Á HEIMASÍÐU Veðurstofu Íslands 29. maí birtist valdálkur undir heitinu "Nýjustu veðurathuganir frá sjálfvirkum stöðvum". Þær voru 42 en reyndar voru tvær óvirkar. Stöðvarnar gáfu upp veðurathuganir á hverri heilli klukkustund allan sólarhringinn; vindhraða í metrum á sekúndu, vindstefnu í áttavitagráðum, lofthita í einum tíunda úr gráðu og sumar stöðvarnar birtu daggarmark og loftþrýsting.
Sjálfvirku veðurstöðvarnar aftur á alnetið Lögum samkvæmt á Veðurstofan að miðla veðurupplýsingum til þjóðarinnar, segir Sigurður Þór Guðjónsson , sem hefur borgað þá þjónustu með sköttum sínum. Á HEIMASÍÐU Veðurstofu Íslands 29. maí birtist valdálkur undir heitinu "Nýjustu veðurathuganir frá sjálfvirkum stöðvum". Þær voru 42 en reyndar voru tvær óvirkar. Stöðvarnar gáfu upp veðurathuganir á hverri heilli klukkustund allan sólarhringinn; vindhraða í metrum á sekúndu, vindstefnu í áttavitagráðum, lofthita í einum tíunda úr gráðu og sumar stöðvarnar birtu daggarmark og loftþrýsting. Allt var þetta auðskilið og ekkert mas. En viti menn! Hinn 4. júní voru þessar upplýsingar horfnar skýringarlaust, sem er hófleg kurteisi, því mjög margir heimsækja netsíðu Veðurstofunnar daglega. Hvaða dularfullu atburðir ollu því að upplýsingarnar voru dregnar til baka? Varla voru það mistök. Slíkt gerist ekki fyrir slysni. Það þýðir heldur ekkert að segja að upplýsingarnar hafi verið birtar til reynslu því það er ekkert sem þarf að reyna. Það eina sem til þarf er að opna, galopna. Allt hitt gerist bara af sjálfu sér. En var það kannski eins konar innanhússvaldabarátta sem oft er á stofnunum og bitnar svo mest á almenningi? Gildi þessara upplýsinga fólst ekki síst í því að hægt var að sjá á einni og sömu síðunni þróun veðursins síðasta sólarhringinn. Þannig var hæsti og lægsti hiti sem lesa mátti til dæmis ekki langt frá því að vera raunverulegur hámarks- og lágmarkshiti sólarhringsins á stöðvunum en slíkar upplýsingar eru sannarlega sjaldséðar frá Veðurstofunni.

Lögum samkvæmt á Veðurstofan að miðla veðurupplýsingum til þjóðarinnar sem hefur borgað þá þjónustu með sköttunum sínum. En af hverju er ekki enn búið að semja reglur um birtingu upplýsinga sem stofnunin miðlar eins og 11. gr. reglugerðar um starfsemi hennar kveður þó á um að skuli gera? Fyrir vikið hefur almenningur ekkert við að styðjast til að veita stofnuninni aðhald svo hún standi við skyldur sínar á okkar miklu upplýsingaöld. Hún getur því gert það sem henni sýnist án þess að gagnrýni verði fyllilega við komið. En það nær blátt áfram engri átt að halda upplýsingum frá sjálfvirku stöðvunum frá almenningi. Þær eru til dæmis á Dalvík, Grindavík, Patreksfirði, Seyðisfirði, Siglufirði, Súðavík og Þorlákshöfn. Á þessum stöðum búa nokkrar þúsundir manna og þaðan koma ekki veðurskeyti sem lesin eru í útvarp og veðursímann eða sjást í sjónvarpi. Hvers eiga íbúarnir að gjalda úr því þessar athuganir eru til á annað borð og einfaldasta mál í heimi að gera þær aðgengilegar? Einnig eru sjálfvirkar stöðvar við Mývatn, á Þingvöllum, Skaftafelli og Hallormsstað. Þaðan berast heldur engar opinberar veðurlýsingar, nema stundum frá Skaftafelli, en tugir þúsunda ferðamanna koma á þessa staði á sumri hverju og jafnvel einnig á öðrum árstímum. Er að furða þó ég spyrji: Hvað er eiginlega að þessum mönnum á Veðurstofunni? Hvers vegna eru þessar upplýsingar faldar fyrir fólki eins og þær séu hernaðarleyndarmál? Verst væri þó ef þær kæmu aftur síðar á heimasíðu Veðurstofunnar alla vega útþynntar og einungis á einhverjum föstum tímum, til dæmis þriðju hverja klukkustund og þá jafnvel aðeins frá völdum stöðvum. Það væri argasta forsjárhyggja og myndi rýra gildi upplýsinganna að miklum mun.

