Opið alla daga frá 14­18. Til 8. júlí . Aðgangur ókeypis. NÝ SPOR nefnir Þorlákur Kristinssson með listamannsnafnið Tolli sýningu sína í listhúsinu Horninu við Hafnarstræti. Tolli er afar iðinn við kolann á sýningarvettvangi enda ekki einhamur í pataldri sínum við grunnmál myndflatarins.

Málverk/Flóki/ Handíð

MYNDLIST

Hornið

MÁLVERKTOLLI

Opið alla daga frá 14­18. Til 8. júlí . Aðgangur ókeypis.

NÝ SPOR nefnir Þorlákur Kristinssson með listamannsnafnið Tolli sýningu sína í listhúsinu Horninu við Hafnarstræti. Tolli er afar iðinn við kolann á sýningarvettvangi enda ekki einhamur í pataldri sínum við grunnmál myndflatarins. Sem fyrri daginn er vettvangurinn afsprengi nýja málverksins á níunda áratugnum með óheftum kraftbirtingi úthverfs innsæis.

Að undanförnu hafa hér og þar verið að sjást myndir léttra og artistískra vinnubragða, sem að mati rýnisins er það jarðbundnasta og upprunalegasta sem komið hefur frá hendi Tolla um langt skeið. Eru þetta ýmiss konar landslagsstemmur í sértækri útfærslu, en einnig sást skyldum vinnubrögðum bregða við í blómamyndum þeim sem hann sýndi á Akureyri fyrr á árinu, og rýnirinn sá að hluta er verið var að taka þær niður.

En það kveður við giska annan tón í þeim stóru litsterku flekum sem Tolli sýnir núna og útfærslan er mun einhæfari og jafnframt lausari í byggingu, þó sjálf pensilförin og vinnubrögðin séu af sama toga, hröð og vafningalaus. Hér sleppir hann af sér beislinu í nokkrum rauðum myndheildum, sem fyrir sumt leiða hugann að norska málaranum Frans Widerberg, sem er einn af meginásum norskrar myndlistar í dag (f. 1934). Munurinn á þeim er þó sá að Widerberg virkjar á öllu áhrifaríkari hátt innri lífæðar myndflatarins og hefur mun meiri menntunarlegan bakgrunn, er til að mynda ólíkt þjálfaðri teiknari. Tolli er hrár og umbúðalaus sem er í senn styrkur hans og veikleiki, ­ styrkurinn felst í vissum ferskleika sem slíkir hafa en veikleikinn í takmarkaðri yfirsýn og einhæfum ávanakenndum vinnubrögðum. Þannig er vinnumáti Tolla jafnan hinn sami hvað sem hann tekur sér fyrir hendur í málverkinu, þótt yfirborð myndanna taki ýmsum umskiptum. Þá tekur háglansað yfirborð rauðu myndanna svo í að jaðrar við glingurlist, sem er ein þýðing á hugtakinu Kitsch. Þá fer Tolli hamförum í myndum á endavegg, en form myndanna er afar krampakennt og losaralegt í útfærslu allri. það er helst í bláa litnum að rofar til og þá einkum í myndinni "Maður með bláma" sem ber í sér sannverðugt heildarsamræmi . . .

Stöðlakot

PHILLIPPE RICHART

TEXTÍLVERK

Opið alla daga frá 14­18. Til 7. júlí. Aðgangur ókeypis.

Phillippe Richart, sem er nafnið á bæjarlistamanni Akraness í ár, er veflistamaður, að öllum líkindum sá virkasti á Íslandi um þessar mundir, ef tekið er mið af kynferðinu. Raunar vinnur hann í blandaðri tækni og notar jafnvel gaddavír, grjót og steingerðar leyfar í myndir sínar, en það eru ný efni á tæknisviði textíla eins og margur veit, en allir sætta sig ekki við sem betur fer. Richart vann við almennan vefnað á Ísafirði 1980-84 og hefur þar að auki sótt námskeið í öðrum greinum, en lengstum helst unnið við spjald- og myndvefnað, þar til á síðustu árum að flóki er jafnframt uppistaða í verkum hans.

Flóki er svo einmitt uppistaðan í flestum verkunum á sýningunni, og bera samsetningar þeirra þess merki að gerandinn er í ýmsum þreifingum til margra átta, en einnig að menntunarlegi grunnurinn sé nokkuð á reiki. Hugmyndir hefur Richart nógar og tæknisviðið er vítt, en hins vegar er drjúgur svipur af hreinum íðum í útfærslu verkanna. Þó er mikið spunnið í hina einföldu gerð mynda eins og "Landvernd" (7), "Steinborgari" (12) og "Það sjá þeir sem ekki sjá" (14). Þá kveður við allt annan og hreinni tón í verkinu "Á ferð" (11) og hefði verið fengur að meiru af slíku. Náttúrustefin á efri hæð koma helst til réttar síns er listamaðurinn er næstur upprunanum svo sem í Mosastefunum (21-25), en minni lífsmögn eru í hlutvöktum tilburðum . . .

Listakot

Menjar

SAMSÝNING

TÓLF LISTAKONUR

Opið virka daga frá 10-18, laugardaga 10-16. Til 5. júlí. Aðgangur ókeypis.

Rétt er að minna á, að í Listakoti, Laugavegi 70, er á boðstólnum fjölþætt úrval listmuna og myndverka. Að auki er um þessar mundir sérstök áhersla lögð á sýningu minjagripa með menningu landsins og nánasta umhverfi sem viðvarandi þema. Sjálfa náttúruna, sem slípar eltir, litar og mótar eins og það heitir í kynningu. Kennir þar fjölþættra grasa og aðferða, en um er að ræða leirlist, skúlptúr, grafík, textíl og myndlist.

Eins og gefur að skilja í ljósi fjölda sýnenda er um smáhluti að ræða bæði til nytja og skrauts sem skulu ekki taldir upp né tíundaðir, en það sem veit að iðkun handíða á landi hér á síðustu árum er afar eftirtektarverð þróun sem þarfnast stuðnings til að blómstra og auka iðkendum metnað og áræði. Enn sem komið er er að mestu um afar snotra handgerða hluti að ræða en mjór er mikils vísir eins og oft er sagt, og þetta telst víða afar mikilvægur og virtur iðnaður erlendis . . .

Bragi ÁsgeirssonÞORLÁKUR Kristinsson, Tolli, Maður í bláma, olía á léreft.