Lið ÍR vann geysilega mikilvægan sigur á Breiðabliki í gær í toppbaráttu 1. deildar. Fyrir leikinn voru bæði lið með tíu stig í öðru og þriðja sæti deildarinnar og því um sannkallaðan "sex stiga leik" að ræða. ÍR-ingar skoruðu þrjú mörk gegn einu marki Breiðabliks en tölurnar segja þó ekki alla söguna, því Blikar áttu mun meira í leiknum.
Mikilvægur sigur ÍR

Lið ÍR vann geysilega mikilvæg an sigur á Breiðabliki í gær í toppbaráttu 1. deildar. Fyrir leikinn voru bæði lið með tíu stig í öðru og þriðja sæti deildarinnar og því um sannkallaðan "sex stiga leik" að ræða. ÍR-ingar skoruðu þrjú mörk gegn einu marki Breiðabliks en tölurnar segja þó ekki alla söguna, því Blikar áttu mun meira í leiknum.

Fyrri hálfleikur var að mestu á valdi Breiðabliks og lék liðið á köflum ágæta knattspyrnu. Sóknir þess voru þó heldur bitlausar og aldrei skapaðist veruleg hætta við mark ÍR. ÍR-ingar áttu fáar sóknir en uppskáru mark eftir sína fyrstu hornspyrnu þegar Guðjón Þorvarðarson skallaði knöttinn efst í vinstra hornið af markteig.

Síðari hálfleikur var heldur jafnari en Blikar höfðu þó undirtökin og sóttu mun meira. Sem fyrr gekk þeim þó illa að skapa sér góð marktækifæri. ÍR-ingar vörðust vel og drógu lið sitt mjög til baka, staðráðnir í að halda fengnum hlut. Gekk sú leikaðferð upp og þegar nær dró leikslokum færðist mikil örvænting í leik Breiðabliks.

Lokamínútur leiksins voru mjög fjörugar. Á 89. mínútu fengu Blikar aukaspyrnu en skot Kjartans Antonssonar hafnaði í varnarvegg ÍR. Kristján Brooks, leikmaður ÍR, tók á rás upp völlinn í átt að marki Breiðabliks og þegar hann var kominn inn í vítateig var hann felldur og dæmd var vítaspyrna. Úr spyrnunni skoraði Guðjón Þorvarðarson með föstu skoti í vinstra hornið. Aðeins mínútu síðar bætti Kristján Brooks við þriðja marki ÍR með skalla frá markteig. Blikar hófu leikinn að nýju og Þórhallur Hinriksson sendi stungusendingu á Ívar Sigurjónsson, sem skoraði fram hjá Ólafi Þór Gunnarssyni í marki ÍR, og úrslit leiksins urðu 1:3.

Þótt Breiðablik hafi sótt meira í leiknum náðu þeir sjaldan að ógna marki ÍR verulega. Liðið leikur ágætlega saman á miðjunni en sækir of hægt og leikmenn gera sig oft seka um að "hanga" of lengi á boltanum. Einna bestur hjá Breiðabliki í þessum leik var Hreiðar Bjarnason, mjög leikinn og útsjónarsamur leikmaður.

ÍR-ingar léku af skynsemi í gær og leikaðferð þeirra gekk upp. Þeir voru augljóslega komnir til að verjast og ná a.m.k. einu stigi. Vörn þeirra stóð sig vel og Ólafur Þór átti stórleik í markinu. Þá voru þeir Kristján Brooks og Guðjón Þorvarðarson hættulegir í sínum aðgerðum.

Borgar Þór

Einarsson

skrifar