JARÐSKJÁLFTI sem mældist um 3 á Richter varð undir Hengli kl. 23.28 síðastliðið laugardagskvöld. Að sögn Sigurðar Rögnvaldssonar, jarðskjálftafræðings á Veðurstofu Íslands, hefur mikil virkni verið á Hengilssvæðinu undanfarnar vikur.
Snarpur jarðskjálfti undir Hengli

JARÐSKJÁLFTI sem mældist um 3 á Richter varð undir Hengli kl. 23.28 síðastliðið laugardagskvöld. Að sögn Sigurðar Rögnvaldssonar, jarðskjálftafræðings á Veðurstofu Íslands, hefur mikil virkni verið á Hengilssvæðinu undanfarnar vikur.

"Þetta er svona í nyrðri kantinum á því sem verið hefur að hreyfast. Þetta hefur náð alveg út á Mosfellsheiðina, en ekki mikið þarna að Henglinum heldur verið mest fyrir austan hann og suðaustan. Að því leyti er þetta nýtt," sagði Sigurður.

Hann sagði að erfitt væri að spá um framvindu mála á þessu svæði en jarðskjálftafræðingar hefðu hálft í hvoru verið að búast við því undanfarin ár að jarðhræringunum á þessu svæði núna lyki með skjálfta sem gæti orðið um 5,5 á Richter.

"Á árunum 1952-1955 var mikil virkni á Hengilssvæðinu og henni lauk með skjálfta upp á 5,5 norður af Hveragerði. Á aleinfaldasta líkani af þessu hugsa menn sér að það geti gerst aftur. Manni sýnist þetta vera svolítið svipuð atburðarás sem hefur verið þarna nú," sagði Sigurður.