Í ÞRIÐJA bindi Íslensku bókmenntasögunnar sem kom út um síðustu jól fjallar Viðar Hreinsson um vestur-íslenskar bókmenntir og segir að um aldamótin hafi verið hægt að nafngreina vel á annað hundrað skáld og hagyrðinga sem birt höfðu skáldskap í bókum og blöðum í Vesturheimi.

Framandi sjónarhorn

Nýjustu hefti tímaritanna Jóns á Bægisá og Andblæs eru fjölbreytt og skemmtileg að efni. Þröstur Helgason gluggaði í þau og segir frá því helsta sem bar fyrir augu.

Í ÞRIÐJA bindi Íslensku bókmenntasögunnar sem kom út um síðustu jól fjallar Viðar Hreinsson um vestur-íslenskar bókmenntir og segir að um aldamótin hafi verið hægt að nafngreina vel á annað hundrað skáld og hagyrðinga sem birt höfðu skáldskap í bókum og blöðum í Vesturheimi. Þetta er auðvitað með ólíkindum, ekki síst þegar litið er til þess að það hafa kannski verið um tíu þúsund Íslendingar í Vesturheimi á þessum tíma en alls fluttu þangað á milli sautján og átján þúsund manns frá Íslandi.

Og enn láta íslenskættuð skáld að sér kveða í Vesturheimi. Í nýjasta hefti tímarits þýðenda, Jóni á Bægisá , eru birtar þýðingar á vestur-íslenskum skáldskap og greinar sem meðal annars fjalla um vandann að þýða þessar bókmenntir. Það er annars merkilegt að þar til nýlega hafa Íslendingar sýnt lítinn áhuga á þessum bókmenntum. Guðrún Björk Guðsteinsdóttir segir í grein í Jóni á Bægisá að það hafi ríkt eins konar "menningarlegt kaldastríðsástand" hér á landi "gagnvart bókum skrifuðum á ensku og frá framandi sjónarhorni um íslenskan menningararf, allt þar til Ormstunga gaf út Játningar landnemadóttur [eftir Lauru Goodman Salverson] í þýðingu Margrétar Björgvinsdóttur árið 1994." Guðrún segir að það megi líta svo á þetta tölublað Jóns á Bægisá marki endanlegt fall þagnarmúrsins sem umlokið hafi vesturheimskar bókmenntir hér.

Fátt sem bendir til íslenskra ætta

Í heftinu er birtur skáldskapur eftir sjö kanadíska rithöfunda af íslenskum ættum, þann elsta fæddan 1927 og þann yngsta fæddan 1948. Í inngangi segir að ekki sé rétt að segja að þessir höfundar séu vestur-íslenskir í hefðbundnum skilningi þess orðs, heldur séu þeir kanadískir enda skrifi þeir um kanadískt umhverfi og veruleika. Þetta má til sanns vegar færa. Það er fátt sem bendir til þess að höfundarnir séu af íslenskum ættum, nema ef vera skyldi eitt og eitt íslenskt nafn sem kemur fyrir í textunum.

Ljóðaflokkur Kristjönu Gunnars, Næturvinnuþjarkar ragnaraka, er þó ortur um, eða öllu heldur inn í, íslenskan veruleika; íslenskur fiskur, íslenskar fjörur, íslenskar hafnir. Þetta virðist friðsamlegt en Kristjana fjallar um efni sem ekki hefur verið ort um hér á landi í langan tíma; kjarnorkuvána, mengunina, tortímingu mannkynsins: "við döfnum og þróumst, að minnstakosti / hingaðtil, með því að brenna / olíu og kolum, knöppum forða og stubbóttum / sem ekki mun endast / ekkert endist / við erum líka endanleg". Viðfangsefnið er stórt og mikið og orðin í réttu hlutfalli við það, bæði lítil og vanmegnug.

Aðrir höfundar skáldskapar í heftinu eru William D. Valgardson, Martha Brools, David Arnason, Betty Jane Wylie, Paul A. Sigurdsson og Bill Holm. Auk Guðrúnar Bjarkar skrifa greinar í heftið Soffía Auður Birgisdóttir, Garðar Baldvinsson og Gunnar Gunnarsson. Kynningar eru á öllum höfundum í heftinu.

Oft meiri leikgleði

Sjötta hefti tímaritsins Andblæs er sneisafullt af frumsömdum íslenskum skáldskap en að þessu sinni eru einnig birt tvö þýdd ljóð eftir norska skáldið Knut Ødegård. Jafnframt eru þrjú myndverk í heftinu eftir Pál Heimi, Marilyn Herdís Mellk og Ágúst Bjarnason.

Andblær hefur einkum haft það hlutverk að birta skáldskap eftir yngri skáld og ýmiss konar tilraunir á skáldskaparsviðinu; framandi eða nýtt sjónarhorn má kannski segja að hafi verið upphaflegt markmið Andblæs . Hafði lengi vantað slíkt tímarit þegar Andblær kom fram á sjónarsviðið fyrir fáum árum.

Það hefur oft verið meiri leikgleði í tímaritinu en í þessu sjötta hefti þess. Minna er af tilraunastarfseminni sem einmitt var sá ferski andblær sem það bar íslenskum bókmenntum í upphafi. Hér eru þó fáein verk í þessum tilraunaanda eins og til dæmis eftir Ólöfu Pétursdóttur og Kjartan Árnason. Kannski setja bara skáld eins og Kristján Karlsson, Þóra Jónsdóttir, Matthías Johannessen og Knut Ødegård svona yfirgnæfandi og yfirvegaðan svip á þetta hefti að annað fellur í skuggann.

Aðrir höfundar efnis í heftinu eru Guðmundur H. Helgason, Valgerður Benediktsdóttir, Þórður Helgason, Hrannar Þór Bjartmarsson, Þorvarður Hjálmarsson, Hrafn A. Harðarson, Sólmundur Friðriksson, Gunnar Randversson, Kristjana Emilía Guðmundsdóttir, Karl Hallgrímsson, Alexander, Þyrí Halla Steingrímsdóttir, Helga Bára Tryggvadóttir, Þórhallur Þórhallsson, Anna Karin Júlíussen og Guðrún Lillý Guðbjörnsdóttir. Allir höfundarnir eru kynntir lítillega í heftinu.

HVAT? Tala thu islenzku? er spurt á forsíðu tímaritsins Jóns á Bægisá en þar eru birtar þýðingar á vesturheimskum bókmenntum og greinar um þær.