HORFUR á mörkuðum fyrir loðnuafurðir hafa sjaldan eða aldrei verið betri að sögn Sólveigar Samúelsdóttur, markaðsstjóra SR-mjöls. Hefur verð á lýsi hækkað um 100 dollara og fást nú um 38.500 krónur fyrir tonnið. Verð á mjöli er svipað og í fyrra, um 47.400 krónur fyrir tonnið, en Sólveig segir að á móti komi mikil gengishækkun á pundinu.
Loðnuvertíðin hafin Horfur á mörkuðum sjaldan betri

HORFUR á mörkuðum fyrir loðnuafurðir hafa sjaldan eða aldrei verið betri að sögn Sólveigar Samúelsdóttur, markaðsstjóra SR-mjöls. Hefur verð á lýsi hækkað um 100 dollara og fást nú um 38.500 krónur fyrir tonnið. Verð á mjöli er svipað og í fyrra, um 47.400 krónur fyrir tonnið, en Sólveig segir að á móti komi mikil gengishækkun á pundinu.

Loðnuvertíðin hófst á miðnætti og voru 34 íslensk loðnuskip komin á miðin í gærkvöldi. Flest þeirra leituðu að loðnunni á stóru svæði langt norðvestur af Kolbeinsey. Lítið hafði sést af loðnu þegar síðast fréttist. Segja skipstjórnarmenn sjó vera mjög kaldan á því svæði þar sem veiði hófst í fyrra.

Um 25 norsk loðnuskip voru í gær saman komin á athugunarpunkti A, sem er um 180 sjómílur norður af landinu, og biðu þess að taka þátt í loðnuleitinni. Fiskistofa gaf í gærmorgun út veiðileyfi fyrir 30 norsk loðnuskip í íslensku landhelginni.

Lítið fundist/20