AFHENDING Hong Kong hefur snert mjög viðkvæman streng í kínverskri þjóðarsál og Kínverjum finnst, að nú loks sé nýlendutímanum lokið. Þúsundir manna streymdu í gær til Peking til að taka þátt í hátíðarhöldunum þar en annars var haldið upp á þennan atburð um allt landið.

Hátíðarhöld um allt Kína

Peking. Reuter.

AFHENDING Hong Kong hefur snert mjög viðkvæman streng í kínverskri þjóðarsál og Kínverjum finnst, að nú loks sé nýlendutímanum lokið. Þúsundir manna streymdu í gær til Peking til að taka þátt í hátíðarhöldunum þar en annars var haldið upp á þennan atburð um allt landið.

Í Zhengzhou í Henan-héraði ók mikil fylking bifhjólamanna um götur borgarinnar og í Mohe, nyrst við Rússland, voru gerðir eldar meðfram landamærunum. Á bökkum Huangpu-árinnar í Shanghai söng 10.000 manna kór byltingarsönginn "Án kommúnistaflokksins væri hið nýja Kína ekki til" og í Shenzhen léku ljónadansarar listir sínar þegar 509 hermenn héldu af stað til Hong kong.

Mest var um að vera á Tiananmen-torgi í Peking þar sem 100.000 manns, sem boðið var sérstaklega, fylgdust með klukku telja niður síðustu mínúturnar af valdatíma Breta í Hong Kong. Á Tiananmen-torgi var lýðræðishreyfing kínverskra stúdenta kæfð í blóði 1989.

Aðeins fyrir boðsgesti

Fólk kom alls staðar að úr Kína til að fylgjast með hátíðarhöldunum á Tiananmen-torgi og því urðu margir fyrir vonbrigðum þegar her- og lögreglumenn ráku burt alla, sem ekki hafði verið boðið sérstaklega. "Þetta er til skammar," sagði maður nokkur, sem rekinn var burt ásamt félögum sínum. "Við komum alla leið frá Nanking til að taka þátt í þessu." Það var í Nanking árið 1842, að Bretar og Kínverjar bundu enda á Ópíumstríðið með samningum um, að Hong Kong yrði bresk nýlenda.