Hér fara á eftir athugasemdir mínar, sem fyrrverandi rannsóknarlögrelgumanns og yfirlögregluþjóns, við kvikmynd Sigursteins Mássonar, Aðför að lögum, um rannsókn á svokölluðum Guðmundar og Geirfinnsmálum sem sýnd var í ríkissjónvarpinu seint í aprílmánuði sl.
Athugasemd við kvikmynd um Guðmundar- og Geirfinnsmál

Ég vona að höfundi kvikmyndarinnar sé það jafn mikið kappsmál og mér, segir Gísli Guðmundsson, að hafa það sem sannra reynist.

Hér fara á eftir athugasemdir mínar, sem fyrrverandi rannsóknarlögrelgumanns og yfirlögregluþjóns, við kvikmynd Sigursteins Mássonar, Aðför að lögum, um rannsókn á svokölluðum Guðmundar og Geirfinnsmálum sem sýnd var í ríkissjónvarpinu seint í aprílmánuði sl.

Vegna ónákvæmra upplýsinga sem koma fram í myndinni að því er varðar sakbendingu sem ég stjórnaði seint á árinu 1977 og vegna þess að mér var ekki gefinn kostur á því að sjá myndina eftir að gengið var frá henni til sýningar, tel ég nauðsynlegt að taka fram eftirfarandi.

Þeir þrír dómarar sem höfðu með málið að gera í sakadómi Reykjavíkur, óskuðu eftir því að ég sæi um sakbendingu þá sem fjallað er um í myndinni. Dómararnir mæltu að sjálfsögðu fyrir um hvernig skyldi staðið að sakbendingunni. Ég fékk til liðs við mig þáverandi yfirmann tæknideildar rannsóknarlögreglu ríkisins, Ragnar Vigni, aðstoðaryfirlögregluþjón, ásamt nokkrum öðrum samstarfsmönnum mínum hjá RLR.

Ég vil láta það koma skýrt fram að þessi sakbending var unnin á sama hátt og aðrar sakbendingar sem ég hafði staðið að á 20 ára ferli mínum við rannsóknarlögreglustörf. Þeir félagar mínir sem aðstoðuðu við þetta verkefni unnu starf sitt af vandvirkni og hlutleysi eins og starfsreglur rannsóknarlögreglu kveða á um.

Ég verð að játa að ég mundi ekki nægilega vel eftir þessum atburði þegar Sigursteinn ræddi við mig, enda liðin hátt í 20 ár síðan sakbendingin fór fram. Myndin gefur óbeint til kynna að ég hafi viðurkennt einhverskonar mistök við þetta verkefni en ekki eru gefnar nánari skýringar á því, í hverju þau mistök hafi verið fólgin.

Þegar farið er að skoða verkefni sem þessi eftir á þá er oftast auðvelt að sjá hvar hefði mátt gera betur. Svar mitt við spurningu Sigursteins þar sem ég segi, "Auðvitað hefði þurft að standa betur að hlutunum", var vissulega svolítið fljótfærnislegt þegar engar frekari skýringar koma fram. Þar á ég einfaldlega við það að þegar grannt sé skoðað eftir á megi auðveldlega sjá að hægt hefði verið að standa betur að hlutunum.

Þegar viðtal okkar Sigursteins fór fram þá hafði ég ekki heyrt hvað vitnin, Sigríður Magnúsdóttir og Elínborg Rafnsdóttir, höfðu um sakbendinguna að segja. En þegar myndin var sýnd kemur fram að þær kvarta undan því að hafa ekki verið látnar vita um það að Kristján Viðar hefði verið 10 sm hærri en Guðmundur Einarsson.

Ekki ætla ég að gera lítið úr því sem vitnin segja um þetta nú, en ég geri mér ekki alveg ljóst hvort þetta atriði gæti hafa haft úrslitaáhrif á niðurstöðu sakbendingarinnar. Ég held nú samt að svo sé ekki. Ég vil ekki vera með neinar yfirlýsingar um hvort betur hefði mátt standa að verki við þessa sakbendingu en mér dettur helst í hug, eins og þá stóð á, að hægt hefði verið að stilla upp ólíkari mönnum með þeim sem hafði viðurkennt að hafa verið með hinum horfna, Guðmundi Einarssyni aðfaranótt 27. janúar 1974. Ég verð líka að viðurkenna að það er ekki æskilegt að sækja menn í lögregluskólann til að stilla upp í sakbendingu, því hætta er á því að þeir þekkist, vegna þess að þeir hafa oft verið í lögreglustarfi áður en þeir fara í skólann. Fleiri atriði gæti ég nefnt en ætla ekki að gera að svo stöddu. Það er svo með þetta eins og svo margt annað að það er fjarska auðvelt að vera vitur eftir á.

Þá vil ég einnig taka fram að þó mér væri kunnugt um skiptar skoðanir, meðal lögfræðinga og lögreglumanna, um gildi þessarar sakbendingar vegna þess að birtar höfðu verið myndir í fjölmiðlum af sakborningum, þá bauð starfsskyldan mér að vinna það verk af hlutleysi og trúmennsku samkvæmt stafsreglum rannsóknarlögreglumanna. Það tel ég mig hafa gert.

Áður hafði mér verið trúað fyrir fjölmörgum sérverkefnum fyrir dómstólinn í sambandi við hvarf Guðmundar Einarssonar og reyndi ég að leysa þau af þeirri nákvæmni og hlutleysi sem mér var unnt, en þess ber að gæta að þá var liðið vel á fjórða ár frá hvarfi hans. Ég varð ekki var við annað en störf mín væru metin að verðleikum og er hið sama að segja um síðasta verkefnið sem var margnefnd sakbending. Dómstóllinn fékk málsgögnin í hendur þegar verkefninu var lokið og varð ég ekki var við aðfinnslu þeirra á þeirri framkvæmd.

Þá vil ég taka það fram að þeir þrír dómarar sem fengu málið til meðferðar fylgdust að sjálfsögðu vel með öllum þeim atriðum sem unnin voru eftir þeirra beiðni og þar með var það þeirra verkefni m.a. að taka ákvörðun um sakbendingu þá sem hér um ræðir. Ekki væri sanngjarnt að liggja þeim á hálsi fyrir að gera tilraun til að renna styrkari stoðum undir sannanir í málinu. Það er líka vel hægt að hugsa sér eftirá að heyrst hefðu gagnrýnisraddir ef þeir hefðu ekki látið þessa sakbendingu fara fram.

Að lokum vil ég taka fram að erfitt getur verið að leiðrétta mistök sem verða við gerð kvikmyndar eins og hér um ræðir. Ég mun samt reyna að fá leiðréttingu á því sem að mér snýr og mér finnst gefa ranga mynd af því sem ég hef nefnt hér að framan. Ég vona að höfundi myndarinnar sé það jafn mikið kappsmál og mér að hafa það sem sannara reynist.

Gísli Guðmundsson

Höfundur er fyrrv. yfirlögregluþjónn