ÍBÚAR Stykkishólms, sem sagðir voru tala dönsku á sunnudögum hér áður fyrr, héldu afmælishátíð sl. sunnudag og fögnuðu þá ýmsum áföngum í sögu bæjarins með fjölbreyttri dagskrá í ágætu veðri. Þá var tilkynnt um kjör nýs heiðursborgara Stykkishólms sem er Árni Helgason fyrrum símstöðvarstjóri með meiru og kunnugur er langt út fyrir Hólminn fyrir margvísleg félagsmálastörf sín.
Nýr heiðursborgari kjörinn á afmælishátíð í Stykkishólmi

Margs konar tímamót eru í Stykkishólmi á árinu og var hápunktur hátíðahalda um síðustu helgi. Fagnað er verslunarafmæli, afmælum ýmissa félaga og stofnana í bænum. Jóhannes Tómasson leit í heimsókn á sunnudaginn og fylgdist með afmælishaldi bæjarbúa og gesta.

ÍBÚAR Stykkishólms, sem sagðir voru tala dönsku á sunnudögum hér áður fyrr, héldu afmælishátíð sl. sunnudag og fögnuðu þá ýmsum áföngum í sögu bæjarins með fjölbreyttri dagskrá í ágætu veðri. Þá var tilkynnt um kjör nýs heiðursborgara Stykkishólms sem er Árni Helgason fyrrum símstöðvarstjóri með meiru og kunnugur er langt út fyrir Hólminn fyrir margvísleg félagsmálastörf sín.

Þegar hefur verið haldið uppá suma afmælisáfangana en í ár er minnst 400 ára verslunarafmælis Stykkishólms og 10 ára afmælis bæjarréttinda, 100 ára samfellds skólastarfs, Kvenfélagið Hringurinn fagnaði fyrr á árinu 90 ára afmæli sínu, 150 ár eru liðin frá því Bókasafn Vesturamtsins var sett á stofn og ýmis félög og stofnanir í bænum eiga einnig merkisafmæli í ár.

Sýningar í Norska húsinu

Afmælishaldið á sunnudag hófst með leik Lúðrasveitar Stykkishólms, söng Kirkjukórs Stykkishólmskirkju og ávarpi Guðrúnar Gunnarsdóttur formanns afmælisnefndar við Norska húsið. Þar innan dyra var síðan opnuð sýning á grafík- og vatnslitamyndum eftir þýska listamanninn Rudolf Weissauer sem hér dvaldi löngum á sjöunda og áttunda áratugnum. Ketill Jónsson verkamaður, sem ættaður var frá Hausthúsum í Hnappadalssýslu, safnaði myndum Weissauers og gaf Amtsbókasafninu yfir 200 myndir hans ásamt bókum og öðrum listaverkum. Bragi Ásgeirsson listmálari var til aðstoðar við val á myndunum og ritar um listamanninn í sýningarskrá þar sem hann segir meðal annars.

"Alls mun þessi menningarþyrsti verkamaður hafa keypt yfir 200 grafísk blöð, vatnslita- og krítarmyndir eftir listamanninn, auk þess að Weissauer gaf honum myndir við ýmis tækifæri og áritaði þær þá gjarnan sérstaklega til hans."

Einnig hefur verið sett upp í Norska húsinu krambúð, sýning er þar uppi á bókum, skjölum og munum á vegum Amtsbókasafnsins, svo og vegna 70 ára afmælis barnastúkunnar Bjargar og 75 ára afmælis Héraðssambands Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu sem er sá aðili sem tók Norska húsið uppá sína arma til varðveislu. Er þar nú til húsa byggðasafn og ýmiss konar sýningahald.

Norska húsið byggðu Anna Magðalena og Árni Thorlacius og kom það tilhöggvið frá Noregi árið 1828. Árið 1970 keypti héraðsnefnd Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu húsið, lét gera það upp og er sú vinna nú á lokastigi.

Um 1.300 íbúar

Íbúar Stykkishólms eru kringum 1.300 og segir Ólafur Hilmar Sverrisson bæjarstjóri að sami vandi sé uppi og hjá mörgum minni þéttbýlisstöðunum að erfitt sé að skapa nógu mörg atvinnutækifæri fyrir unga fólkið. Þeir sem fara í framhaldsskóla geta hafið námið heima en verða að ljúka því á Akranesi og halda síðan enn lengra standi hugur þeirra til frekara náms. Ólafur segir annars næga atvinnu í bænum og íbúatöluna nokkuð stöðuga þessi árin.

Af öðrum atriðum í afmælishaldinu má nefna að fulltrúar Möguleikhússins heimsóttu bæinn og skemmtu við Norska húsið. Leiddu þeir síðan afmælisgesti að Félagsheimilinu þar sem sest var að veitingum, tertu mikilli og súkkulaði. Þar söng einnig kirkjukórinn og bæjarstjóri afhenti heiðursborgaranum nýja skjal til staðfestu kjöri hans. "Með þessari ákvörðun er bæjarstjórn að sýna virðingu sína og þakklæti fyrir vel unnin störf í þágu samfélagsins en þetta er í fimmta sinn sem bæjarfélagið veitir þessa viðurkenningu. Hún var síðast veitt Jóhanni Rafnssyni fyrir 17 árum en áður höfðu hlotið hana Sigurður Magnússon, Kristján Bjarmars og Sigurður Ágústsson," sagði bæjarstjóri m.a. í ræðu sinni.

Gunnlaugur Árnason þakkaði fyrir hönd föður síns og flutti stutt ávarp. Gerði hann meðal annars að umtalsefni mikinn gestagang á heimilinu og hvernig faðir hans hefði komið víða við í félagsmálum og alltaf verið tilbúinn að leggja lið þar sem hann telur jákvætt og til framfara. "Hér hefur honum liðið vel og hér á hann heima."

Um kvöldið voru rokktónleikar í íþróttahúsinu þar sem komu fram hljómsveitirnar Súrefni, Subterranian, Vatn, Botnleðja og fleiri.

Morgunblaðið/jt

BÆJARBÚAR, brottfluttir Hólmarar og gestir fjölmenntu á afmælishátíðina sem hófst við Norska húsið.

MEÐAL skemmtiatriða var heimsókn Möguleikhússins.