Á KÖLDUM klaka, kvikmynd Friðriks Þórs Friðrikssonar, var valin besta kvikmyndin á Evrópsku kvikmyndahátíðinni í La Baule í Frakklandi í gær og hlaut aðalverðlaunin. Þorfinnur Ómarsson, framkvæmdastjóri Kvikmyndasjóðs Íslands, segir að verðlaunin geti stuðlað að því að Frakkar fjármagni íslenskar kvikmyndir sem þeir hafa ekki gert í miklum mæli til þessa.

Á köldum klaka var

valin besta myndin

Á KÖLDUM klaka, kvikmynd Friðriks Þórs Friðrikssonar, var valin besta kvikmyndin á Evrópsku kvikmyndahátíðinni í La Baule í Frakklandi í gær og hlaut aðalverðlaunin. Þorfinnur Ómarsson, framkvæmdastjóri Kvikmyndasjóðs Íslands, segir að verðlaunin geti stuðlað að því að Frakkar fjármagni íslenskar kvikmyndir sem þeir hafa ekki gert í miklum mæli til þessa.

Evrópska kvikmyndahátíðin í La Baule var haldin í sjöunda sinn og lauk henni í gær. 20 kvikmyndir frá jafnmörgum Evrópulöndum voru sýndar í aðalkeppni hátíðarinnar. Framlag Íslands var kvikmyndin Á köldum klaka. Ísland var auk þess í aðalhlutverki á lokadegi hátíðarinnar sem var algjörlega helgaður íslenskum kvikmyndum. Við það tækifæri voru þrjár íslenskar kvikmyndir sýndar, þ.e. Á köldum klaka og Djöflaeyjan eftir Friðrik Þór, sem báðar hafa verið seldar til Frakklands, og Agnes eftir Egil Eðvarðsson.

Evrópuráðið og Evrópski kvikmyndasjóðurinn standa á bakvið Evrópsku kvikmyndahátíðina í La Baule. Þorfinnur segir að þetta sé helsta hátíðin sem beini sjónum sínum aðeins að evrópskum kvikmyndum.

"Hátíðin hefur vaxið mjög á síðustu árum. Það er verið að reyna að búa til evrópska Cannes-hátíð. Hér er ekki jafnmargt fólk og markaðurinn ekki viðlíka og í Cannes. En þetta er mjög skemmtilegur staður og ákjósanlegur til þess að hátíðin nái að dafna," sagði Þorfinnur.

Hann segir að franskir dreifingaraðilar og framleiðendur ásamt fulltrúum frönsku sjónvarpsstöðvanna hafi sótt hátíðina. "Tengingu við Frakkland hefur vantað heima á Íslandi. Íslenskar kvikmyndir hafa nánast aldrei verið gerðar í samvinnu við Frakka. Það veitti því ekkert af því að ná sambandi við Frakka," segir Þorfinnur.