KÍNVERJAR tóku við völdum í Hong Kong á miðnætti í nótt, kl. 16 að íslenskum tíma, og lauk þar með 156 ára yfirráðum Breta í borginni. Karl Bretaprins sagði Hong Kong-búum að Bretar myndu aldrei gleyma þeim, áður en hann lét völdin í borginni í hendur Jiang Zemin, forseta Kína, sem bauð borgarbúa "velkomna í faðm föðurlandsins".
Kínverjar taka við völdum í Hong Kong eftir 156 ára nýlendustjórn Breta

Íbúar Hong Kong boðnir vel-

komnir í "faðm föðurlandsins"

Hong Kong. Reuter.

KÍNVERJAR tóku við völdum í Hong Kong á miðnætti í nótt, kl. 16 að íslenskum tíma, og lauk þar með 156 ára yfirráðum Breta í borginni. Karl Bretaprins sagði Hong Kong-búum að Bretar myndu aldrei gleyma þeim, áður en hann lét völdin í borginni í hendur Jiang Zemin, forseta Kína, sem bauð borgarbúa "velkomna í faðm föðurlandsins". Tung Chee- hwa sór að því búnu embættiseið sem héraðsstjóri Hong Kong en síðasti landsstjóri Breta þar, Chris Patten, hélt þegar í stað heim á leið ásamt Karli prins í Britanniu, skipi Bretadrottningar. Var Patten voteygur er hann lét af embætti og himnarnir létu ekki sitt eftir liggja því ausandi rigning var í Hong Kong við valdaskiptin. Er sex klukkustundir voru liðnar af valdatíma Kínverja í Hong Kong hélt öflugt herlið þeirra inn í borgina.

Á miðnætti 1. júlí var fáni breska heimsveldisins dreginn niður og fáni kínverska alþýðulýðveldisins og hinn nýi fáni Hong Kong dregnir að húni. Í ræðu sem Karl prins flutti fyrir hönd Bretadrottningar sagði hann Breta ekki myndu gleyma íbúum Hong Kong. "Kínverjar taka í kvöld yfir ábyrgðina á stað og fólki sem er okkur mikils virði. Við munum ekki gleyma ykkur og við munum fylgjast grannt með þegar þið haldið inn í nýtt tímabil í hinni merku sögu ykkar," sagði Karl.

Jiang Zemin, forseti Kína, sagði valdaskiptin vera sigur fyrir kínversku þjóðina og lofaði íbúum Hong Kong að þeir myndu halda frelsi sínu. "1. júlí verður minnst í sögunni sem dags er verðskuldar eilífa minningu," sagði forsetinn.

Hunsuðu hátíðahöld Kínverja

Er Bretar höfðu látið Hong Kong af hendi héldu Karl prins, Tony Blair forsætisráðherra og Patten til skips og sigldu heim á leið. Þeir hunsuðu innsetningarathöfn Tungs og löggjafarsamkundu Hong Kong í mótmælaskyni við skipun hennar. Madeleine Albright, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, var í mótmælaskyni heldur ekki viðstödd hátíðahöld Kínverja.

Hátíðargestir voru um 10.000 auk þess sem talið er að um 100 milljónir manna hafi fylgst með beinni sjónvarpsútsendingu frá Hong Kong, en íburðarmikil tónlistar- og dansatriði tóku við af ræðuhöldunum. Þá var mikið um að vera víða í Kína en hápunktur hátíðahaldanna utan Hong Kong var á Tiananmen-torgi í Peking, þar sem um 100.000 manns fögnuðu endurheimt borgarinnar.

Þegar upp úr miðnætti héldu um 500 léttvopnaðir kínverskir hermenn inn í borgina og að búðum breska hersins, þar sem þeir drógu kínverska fánann að húni. Um 4.000 hermenn biðu hins vegar við landamærin og héldu inn í borgina sex stundum eftir að valdaskiptin höfðu farið fram. Hafði hermönnunum verið uppálagt að sýna íbúum Hong Kong kærleik, áður en þeir héldu inn í hana.

Nýskipað þing Hong Kong kom þegar saman og samþykkti formlega lög, sem sett voru fyrir valdaskiptin en þau takmarka rétt íbúa til mótmæla og setja skorður við stofnun og starfsemi stjórnmálaflokka. Fella þau jafnframt úr gildi lýðræðisumbætur þær sem Patten stóð fyrir og gerðu Kínverjum svo gramt í geði. Hins vegar hefur Tung héraðsstjóri heitið því að kosningar til þingsins verði haldnar í maí nk.

Lýðræðissinnar stóðu við hótanir sínar um að efna til mótmæla. Fordæmdi Martin Lee, einn forystumanna þeirra, hið nýskipaða þing af svölum þinghússins og hét harðri baráttu fyrir lýðræði í Hong Kong.

Blair þáði heimboð Jiangs

Blair átti stuttan fund með Jiang Zemin, forseta Kína, áður en valdaskiptin fóru fram. Var ekki annað að sjá en að vel færi á með þeim og bauð Jiang Blair í heimsókn til Kína, sem forsætisráðherrann þáði. Báðir lögðu áherslu á nauðsyn þess að fyrra ósætti þjóðanna væri nú að baki. Óskaði Blair þess að Hong Kong yrði "brú en ekki hindrun á milli Bretlands og Kína".Sjá umfjöllun á miðopnu.

Reuter HERMENN kínverska alþýðuhersins draga fána lands síns að húni í Hong Kong á miðnætti í gær. Þá fóru fram valdaskipti í borginni er Kínverjar tóku við yfirráðum úr hendi Breta.

Reuter CHRIS Patten, síðasti landsstjóri í Hong Kong, var niðurdreginn við kveðjuathöfn Breta í borginni í gær. Við hlið hans eru Cherie Blair, forsætisráðherrafrú Breta, og Karl Bretaprins.

Reuter TUNG Chee-hwa tók á miðnætti við embætti héraðsstjóra í Hong Kong. Hann var brosleitur er æðstu embættismenn borgarinnar sóru embættiseiða.