Veðurstofan ætti ekki aðeins að birta athuganir sjálfvirku stöðvanna á alnetinu alveg hráar eins og þær "koma af skepnunni", af því að einmitt þannig eru þær notadrýgstar, heldur ætti hún einnig að birta reglulega veðurathuganir allra venjulegra skeytastöðva í aðgengilegu formi. Enn sem komið er nýtir Veðurstofan netið ekki sérlega vel þó heimasíða hennar sé reyndar sú besta á Norðurlöndum. En það segir reyndar fremur lítið. Á netinu er hægt að fá frá Evrópu og Ameríku ýmsar upplýsingar frá íslenskum veðurathugunarstöðvum sem ekki eru fáanlegar hér innanlands nema hringja upp á Veðurstofu! Frá háskólanum í Karlsruhe er hægt að sjá veðurathuganir merktar inn á kort á sex klukkustunda fresti frá Reykjavík, Keflavíkurflugvelli, Bolungarvík, Akureyri, Raufarhöfn, Dalatanga, Akurnesi og Stórhöfða. Frá háskólanum í Köln koma svipaðar upplýsingar en einnig hámarkshiti, skráður kl. 18 dag hvern. Austuríska veðurstofan birtir á þriggja tíma fresti, um það bil fimmtán mínútum eftir athugunartíma, nákvæmari athuganir frá Reykjavík heldur en Veðurstofan gefur nokkurs staðar upp. Bandaríska veðurstofan sýnir hámarks- og lágmarkshita sólarhringsins á 19 íslenskum veðurathugunarstöðvum. Auk þess mánaðaryfirlit nokkrum dögum eftir hver mánaðamót. Er ekki helvíti hart að við þurfum að sækja þessar upplýsingar til útlanda? Reyndar gæti Veðurstofan almennt lært margt af amerísku veðurstofunni um dreifingu veðurupplýsinga á netinu. Á síðum hennar, sem ég held að enginn viti hvað eru eiginlega margar, er til dæmis hægt að sjá veðurkort af Bandaríkjunum á klukkustundar fresti marga daga aftur í tímann. Og allar eru þessar veðurfregnir ókeypis í henni Ameríku eins og vera ber. Maður á ekki að þurfa að vera ríkur til að fá veðurfréttir. Allra síst hér á landi þar sem alltaf er vitlaust veður. Hver vill borga fyrir rok og rigningu?

Alnetið er besti hugsanlegi miðill fyrir veðurfréttir. Þar er hægt að birta nokkurra mínútna gamlar upplýsingar, sem blíva á sínum stað þangað til aðrar nýjar taka við, en hverfa ekki strax út í tómið eins og útvarps- og sjónvarpsefni. Fólk getur flett upp á þeim þegar það vill. Veðurstofustjóri hefur sagt opinberlega að langar veðurfregnaþulur í útvarpi séu eki við hæfi nútímans. Ef Veðurstofan vill ná til unga fólksins og þar með þjóðarinnar allrar er tímar líða ætti hún einmitt að stórauka upplýsingamiðlun á alnetinu, því það er miðill sem unga fólkið kann virkilega að meta. Fyrsta skrefið er auðvitað það að koma undireins aftur með sjálfvirku veðurstöðvarnar á sólarhringsgrundvelli. Það er einfalt og hægt að gera það strax. Næsta skref væri að útbúa hagkvæmt form fyrir birtingu veðurlýsinga frá venjulegum skeytastöðvum Veðurstofunnar. Og svo alltaf meira og meira og ennþá meira. Þá mun koma betri tíð með blóm í haga.

Höfundur er rithöfundur. Sigurður Þór

Guðjónsson