Höfundar verks: Leikhópurinn sem styðst einnig við texta eftir Fernando Arrabal og ljóð eftir Heimi Pálsson. Höfundur handrits og leikstjóri: Harpa Arnardóttir. Leikmynd: Ósk Vilhjálmsdóttir. Búningar: Sonný Þorbjörnsdóttir. Hárgreiðsla og förðun: Sigríður Rósa Bjarnadóttir. Ljós: Jóhann Pálmason. Tónlist: Einar Kristján Einarsson, Daníel Þorsteinsson og Kjartan Guðnason.

Áhugavert ójafnvægi

LEIKLIST

Leikhópurinn Augnablik á stóra sviði Borgarleikhússins

TRISTAN OG ÍSÓL

Höfundar verks: Leikhópurinn sem styðst einnig við texta eftir Fernando Arrabal og ljóð eftir Heimi Pálsson. Höfundur handrits og leikstjóri: Harpa Arnardóttir. Leikmynd: Ósk Vilhjálmsdóttir. Búningar: Sonný Þorbjörnsdóttir. Hárgreiðsla og förðun: Sigríður Rósa Bjarnadóttir. Ljós: Jóhann Pálmason. Tónlist: Einar Kristján Einarsson, Daníel Þorsteinsson og Kjartan Guðnason. Hljóð: Jakob Tryggvason og Ólafur Jónsson. Leikarar: Anna Elísabet Borg, Björn Ingi Hilmarsson, Erling Jóhannesson, Ólafur Guðmundsson, Ólöf Ingólfsdóttir, Sigrún Gylfadóttir og Steinunn Ólafsdóttir. Sunnudagur 29. júní.

LEIKHÓPURINN Augnablik hefur spunnið verk um hinn eilífa ástarþríhyrning, Ísól hina björtu og vinina Mark og Tristan. Margir hafa lagt hönd á plóginn til að skapa nýstárlegt verk þar sem kennir ýmissa grasa. Þarna má annars vegar finna hugmyndaauðgi í uppsetningu og útliti sýningarinnar og leikgleði í fyrirrúmi enda helsti kostur verksins hve allur sá þáttur er áhugaverður. Hins vegar vantar auðsjáanlega sterkari leik- og ritstjórn til að verkið verði að samhæfðu listaverki.

Eftir að áhorfendur eru látnir bíða í hliðarrými er efnt til kapphlaups um sæti á stóra sviðinu. Var skemmtilegt að sjá hve margir í menningargeiranum eru fráir á fæti. Í sviðsrýminu standa persónurnar Mark og Ísól mjallhönd, hinir kokkáluðu makar Tristans og Ísólar hinnar björtu. Kynning verksins er ísmeygilega vel útfærð og þessi nálgun goðsagnarinnar færir persónurnar nær áhorfandanum í tíma og rúmi. Ókosturinn er hins vegar sá að kersknismál þessi og meðfylgjandi nútímaleg orðnotkun dregur úr áhrifamætti verksins og er dragbítur á allri sýningunni. Orðfærið í hátíðlegu köflunum sem eru megininntakið er upphafið og ljóðrænt, en nær ekki að vera nógu skáldlegt og áhrifamikið. Textinn hefur þannig ekki sannfærandi heildarstíl.

Besti kafli verksins eru þættirnir um löngunina og ástina. Þar eru leiktjöldin og lýsingin notuð af hugkvæmni og dirfsku auk þess sem hreyfingar leikaranna eru þaulunnar. Eftir því sem líður á verkið verður vægi hins sjónræna sífellt minna uns endað er á vandræðalegum lokaþætti um dauðann þar sem leikurinn, textinn og leikmunir minna á vandræðalega skólasýningu. Þetta er nokkuð sem einkennir sýninguna alla; það skiptast á vel útfærðar hugmyndir og klénar klisjur.

Þetta ójafnvægi er nokkuð sem er einnig ríkjandi í leiknum. Steinunn Ólafsdóttir er aðsópsmikil sem Ísól mjallhönd og Birni Inga Hilmarssyni tekst að skapa sannfærandi nútímaútgáfu af Mark konungi. Erling Jóhannesson sýnir áberandi sterkari takta í kómík en dramatík sem Tristan og Ásta Arnardóttir, sem annars gerir marga góða hluti sem Ísól, tekur í heildina of djúpt í árinni. Anna Elísabet Borg sýnir vandaðan og hófstilltan leik en aðrir leikarar ná ekki að leika af sannfæringarkrafti. Mörg góð tilsvör eru andvana fædd þar sem tóninum, framburðinum eða látbragði er áfátt.

Allur umbúnaður sýningarinnar er hins vegar einstaklega vel heppnaður, jafnt tónlist, hljóð, ljós, sviðsmynd, búningar sem förðun. Þessi atriði ásamt góðri grunnhugmynd sköpuðu í heildina áhugaverða en undarlega ójafna sýningu.

Sveinn Haraldsson.Í heildina áhugaverð sýning, en undarlega ójöfn segir m.a. í umsögninni.

Morgunblaðið/Jón Svavarson