"ÞETTA var óþægileg tilfinning, því vélin virtist vera komin á eða við það að ná flugtakshraða þegar henni var skyndilega nauðhemlað og vélin var komin alveg að enda vallarins þegar hún stöðvaðist," sagði Sigurður Svavarsson sem var farþegi í þotu Flugleiða er hætta varð við flugtak á Kaupmannahafnarflugvelli í gærmorgun.
Hætti við flugtak í Kaupmannahöfn

Vélinni skyndi-

lega nauðhemlað

Keflavík. Morgunblaðið.

"ÞETTA var óþægileg tilfinning, því vélin virtist vera komin á eða við það að ná flugtakshraða þegar henni var skyndilega nauðhemlað og vélin var komin alveg að enda vallarins þegar hún stöðvaðist," sagði Sigurður Svavarsson sem var farþegi í þotu Flugleiða er hætta varð við flugtak á Kaupmannahafnarflugvelli í gærmorgun.

Um var að ræða Boeing 737 þotu og varð hún að hætta við flugtak þegar hún var í flugtaksbruni er aðvörunarljós kviknaði og gaf til kynna að einar dyr vélarinnar væru opnar. Hætti flugstjórinn samstundis við flugtak. Flugvélin var á leið frá Hamborg til Íslands með viðkomu í Kaupmannahöfn. Um borð voru 153 farþegar, tveir flugmenn og fimm flugfreyjur.

Skipt um þrjá af sex hjólbörðum

Jens Bjarnason, flugrekstrarstjóri Flugleiða, sagði að vegna álags á hemlunarbúnað vélarinnar hefði orðið að skipta um nokkra hluti og skipt var um þrjá af sex hjólbörðum hennar. Vélinni var ekið út af brautinni og hún síðan færð til viðgerðar í flugskýli hjá Maersk. Flugvirkjar frá Flugleiðum héldu utan síðdegis í gær með varahluti og var búist við að þotan kæmist aftur í áætlunarflugið í dag.

Nokkur seinkun varð á síðdegisferðunum til Kaupmannahafnar og Frankfurt af þessum sökum en áætlunin átti að vera komin í eðlilegt horf strax í morgun.

Sigurður Svavarsson sagðist vera búsettur í Kaupmannahöfn og væri hingað kominn í hálfsmánaðar frí. Sagði hann að eftir að vélin hefði verið stöðvuð hefði farþegunum verið tilkynnt að viðvörunarljós hefði kviknað í mælaborði og flugtak yrði reynt aftur. Til þess hefði þó ekki komið því stuttu síðar hefði farþegunum verið tilkynnt að sprungið hefði á hjólbarða og hætt væri við brottför þar til viðgerð hefði farið fram. "Okkur var síðan ekið í hópferðabílum til flugstöðvarinnar þar sem við biðum eftir annarri vél og við sáum að vélin var enn á sama stað þegar við fórum í loftið," sagði Sigurður Svavarsson ennfremur. Morgunblaðið/Björn Blöndal SIGURÐUR Svavarsson ásamt dóttur sinni Snædísi Björk, 4 ára, sem var komin til Keflavíkurflugvallar til að taka á móti pabba sínum.