HALLDÓR Ásgrímsson utanríkisráðherra sendi Ciller, varaforsætisráðherra og utanríkisráðherra Tyrklands, persónulegt bréf fyrir síðustu helgi vegna forræðismáls Sophiu Hansen og Ísaks Halim Al. Samkvæmt hæstaréttardómi í Tyrklandi í forræðismáli Sophiu Hansen á hendur Ísak Halim Al vegna dætra þeirra er kveðið á um að mæðgurnar megi hittast mánuðina júlí og ágúst ár hvert.

Sendi utanríkisráðherra Tyrklands

bréf vegna forræðismálsins

HALLDÓR Ásgrímsson utanríkisráðherra sendi Ciller, varaforsætisráðherra og utanríkisráðherra Tyrklands, persónulegt bréf fyrir síðustu helgi vegna forræðismáls Sophiu Hansen og Ísaks Halim Al. Samkvæmt hæstaréttardómi í Tyrklandi í forræðismáli Sophiu Hansen á hendur Ísak Halim Al vegna dætra þeirra er kveðið á um að mæðgurnar megi hittast mánuðina júlí og ágúst ár hvert. Að sögn Ólafs Egilssonar sendiherra snýst málið um það núna að þessi umgengnisréttur komist í framkvæmd.

"Til þess að styðja aðgerðir til framkvæmdar á umgengnisréttinum sendi ráðuneytið ítarlega greinargerð til tyrkneskra stjórnvalda hinn 19. júní síðastliðinn þar sem gerð er grein fyrir stöðu málsins og lögð mikil áhersla á hve brýnt sé að umgengnisrétturinn verði virtur núna í sumar. Til þess að hnykkja enn fremur á þessu sendi Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra frú Tansu Ciller varaforsætisráðherra og utanríkisráðherra Tyrklands persónulegt bréf fyrir síðustu helgi, en þau hittust sem kunnugt er hinn 18. febrúar síðastliðinn í Brussel þar sem ráðherra okkar leitaði stuðnings hennar við framgang málsins," sagði Ólafur.

Hann bætti því við að utanríkisráðuneytið hefði gert ráðstafanir til að fá ráðherralista hinnar nýju ríkisstjórnar Tyrklands og mundi að honum fengnum taka afstöðu til þess hvort kynna þyrfti málið nýjum mönnum, en ráðuneytið hygðist eins og áður fylgja þessu máli fast eftir.