur það ætíð sett skemmtilegan svip á athöfnina en nú var breytt út af. Þarna komu fram nýstúdent og iðnnemi.

Hver fékk þá hugmynd, að iðnnemi kæmi að þessari athöfn er ekki vitað en hún kemur á óvart og þetta leiðir hugann að því hve misjöfnum augum er litið á menntun í þessu landi, það er að vísu ekkert séríslenskt fyrirbrigði heldur er svo víðast hvar..

Er það annars flokks að fara í iðnnám?

Ekki alls fyrir löngu var spjallað við ungan mann í helgarútgáfu eins dagblaðanna og hann spurður um lífið og tilveruna. Þegar hann var spurður að því hvað hann starfaði sagðist hann vinna við pípulagnir þó engin hefði hann réttindin í þeirri iðn. Þegar hann var spurður frekar og hvort hann hyggði á nám í pípulögnum sagði hann það ólíklegt og bætti síðan við "það fer enginn að læra pípulagnir að eigin vali".

Í þessu eru líklega mikil sannindi, yfirleitt "velja" ungmenni sér ekki að fara í iðnnám, þetta verður það meira fyrir margskonar tilviljanir. Oft hafa einstaklingarnir gefist upp í hinu hefðbundna bóknámi og þá er iðnnámið tekið frekar en ekki neitt nám, illskárra en ekkert.

Þetta er mjög alvarlegt mál, þetta verður að breytast, það verður að lyfta iðnnáminu upp úr þeirri lægð sem það er í.

En við hverja er að sakast, yfirvöld manntamála, iðn- og fjölbrautarskólana, meistarakerfinu eða hvar á að finna sökudólg.

Það er ekki víst að hann sé að finna neinstaðar og kannske engin ástæða til að leita að honum en það er mikil þörf á því að hér séu sterkar vel menntaðar stéttir iðnaðarmann, ekki aðeins vegna einstaklinganna í þessum stéttum, heldur einnig vegna þeirra sem þessar stéttir eiga þjóna, það er þjóðhagsleg nauðsyn.

Hvað sagði sjávarútvegsráðherra?

Sjómannadagurinn er skammt undan með hátíðahöldum í allflestum sjávarplássum þar sem vísir menn héldu ræður og gamlar kempur voru heiðraðar. Ráðherra sjávarútvegs var einn af þeim sem stigu í pontu og hélt ræðu, ekki verður hún tíunduð hér, aðeins athyglisverð og tímabær áskorun ráðherrans. Hann ræddi meðal annars um mennta- og skólamál íslenskra sjómanna, bæði farmanna og fiskimanna og setti fram eftirminnilega áskorun til þessara stétta sem í stuttri samantekt var á þá leið að" sjómenn sjálfir og samtök þeirra eiga að taka mennta- og skólamálin í sínar hendur og gera sig gildandi á þeim vettvangi, ekki þannig að ríkisvaldið eigi að vera laust allra mála, heldur knýja á um betri skóla og betri menntun.

Þessi orð ráðherrans ættu fleiri stéttir að taka til sín, ef finna á sökudólg þess hve ófullnægjandi og óaðlaðandi iðnnám er, þá er tvímælalaust hægt að senda boltann heim í föðurhús, til iðnstéttanna sjálfra sem sumar hverjar hafa ekki látið sig neinu varða hvort eða hvað er kennt í skólum í eigin fagi, hvort til eru námsbækur eða hvort til eru námskrár fyrir iðnina.

Það er vissulega óréttlátt að spyrða alla á sama band, það eru til stéttir sem hafa látið sig þetta miklu skipta, þar má benda á rafvirkja. prentara og bílgreinamenn svo nokkrar stéttir séu nefndar sem fyrirmyndir.

En í alltof mörgum iðngreinum er þetta í slíkum molum að til vansa er, það verður að taka á þessu, bæta námið, semja nýjar námsbækur og gera iðnmenntun aðlaðandi og eftirsóknarverða

Alltof margir líta á nám sem illa nauðsyn til að ná ákveðnum réttindum í stað þess að taka því opnum örmum sem leið til að auka þekkingu og þroska.

En þá verður námið, kennslan og námsefnið að vera þroskandi ekki satt?