VÍÐTÆKUR stuðningur virðist vera á Grænlandi við hugmyndir Lars Emils Johansens, formanns grænlensku heimastjórnarinnar, um að bjóða Bandaríkjum og Rússum að koma aflóga kjarnaoddum fyrir á Grænlandi. Að sögn danska blaðsins Jyllands-Posten á þetta bæði við um heimastjórnina og Siumut, flokk Johansens, sem er jafnframt stærsti stjórnmálaflokkur Grænlands.
Kjarnaoddar á Grænlandi

Stuðningur

við Johansen

VÍÐTÆKUR stuðningur virðist vera á Grænlandi við hugmyndir Lars Emils Johansens, formanns grænlensku heimastjórnarinnar, um að bjóða Bandaríkjum og Rússum að koma aflóga kjarnaoddum fyrir á Grænlandi. Að sögn danska blaðsins Jyllands-Posten á þetta bæði við um heimastjórnina og Siumut, flokk Johansens, sem er jafnframt stærsti stjórnmálaflokkur Grænlands.

Fyrir helgi var hart tekist á um málið. Einn stjórnarandstöðuflokkanna krafðist afsagnar Johansens, sem varð að halda til Grænlands degi fyrr en hann hafði áætlað til að lægja öldurnar. Fáeinir flokksmenn hans höfðu lýst sig andvíga skoðunum Johansens en á stjórnarfundi Siumut á laugardag, sem boðað var til í skyndingu, kom fram fullur stuðningur við Johansen.

Á blaðamannafundi í gær ítrekaði hann að um kjarnaodda væri að ræða, ekki geislavirkan úrgang og að boðið væri framlag Grænlendinga til heimsfriðarins. Grænlendingar stæðu við tilboð sitt, svo fremi sem það væri tryggt að það skaðaði ekki umhverfið og fyllsta öryggis væri gætt.