"HÉR er hvorki mikil spenna í lofti né sérstakur hátíðleiki ríkjandi," segir Per Henje, viðskiptafræðingur hjá VÍB, sem staddur er í Hong Kong. Per starfaði í borginni sumarið 1994 og fór þangað nú í tilefni valdaskiptanna.
Lítil spenna í lofti

"HÉR er hvorki mikil spenna í lofti né sérstakur hátíðleiki ríkjandi," segir Per Henje, viðskiptafræðingur hjá VÍB, sem staddur er í Hong Kong. Per starfaði í borginni sumarið 1994 og fór þangað nú í tilefni valdaskiptanna.

"Mér finnst borgarbúar ekkert sérlega spenntir og margir eru þreyttir á endalausri umfjöllun um valdaskiptin. Flestir telja að litlar breytingar verði við valdaskiptin en þó er ekki laust við að sumum sé dálítið órótt," segir Per.

Hann kvaðst ekki sjá að þátttaka í hátíðahöldunum væri almenn, það væri helst að mótmælendur hefðu sig í frammi. Fyrstu dagar vikunnar eru frídagar og hafa margir borgarbúar notað tækifærið og farið eitthvert annað, að sögn Pers. Hann átti þó von á því að margir færu út á götur um miðnættið og að næturlífið yrði án efa með líflegra móti. Í kvöld standa kínversk yfirvöld fyrir enn einni hátíð þar sem valdaskiptunum verður fagnað og er búist við því að flugeldasýningin á henni verði ennþá tilkomumeiri en sú sem var við sjálf valdaskiptin.

Per sagði að samanborið við 1994, þegar hann bjó í borginni um tíma, væri sjálfstraustið meira. "Þá var óvissa, menn vissu ekki hvað tæki við. Nú eru menn öruggari og það endurspeglast í hlutabréfa- og fasteignamarkaðnum, þar sem verðið hefur ekki verið hærra en nú."