BÆJARSTJÓRN Kópavogs hefur ákveðið að taka upp greiðslu húsaleigubóta frá og með næstu áramótum. Kópavogsbær vill þó að tryggt sé að ríkið muni áfram greiða 60% bótanna eins og áður en Gunnar Birgisson, formaður bæjarráðs, segir yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar benda til þess að ríkið hyggist hætta greiðslu húsaleigubóta.

Kópavogur ákveður að

greiða húsaleigubætur

Húsaleigubætur til umræðu í bæjarstjórn Akureyrar

BÆJARSTJÓRN Kópavogs hefur ákveðið að taka upp greiðslu húsaleigubóta frá og með næstu áramótum. Kópavogsbær vill þó að tryggt sé að ríkið muni áfram greiða 60% bótanna eins og áður en Gunnar Birgisson, formaður bæjarráðs, segir yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar benda til þess að ríkið hyggist hætta greiðslu húsaleigubóta.

Greiðslur húsaleigubóta hafa verið til umræðu í bæjarstjórn Akureyrar en ákvörðun hefur enn ekki verið tekin. "Ég sé ekki að við verðum utan við kerfið öllu lengur," sagði Jakob Björnsson, bæjarstjóri Akureyrar. "Við höfum ekki barist gegn húsaleigubótum sem slíkum en höfum séð ýmsa annmarka á kerfinu."

Skýrari svör fáist

"Þetta var samþykkt samhljóða á fundi bæjarstjórnar í vor en við höfum líka farið fram á skýrari svör félagsmálaráðaneytisins annars vegar hvað varðar áframhaldandi greiðslu þeirra á húsaleigubótum og hins vegar skilgreiningu á húsaleigubótum sem við teljum eiga heima á sama stað og greiðslur vaxtabóta. Fáist skýr svör við þessu munu bæjaryfirvöld hefja greiðslu bótanna," segir Gunnar. "Við höfum einnig gagnrýnt ákveðna mismunun kerfisins sem felst í því að þeir sem leigja íbúðir af bænum og þeir sem eru með íbúðir í kaupleigu fá ekki greiddar bætur."

Gunnar segir að þó að Kópavogsbær hafi ekki greitt húsaleigubætur til þessa hafi 5-8 milljónum á ári verið varið í óbeinar bætur í formi fjárhagsaðstoðar. Kostnaður Kópavogsbæjar af greiðslu húsaleigubóta er áætlaður 20 milljónir á ári í það minnsta.

Heildargreiðslur ríkisins til húsaleigubóta námu 311 milljónum í fyrra. Greiðslur húsaleigubóta í Reykjavík voru þá 258 milljónir, þar af var hlutur Reykjavíkurborgar 103 milljónir.