MIKE Tyson baðst í gærkvöldi afsökunar á því að hafa bitið Evander Holyfield í bæði eyrun, þegar þeir áttust við í bardaga um heimsmeistaratitilinn í þungavigt hnefaleika á laugardag. "Ég bið afsökunar ­ heimsbyggðina, fjölskyldu mína og íþróttanefnd Nevadaríkis," sagði Tyson á blaðamannafundi sem hann hélt óvænt á MGM Grand Casino hótelinu, þar sem bardaginn fór fram á laugardagskvöldið.
HNEFALEIKAR

"Fyrirgefðu mér"

MIKE Tyson baðst í gærkvöldi afsökunar á því að hafa bitið Evander Holyfield í bæði eyrun, þegar þeir áttust við í bardaga um heimsmeistaratitilinn í þungavigt hnefaleika á laugardag. "Ég bið afsökunar ­ heimsbyggðina, fjölskyldu mína og íþróttanefnd Nevadaríkis," sagði Tyson á blaðamannafundi sem hann hélt óvænt á MGM Grand Casino hótelinu, þar sem bardaginn fór fram á laugardagskvöldið. Síðar sagði hann: "Evander, fyrirgefðu mér. Þú ert meistari og ég tek því."

Íþróttanefnd Nevadaríkis kemur saman í dag til að fjalla um mál Tysons, en hún ákveður refsingu hans vegna atviksins á laugardag. Hann sagðist í gær eiga von á harðri refsingu, hann myndi una úrskurði nefndarinnar en bað þess að verða ekki úrskurðaður í lífstíðarbann frá hnefaleikum.

"Laugardagskvöldið var versta kvöld á ferli mínum sem atvinnuhnefaleikara og ég er kominn hingað í dag til að biðjast afsökunar, til að biðja fólk, sem átti von á meiru frá Mike Tyson, að fyrirgefa mér fyrir að ganga af göflunum í hringnum og fyrir að gera það sem ég hef aldrei gert áður og mun aldrei gera framar," sagði meðal annars í afsökunarbeiðni Tysons, sem hann las af blaði. Eftir bardagann á laugardag sagðist Tyson hafa orðið að "hefna sín" vegna þess að Holyfield hefði skallað sig og dómarinn ekkert gert í málinu.

Tyson kemur fyrir íþróttanefnd Nevadaríkis í dag en hún ákvarðar honum refsingu. Hann átti að fá 2,1 milljarð fyrir bardagann, en fjárhæðin var fryst þar til úrskurður nefndarinnar lægi fyrir. Skv. lögum Nevada er ekki hægt að sekta hann um meira en sem nemur 10% af verðlaunafé, þ.e. 3 milljónir dollara. Ljóst er því að hann fær a.m.k. 27 millj. dollara, andvirði um 1,9 milljarða króna, fyrir bardagann.

Meistarinn fyrrverandi, sem varð 31 árs í gær, hefur verið harðlega gagnrýndur um víða veröld eftir bardagann á laugardag. Tyson beit stykki úr hægra eyra Holyfields og verður heimsmeistarinn að gangast undir lýtaaðgerð til að laga sárið. Í afsökunarbeiðni sinni í gær sagðist Tyson hafa reiðst vegna þess að þegar Holyfield skallaði hann hefði stór skurður opnast fyrir ofan hægra auga, og hann var ósáttur við að dómarinn skyldi úrskurða að um óviljaverk hefði verið að ræða.

"Ég get ekki úrskýrt hvers vegna ég brást við eins og raunin varð, nema með því að segja að þegar hann skallaði mig, og ég hugsaði sem svo að ég gæti tapað vegna þess hve skurðurinn var slæmur, gekk ég einfaldlega af göflunum."

Tyson er á fjögurra ára skilorði, en hann sat á bak við lás og slá í þrjú ár eftir að hafa verið dæmdur fyrir nauðgun, og bað hann dómarann í því máli einnig afsökunar á framferði sínu í gær. Þær raddir hafa heyrst að setja ætti Tyson í lífstíðarbann, en hann svaraði því til að hann væri "einungis 31 árs og á hátindi ferils míns, og ég hef náð svona langt vegna þess að ég átti ekki annarra kosta völ," sagði hann.

Andlegt ástand meistarans fyrrverandi hefur einnig verið til umræðu. Hann kom inn á þá hlið málsins: "Síðan á laugardag hef ég óskað eftir hjálp lækna til að fá skýringar á því hvers vegna ég brást svona við og mun fá þá hjálp," sagði Tyson án þess að fara nánar út í þá sálma.

» / B4

Reuter MIKE Tyson bítur Evander Holyfield í fyrra skiptið í bardaganum á laugardag; beit þá flipa úr hægra eyra meistarans.