DALASÝSLA ber nafn með réttu. Hún er töfraheimur fjalla og dala skrýdd bestu laxám landsins. Silungsárnar næstum óteljandi í heillandi margbreytileikanum sem víða er undra skarpur. Dalverpi uppundir brúnum fjalla, sem skarta óteljandi bergvatnsuppsprettum, þar sem byrja flestir lækirnir og seiðandi kliður þeirra með viðlagi fugla verður eins og forleikur að undrum náttúrunnar.
Dalasýsla og ferðamennska

17. júní 1997

Alberti Jensen:

DALASÝSLA ber nafn með réttu. Hún er töfraheimur fjalla og dala skrýdd bestu laxám landsins. Silungsárnar næstum óteljandi í heillandi margbreytileikanum sem víða er undra skarpur. Dalverpi uppundir brúnum fjalla, sem skarta óteljandi bergvatnsuppsprettum, þar sem byrja flestir lækirnir og seiðandi kliður þeirra með viðlagi fugla verður eins og forleikur að undrum náttúrunnar. Hljómkviða sú berst niður hlíðar og hjalla og endar með sköpun árinnar. Sum fjallanna hafa á sér hásléttur. Arfur ísaldar. Fjölskrúðugleiki Dalasýslu er svo magnaður og áhrifamikill að jafnvel akstursglöðustu ferðalangar, sem eiginlega vita ekki um hvað ferðin snýst, heillast. Fyrir utan að vera undrasmíð náttúrunnar, býr Dalasýsla yfir fjölda sýnilegra minja horfinna alda. Ekki skaðar að hafa lesið Laxdælu og nokkra kafla úr Sturlungasögu og Njálu. Hæst á Bröttubrekku taka dalirnir við af Borgarfjarðarsýslu. Þeir liggja að Hvammsfirði og Breiðafirði en enda í botni Gilsfjarðar. Þar yfir er nú verið að gera brú. Af henni verður mikið útsýni út á Breiðafjörð og inn Gilsfjörð. Hún færir Króksfjörð og nesið við hann næstum inn í dalinna. Sá fjörður og nágrenni er að margra mati fegursta svæði Barðastrandarsýslu. Reykhólar og Bjarkarlundur eru í þægilegri nálægð við brúna. Fljótlega eftir að komið er af Bröttubrekku opnast talsvert undirlendi að Hvammsfirði þar sem Búðardalur er við sjóinn.

Tíu km áður er farið yfir Haukadalsá sem rennur úr samnefndum dal, þar sem í er silungsvatn. Þar eru Eiríksstaðir, fæðingarstaður Leifs heppna, Jörfi og margt annað. Svo, rétt áður en beygt er út á Laxá sem er við þorpið, er áframhaldandi vegur inn í Laxárdalinn sem geymir m.a. Hjarðarholt og silungsvatn á heiði. Dalurinn endar nálægt miðju Hrútafjarðar, þar sem Borðeyri er stutt frá. Rétt áður en komið er að Haukadalsá, er vegur sem liggur vestur með Hvammsfirði. Á þeirri leið eru sýslumörk Dala- og Snæfellsnessýslu. Um Búðardal liggur þjóðleiðin áfram með fjörðinn á aðra hönd en lág holtin og svo Ljárskóga á hina. Þá í gegnum Hvammssveitina þar sem meðal annars Ásgarður er á hægri hönd en Ásgarðsstapi, Sælingsdalslaug og Tungustapi á vinstri. Nálægt Ásgarði er hægt að fara á veg sem liggur hring um strandir. Það eru 100 km. Á þeirri leið er Staðarfell, Skarð á Skarðströnd og útsýni til eyja og skerja Hvamms- og Breiðafjarðar.

Þjóðleið er svo gegnum Svínadal. Sá dalur er sérstæður um margt og sómir sér vel í öllum árstíðum. Hann er opinn í báða enda. (Minnir á sitthvað.) Á hálfs km kafla í honum miðjum er engin á. Öðrum megin er upphaf ár til Hvammsfjarðar en hins vegar til Gilsfjarðar. Eini dalurinn sem veitir ám sínum í gagnstæða firði. Eða hvað?

Í þessum dal er alltaf eitthvað nýtt að sjá. Gegnt Njálsgili, nokkru sunnar, í miðjum fjallahlíðum, eru nokkur lítil vötn innan um hæðir og tinda sem svæðið ber nafn af. Dimmuborgir Dalanna. Svínadalur er fallegur í hvaða veðri sem er. Eins má segja um Hvolsdalinn sem tekur við af honum og Saurbæingarnir hreiðra um sig í. Hann er annálaður fyrir fegurð. Eins og gerður fyrir ferðamenn, sem íbúa. Glæsilegur þar sem hann breiðir úr sér að Breiðafirði og Gilsfirði. Leiðir liggja til allra átta frá þessari stórfenglegu náttúrusmíð. Meðal annars í alla dalina sem þaðan liggja. Saurbæjarhreppur getur sannarlega verið stoltur af að tilheyra slíku svæði. En hann nær frá miðjum Svínadal og frá Innri- Fagradal á Skarðsströnd, í Gilsfjarðarbotn. Þar úr botninum er vegur yfir Steinadalsheiði í Steingrímsfjörð. Þegar komið er af heiðinni, er stutt í Hólmavík. Dalasýsla er full af söguslóðum horfinna alda. Hún er því kjörstaður þeim sem vilja sameina frí og ferðalög, fróðleik og náttúruskoðun. Gönguleiðir, þar sem alltaf er eitthvað að sjá og fræðast af, eru óteljandi. Þar má nefna að ganga frá Staðarhólsá, þar sem Þverdalsá kemur í hana, á Hafratind, hæsta fjallið og niður Í Fagradal. Dalasýsla er yfirburðasigurvegari í sögnum fortíðar til nútíðar. Seinnitímaskáldin Stefán frá Hvítadal (bjó í Bersatungu), Jóhannes úr Kötlum, frá Goddastöðum og Steinn Steinarr uppalinn í Miklagarði, settu svip á öldina.

Menn segja að ódýrara sé að fara til sólarlanda, en ferðast um landið sitt, Ísland. Vissulega má vera meiri sanngirni í verðlagi. En í lokin verður, þrátt fyrir allt, það besta ávallt ódýrast.

ALBERT JENSEN,

Háaleitisbraut 129, Rvík.